Hjukrun.is-print-version

„Hjúkrunarnámið hefur opnað fyrir mér miklu fleiri dyr en ég hef náð að kíkja inn um“

RSSfréttir
5. júlí 2019

Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir fagnaði bæði fimmtugsafmælinu og 20 ára hjúkrunarafmæli í ár en hún útskrifaðist 1999 frá Háskólanum á Akureyri. Upphaflega ætlaði hún alltaf í barnalækninn og síðar í ljósmóðurina og varð því hjúkrunarnámið fyrir valinu. Hún starfar í dag sem kennslu- og þjálfunarstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, lektor við HA og starfsmaður Endurlífgunarráðs Ísland. Þá fer hún í stöku sjúkraflug til Grænlands og Færeyja sem fljúga sjúklingum til Íslands eða Danmerkur eftir atvikum.

Fann sig fljótt í bráðahjúkrun

„Ég fann strax á námsárunum að mér hentaði vel bráðahjúkrunin, þar gerast hlutirnir hratt og starfið er aldrei eins, en ég hef aldrei verið þekkt fyrir mikla þolinmæði,“ segir hún. Hrafnhildur lauk sérnámi í bráðahjúkrun 2005 og meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á bráðahjúkrun 2008 og fékk löggildingu sem sjúkraflutningamaður sama ár. Árið 2012 fékk hún sérfræðileyfi í bráðahjúkrun. Hún hefur einnig sótt ýmis námskeið tengd hermikennslu, stjórnun ofl. „Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og hjúkrunarnámið hefur opnað fyrir mér miklu fleiri dyr en ég hef náð að kíkja inn um.“


„Að sitja löngum stundum og horfa á sama einstaklinginn í öndunarvél hentaði mér alls ekki. Að geta leyst litlu vandamálin jafnvel sjálfur, fá að brjóta heilann um hvað hrjáir skjólstæðinginn út frá sögu og klínískri skoðun, taka þátt í teymisvinnu í kringum mikið slasaðra og veika sjúklinga finnst mér alltaf jafn gaman.“

Hrafnhildur vann um tíma á gjörgæslu en þótti svæfingahjúkrunin á margan hátt líka spennandi, þá sérstaklega í bráðaaðstæðum. „Að sitja löngum stundum og horfa á sama einstaklinginn í öndunarvél hentaði mér alls ekki. Að geta leyst litlu vandamálin jafnvel sjálfur, fá að brjóta heilann um hvað hrjáir skjólstæðinginn út frá sögu og klínískri skoðun, taka þátt í teymisvinnu í kringum mikið slasaðra og veika sjúklinga finnst mér alltaf jafn gaman. Að þurfa að treysta á eigin innsæi og taka sjálfstæðar ákvarðanir – þar tengi ég líka við sjúkraflutningamanninn í mér. Að hjúkra einstaklingum á öllum aldri, bæði í veikindum sínum og vegna slysa, bæði stórra og smárra. Hvað kemur upp á þessari vakt?“

Áverkasjúklingar í uppáhaldi

Þrátt fyrir að störf Hrafnhildar hafi þróast í átt að endurlífgunarkennslu þá hefur áverkasjúklingurinn alltaf verið hennar uppáhald segir hún: „Ekki bara hjúkrun mikið slasaðra, heldur ekki síður sá sem bara datt eða snéri sig. Að taka á móti einstaklingi með slæma verki og grun um brot. Skoða, verkjastilla, senda í mynd, gipsa og senda heim miklu sáttari er ekki síður gefandi en að hlúa að mikið slösuðum eða veikum einstaklingi. Eitthvað sem ég fæ líklega aldrei leið á og vona að ég geti komið til skila í gegnum kennslu. Auðvitað hefur maður upplifað ýmislegt og fundist maður máttvana en skemmtilegu dagarnir hafa alltaf verið fleiri en hinir.“

Hrafnhildur segir að vegna umfangs námskeiða, m.a. í hermikennslu, á SAK hafi hún þurft að taka hlé frá klínískri vinnu sem hún hafði þá sinnt í 19 ár – þar af 17 á bráðamóttöku bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur umsjón með og kennir hermikennslu, endurlífgun og kemur að teymisþjálfun áverkateyma auk ýmissa annarra námskeiða á SAk. Hún segir að hermikennslan eigi hug hennar allan um þessar mundir þar sem hún getur speglað áralanga klíníska reynslu sína sem hjúkrunarfræðingur.

Hún hefur verið námskeiðsstjóri og leiðbeinandi í sérhæfðri endurlífgun barna og fullorðinna til margra ára og kennt slík námskeið fyrir SAk, LSH, Endurlífgunarráð Íslands og Sjúkraflutningaskóla á minni stofnunum um allt land, auk þess kenna reglulega erlendis á vegum evrópska endurlífgunarráðsins. Þá kenndi hún einnig nokkur slík námskeið fyrir nokkrum árum á vegum Alþjóða Rauða Krossins og Rauða hálfmánans í Palestínu sem að sögn hennar voru ansi fróðlegar ferðir. Auk þess að vera lektor við HA hefur hún einnig umsjón með námskeiðum í grunnnámi hjúkrunarfræðideildar og í framhaldsnámi á heilbrigðisvísindasviði HA. Þá er hún einnig þátttakandi í norrænum samstarfsverkefnum um nám bráðatækna til BS gráðu.


„Hjúkrun er bara eitthvað sem ekki er hægt að verða leiður á því það er alltaf hægt að gera eitthvað nýtt innan hennar.“

Að sögn Hrafnhildar eru kostir starfsins endalausir. „Hjá mér er það fjölbreytileikinn í starfinu sjálfu og jafnvel vinnutímanum.“ Hún er búin að prófa ýmislegt í þeim efnum, bæði 100% klíníska vinnu með mikilli næturvaktaskyldu og dagvinnu sem er ekki síður fjölbreytileg. „Hjúkrun er bara eitthvað sem ekki er hægt að verða leiður á því það er alltaf hægt að gera eitthvað nýtt innan hennar.“

Hrafnhildur á þrjár dætur, fæddar 1991, 1995 og 2006. Þegar hún hóf hjúkrunarnámið var miðjubarnið eingöngu tveggja vikna og eftir námið gafst enginn tími í barneignir að sögn Hrafnhildar. „Sú þriðja kom því seint, ekki vegna makaskipta sem ég er endurtekið spurð að þegar barneignahléið ber á góma því ég er nefnilega búin að búa með sama manninum í 29 ár.“ Helstu áhugamálin eru ferðalög, og ekki síst á mótorhjóli. „Annars er ég að prófa mig í golfinu þessa dagana enda komin á þann aldur,“ segir hún.



Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála