Að loknu námi á náttúrufræðibraut í Menntaskólanum á Akureyri flutti Ilmur Dögg Níelsdóttir suður til að stúdera líffræði í HÍ með það að markmiði að gerast sæhestaprófessor og kafa um kóralrif Ástralíu. „Að tveimur viknum og ótal fyrirlestrum um plöntur og amöbur liðnum sá ég að þetta með sæhestana var nú ansi fjarlægur draumur og ef til vill ekki heppilegur framtíðarstarfsvettvangur, búandi á Íslandi.“ Hún ákvað því að setja þennan draum á salt og snúa sér að einhverju nytsamlegra að hennar sögn.
„Nú, auðvitað hjúkrun!“
„Eftir að hafa grúskað í Námskrá Háskólans blasti svarið við: Nú auðvitað hjúkrun! Ég hafði frá blauti barnsbeini verið ötull tombóluhaldari til styrktar Rauða kross Íslands og barnfórstrunámskeiðið þeirra kveikti áhuga á að hjálpa öðrum. Þetta lá nánast beint við, en samhliða menntaskólanámi vann ég á öldrunarheimili og var með yndislegan dreng með Down Syndrome í liðveislu. Hvoru tveggja þetta þótti mér ákaflega gefandi og eiginlega fáránlegt að sæhestapælingin hefði byrgt mér sýn á þessum frábæra starfsvettvangi sem hjúkrun er,“ segir Ilmur.
„Ég vatt mér því í klásus, komst inn og útskrifaðist fjórum árum síðan; árið 2005 og hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Þvert á móti. Þetta er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið því hjúkrun er ekki bara gefandi, heldur líka fjölbreytt starf sem felur í sér mörg spennandi tækifæri. Hver dagur er ólíkur þeim síðasta og mér hefur – í alvörunni - alltaf fundist alveg sjúklega gaman að mæta í vinnuna, en frá útskrift hef ég alltaf starfað við hjúkrun.“
„Allt þetta kom sér heldur betur vel þegar ég, blaut á bak við eyrun, leysti af sem hjúkrunarforstjóri á heilsugæslunni í Bolungarvík – korteri eftir útskrift.“
Ilmur lagði áherslu á að sækja sér klíníska reynslu með hjúkrunarnáminu, m.a. í aðhlynningu aldraðra á Droplaugarstöðum. Ég öðlaðist mikinn samhug og nánd á krabbameinsdeildinni og skólaðist svo heldur betur til í verklegri hjúkrun skurðsjúklinga á meltingafæraskurðdeildinni segir hún. „Allt þetta kom sér heldur betur vel þegar ég, blaut á bak við eyrun, leysti af sem hjúkrunarforstjóri á heilsugæslunni í Bolungarvík – korteri eftir útskrift. Um einyrkjastöðu var að ræða svo ég mátti gjöra svo vel að ganga í öll störf; mæðra- og ungbarnavernd, skóla- og heimahjúkrun, almenna móttöku, pantanir og hvaðeina. Afleysingin breyttist fljótt í fastráðningu og árin vestra urðu skyndilega þrjú. Virkilega lærdómsríkur tími og ég mæli svo sannarlega með því að allir hjúkrunarfræðingar prófi að starfa úti á landsbyggðinni. Þar lærir maður ekki bara sjálfstæð vinnubrögð og að bjarga sér, heldur líka að spyrja, spyrja, spyrja og spyrja ef maður er ekki viss, því eins og allir hjúkrunarfræðingar vita, þá getur enginn vitað allt en allir vita eitthvað og engin spurning er heimskuleg. Þarna lærði ég að leita mér upplýsinga, hvort heldur sem var hjá öðrum fagaðilum eða í heimi gagnreyndrar þekkingar, sem var mér dýrmætt nesti út í framtíðina.“
Eftir þetta ævintýri fór Ilmur aftur í sitt gamla starf, á meltingaskurðdeildina og síðar á bráðamóttökunni í Fossvogi. „Það var reynsla sem mér fannst ég, sem hjúkrunarfræðingur, hreinlega verða að öðlast; að sinna alvarlega og bráðveikum einstaklingum og vá, - þetta var reynsla sem ég hefði svo sannarlega ekki viljað sleppa (frekar en aðra, ef því er að skipta). Þvílíkir fagmenn sem þarna starfa við gríðarlega krefjandi en ofboðslega metnarðarfullar og inn á milli kómískar aðstæður.“
„Í gegnum tíðina hafði ég nefnilega fundið að þetta einlæga djúpa samtal við skjólstæðinga gaf mér svo mikið, þessi nálægð og það að geta verið til staðar og ekki notað neitt nema sjálfa mig. Engin tæki, bara mig sjálfa.“
Eftir að Ilmur hafði unnið í tæp þrjú ár í bráðageiranum með tilheyrandi vaktavinnu og hraða ákvað hún að hægja aðeins á sér og færa sig aftur yfir í það sem henni líkaði svo vel fyrir vestan; þ.e. heilsugæsluhjúkrun. Fyrir valinu varð fyrst og fremst skólahjúkrun, en á þessum tíma hafði hún nýlokið námskeið í áhugahvetjandi samtali. „Í gegnum tíðina hafði ég nefnilega fundið að þetta einlæga djúpa samtal við skjólstæðinga gaf mér svo mikið, þessi nálægð og það að geta verið til staðar og ekki notað neitt nema sjálfa mig. Engin tæki, bara mig sjálfa. Börnin mín eru bæði greind með ADHD og kvíða sem kannski gerir það að verkum að ég hef einlægan áhuga á líðan barna og velferð þeirra. Grunnskólaárin eru svo mótandi tími í lífi barna og mitt markmið er að hlúa vel að hverju og einu barni, eins vel og ég get og hjálpa þeim að útskrifast með góðar minningar, hugrekki til þess að vera þau sjálf og sterka sjálfsmynd,“ segir Ilmur.
Verkefnið Börnin bjarga verður að veruleika
Nú, fjórum árum síðar starfar Ilmur enn sem skólahjúkrunarfræðingur í Víðistaðaskóla, sem tilheyrir heilsugæslunni í Firði, Hafnarfirði þar sem hún og fjölskylda hennar býr. Ilmur er gift Jón Atli Magnússyni vélaverkfræðingi og saman eiga þau börnin Jóhann Ása, 12 ára, og Vigdísi Ásu, 8 ára, og kisuna Steinu. Hún segir mikinn metnað vera innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og starfsmenn óspart hvattir til símenntunar. Það varð til þess að hún bætti ég við sig 60 eininga sérnámi í heilsugæsluhjúkrun frá Háskólanum á Akureyri, auk diplóma í geðheilbrigði, á síðasta ári. Undanfarin tvö ár hefur hún tekið þátt í vinnu á vegum Þróunarstofu íslenskrar heilsugæslu sem snýr að endurskipulagningu á skyldufræðsluefni skólahjúkrunarfræðinga, heilt yfir landið. „Þessi vinna hefur bæði verið skemmtileg og gefið mér góða sýn á störf skólahjúkrunarfræðinga og tækifæri til þess að hafa áhrif á starfið,“ segir hún. Lokaverkefni hennar í sérnáminu snéri að því að innleiða endurlífgunarkennslu í fyrrnefnt skyldufræðsluefni. „Það er ánægjulegt að segja frá því að þetta verkefni, sem kallast Börnin bjarga, verður að veruleika frá og með næsta skólaári þegar árviss endurlífgunarkennsla verður innleidd í 6.-10. bekk og koma skólahjúkrunarfræðingar til með að sinna þeirri kennslu.
Hún segir starf skólahjúkrunarfræðinga vera allt í senn; gefandi, skemmtilegt, fjölbreytt og metnaðarfullt og sameinar að hennar mati allt það besta við hjúkrun. Hún hefur þó ekki alveg lagt bráðahanskann á hilluna og tekur enn einstaka aukavaktir á bráðamóttökunni, auk þess sem hún varð sér út um leiðbeinendaréttindi í skyndihjálp frá RKÍ fyrir rúmu ári síðan. Þá er hún aðildarfélagi í Endurlífgunarráði Íslands og situr í stjórn Rauða krossins í Hafnarfirði, sem og í stjórn Áfallasjóðs RKÍ. „Eins og ég segi; hjúkrun er svo ofboðslega fjölbreytt!!“
Meðvituð um mikilvægi streitustjórnunar
Ilmur segist svo sannarlega vera búin að finna sína hillu í lífinu. „Ég gæti ekki verið ánægðari með þá ákvörðun að láta sæhestana bara vera áhugamál en helga mig hjúkrun, sem hefur haft svo ótrúlega mótandi áhrif á líf mitt og það hvernig ég lít á heiminn. Það er dásamlegt að vinna við sitt helsta áhugamál, en auk hjúkrunar elska ég að vera úti í náttúrunni, ferðast um landið í fellihýsinu og skemmta mér í góðra vina hópi, en ég bý svo vel að vera mjög rík af vinum. Ég er mjög félagslynd og hef ríka þörf fyrir reglulega hittínga en er að sama skapi meðvituð um mikilvægi streitustjórnunar. Í þeim tilgangi nýti ég mér einn helsta kost hjúkrunar, sveigjanlegan vinnutíma sem gefur mér tækifæri á því að vera í 80% starfi svo ég get fengið gæðastund með sjálfri mér eftir hádegi tvisvar í viku. Þá stunda ég hugleiðslu og fer reglulega í Float í Suðurbæjarlauginni, en áhugi minn á núvitund fer sífellt vaxandi og stefni ég á að koma upp slökunarherbergi fyrir nemendur og kennara í Víðistaðaskóla frá og með næsta skólaári. Enn og aftur; þetta starf býður upp á svo marga möguleika og ég er svo þakklát því að vinna við hjúkrun.“