12.
júlí 2019
Kostir þess að vinna á heilsugæslu er hreyfanleiki starfsins segir Bjarnheiður Böðvarsdóttir, hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni á Selfossi. „Mér hefur fundist mjög skemmtilegt að vinna í heilsugæslunni og finnst gaman að geta sinnt fólki á öllum aldurstigum. Í heilsugæslunni fylgjum við fólki frá vöggu til grafar og þar er fjölskylduhjúkrun mjög mikilvæg.“
Hreyfanleiki starfsins felst í að hjúkrunarfræðingar fara heim til fólks í vitjanir, bæði í ungbarnaverndinni og svo í heimahjúkrun, og svo höfum við hér á Selfossi verið með heilsueflandi heimsóknir fyrir alla sem eru 80 ára segir Bjarnheiður. „Í mínu umdæmi þarf oft að fara um langan veg út í sveitir og í aðra þéttbýliskjarna. Það er öðruvísi þegar þú hittir fólk á sínum heimavelli heldur en á heilsugæslunni. Einnig finnst mér svo áhugavert hvað heilsugæslan getur annast fólk á heildrænan hátt.“
Alltaf litið á sig sem hjartahjúkrunarfræðing
Bjarnheiður Böðvarsdóttir hefur alltaf litið á sig sem „hjartahjúkrunarfræðing“ en hún hóf að vinna á hjartadeild Landspítalans eftir að hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við HÍ árið 2005. „Mér þykir ótrúlega vænt um hjartadeildina.“ Árið 2011 flutti hún svo til Selfoss þar sem hún ólst upp og byrjaði að starfa á heilsugæslunni. Þar hefur hún sinnt flestum störfum sem heilsugæslunnar eins og heimahjúkrun, skólaheilsugæslu, ungbarnavernd og almennri móttöku. Einnig hefir hún sinnt lífstílsmóttöku fyrir fólk í ofþyngd.„Offita er og verður stórt heilsufarsvandamál um heim allan og er áhættuþáttur fyrir ýmsum krónískum sjúkdómum. Þessir hópur finnur oft fyrir holdarfarsfordómum og eru þeir algengir í heilbrigðiskerfinu sem og í samfélaginu öllu.“
„Lífstílsmóttakan hefur verið mitt áhugamál og hefur mér fundist áhugavert að sinna þessum skjólstæðingahóp sem oft á tíðum hefur fjölþættan heilsufarsvanda og þarf mikinn stuðning og langvarandi eftirfylgd. Offita er og verður stórt heilsufarsvandamál um heim allan og er áhættuþáttur fyrir ýmsum krónískum sjúkdómum. Þessir hópur finnur oft fyrir holdarfarsfordómum og eru þeir algengir í heilbrigðiskerfinu sem og í samfélaginu öllu,“ segir Bjarnheiður. Rannsóknir sýna að fordómar gagnvart holdarfari draga úr heilsuhegðun einstaklinga, minnka sjálfstraust og getur orðið til þess að fólk leiti sér ekki heilbrigðisþjónustu vegna ótta við fordóma. Þess vegna þarf heilbrigðisstarfsfólk að vera meðvitað um þetta segir hún.
Síðastliðið haust hóf hún í diplómanám í heilsugæsluhjúkrun við Háskólann á Akureyri sem er klínískt nám meðfram vinnu. „Þetta nám hefur verið ákaflega lærdómsríkt og krefjandi. Svo er gaman að kynnast fleiri hjúkrunarfræðingum úr heilsugæslunni alls staðar af landinu.“
Heilsugæslan í mikilli sókn
Ástæðan fyrir að Bjarnheiður ákvað að leggja fyrir sig hjúkrun var að hana langaði alltaf að vinna eitthvað með fólki. „Ég prófaði svo að vinna í býtibúrinu og sem gangastúlka á sjúkrahúsinu hér á Selfossi. Þá fannst mér störf hjúkrunarfræðinganna mjög áhugaverð og ákvað í kjölfarið að skrá mig í hjúkrun. Mér fannst námið strax mjög áhugavert og hef aldrei séð eftir því námsvali.“Ég tel að heilsugæslan sé í mikilli sókn þessa dagana segir hún, og að tækifæri hjúkrunarfræðinga séu mikil. „Við þurfum að vera á tánum með að nýta okkur sóknarfærin og notfæra okkur þekkingu hjúkrunarfræðinga meira í heilsugæslunni. Sérhæfðar móttökur hjúkrunarfræðinga eru víða í heilsugæslunni og tel ég að það þurfi að samræma milli stöðva. Samstarf milli stofnanna mætti vera meira að mínu mati og tilvísun einstaklinga til hjúkrunarfræðinga gæti verið í mun meiri mæli.“
Bjarnheiður er gift Brynjari Inga Magnússyni og eiga þau þrjú börn, þau Eddu Ríkey 9 ára, Arnar Bent 7 ára og Magneu Kristínu 2 ára. Barnauppeldi tekur eðlilega mikinn tíma en hún reynir að flétta saman samverustundir fjölskyldunnar og áhugamálin sem eru útivist og hestamennska. Þá hefur hún sungið í kór stóran hluta ævi sinnar og hef mikla ánægju af.