Hjukrun.is-print-version

Samið um innágreiðslu í endurskoðaðri viðræðuáætlun

RSSfréttir
27. júní 2019

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og samninganefnd ríkisins hafa skrifað undir endurskoðaða viðræðuáætlun vegna tafa sem orðið hafa á gerð nýs kjarasamnings. Hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá ríkinu munu fá greidda 105 þúsund króna eingreiðslu þann 1. ágúst. 2019. Fjárhæð þessi er partur af fyrirhuguðum launabreytingum endurnýjaðs kjarasamnings, miðast við fullt starf og greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Upphæðin á að vera sambærileg við það sem lífskjarasamningur hefði gefið hjúkrunarfræðingum á sama tíma. 

Viðræður við Reykjarvíkurborg, Samband sveitarfélaga og Samband fyrirtækja í velferðarþjónustu eru styttra á veg komnar eða ekki hafnar og því hefur ekki hefur verið skrifað undir nýja viðræðuáætlun. Þess vegna á þessi innágreiðsla eingöngu við ríkisstarfsmenn. Eingreiðslan telst sem partur af heildar kjarasamningi og ætti að rata síðar til félagsmanna sem starfa eftir öðrum kjarasamningum og ekki að hafa áhrif á heildarmyndina.

Þá sammælast Fíh og ríkið um það í áætluninni að friðarskylda ríki til 15. september. Hlé verður gert á viðræðum á meðan skrifstofa Ríkissáttasemjara er lokuð í sumar, enda hefur reynslan sýnt að lítið gengur í kjaraviðræðum yfir hásumarið. Ef ekki hafa náðst samningar 15. september munu aðilar meta stöðuna með tilliti til þess hvort viðræðum verði fram haldið á grundvelli endurskoðunar á viðræðuáætlun eða að málinu verði vísað til sáttameðferðar hjá ríkissáttasemjara.

Gerðardómur hjúkrunarfræðinga rann út í lok mars en viðræður hófust um miðjan mars. Í upphafi viðræðna kynnti Fíh markmið í viðræðunum, ítarlega kröfugerð auk hugmynda um breytingar á vinnutíma. Viðræður hafa gengið hægt síðan þá og hafa að mestu snúist um styttingu vinnutíma og mögulega útfærslu á henni.

Ljóst er að gera þarf hjúkrunarfræðingum betur kleift að sinna starfi við hjúkrun og haldast í starfi í íslensku heilbrigðiskerfi. Það þarf að hækka dagvinnulaun, gera vaktavinnuumhverfi meira aðlaðandi með breytingum á vinnutíma og þá sérstaklega þar sem vaktabyrgði og álag er mikið, auk þess að virða hvíldartímatímaákvæði. Þrátt fyrir að kannanir og skýrslur hafi sýnt að  mikinn fjölda hjúkrunarfræðinga vanti til starfa hefur það ekki leitt til þess að raunhæfar tillögur hafi komið fram um varanlega lausn á þessum vanda. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu stjórnvalda og heilbrigðisstofnana hafa ekki skilað viðunandi árangri. Að mati Fíh er nóg komið af skýrslum og greiningum og tími kominn til að láta verkin tala.  

Ný kynslóð hjúkrunarfræðinga aðgreinir vinnu og einkalíf og lítur ekki á vinnuna sem lífstíl.  Semja þarf til framtíðar í nýjum kjarasamningi hjúkrunarfræðinga þannig að hjúkrunarfræðingar vilji og geti starfað áfram innan íslenska heilbrigðiskerfisins.

Upphæð eingreiðslu 105 þúsund kr. miðast við fullt starf og greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Greiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst 2019.

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála