Hjukrun.is-print-version

Formannspistill

RSSfréttir
15. júlí 2019

Ágætu hjúkrunarfræðingar.

Nú yfir hásumarið er hlé í kjaraviðræðum við viðsemjendur félagsins enda reynslan sýnt að lítið gengur í þeim á þessum árstíma. Ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitafélaga (SNS) hafa samið við Fíh um innágreiðslu vegna tafa í samningaviðræðum og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) hafa hvatt sín aðildarfélög til að gera slíkt hið sama. Upphæðin er sambærileg við það sem lífskjarasamningurinn hefði fært hjúkrunarfræðingum á sama tíma og kemur til greiðslu 1. ágúst.

Einnig höfum við gengið frá endurskoðaðri viðræðuáætlun og hefst samtalið að nýju um miðjan ágúst. Fram að þessu hefur verið hægagangur í viðræðunum, en bind ég miklar vonir við að almennilegur gangur komist í þær að loknum sumarleyfum. Ef ekki verður búið að semja um miðjan september, munum við meta stöðuna á ný og ákveða hvort viðræðum verði haldið áfram eða málinu vísað til ríkissáttasemjara.

Nýafstaðinn er fundur og ráðstefna á vegum Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) í Singapore sem ég og sviðsstjóri fagsviðs sóttum. Þarna voru samankomnir fulltrúar 88 landa á fundinum og vel yfir 5000 hjúkrunarfræðingar sóttu ráðstefnuna. Þó greinilegt sé að við erum öll meira og minna að takast á við svipaðar áskoranir fengum við heilmikið veganesti og fróðleik sem verður nýttur inn í áframhaldandi starf félagsins. Mig langar sérstaklega að nefna hér nýjustu rannsóknarniðurstöður Dr. Lindu Aiken og félaga en þær sýna enn og aftur að betri mönnum hjúkrunarfræðinga er lykilatriðið í bættu heilbrigðiskerfi. Færri sjúklingar á hvernig hjúkrunarfræðing á spítölum sýna meðal annars: lægri dánartíðni, færri endurinnlagnir, styttri sjúkrahúslegu, færri innlagnir á gjörgæsludeildir, aukna ánægju sjúklinga, meiri starfsánægju og færri hjúkrunarfræðinga sem lenda í kulnun í starfi.

Einnig kom Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á fundinn og hann þreytist seint á að tala um að svo hægt sé að tryggja öllu fólki rétt til heilbrigðisþjónustu, verði að draga úr skortinum á hjúkrunarfræðingum. Hann heldur því fram að hjúkrunarfræðingar séu mikilvægasti hlekkurinn milli samfélagsins og heilbrigðiskerfisins. Mér fannst sérstaklega ánægjulegt að sjá og heyra áhrifamikið valdafólk tala allt með sömu röddinni, hvort sem var í kynningu óvéfengjanlegra rannsóknarniðurstaðna eða tilmæli og áherslur frá opinberum alþjóðlegum stofnunum. Ég mun halda áfram að koma þessum skilaboðum áfram til íslenskra yfirvalda en þau eru ekkert annað en staðfesting á því sem við vissum og höfum þegar fær rök fyrir.

 

Heilmikil fjölskylduhátíð verður haldin í Árbæjarsafni 15. ágúst næstkomandi og er hún tileinkuð börnum hjúkrunarfræðinga og þeim börnum sem hjúkrunarfræðingar hafa hjúkrað í 100 ár. Í mínum huga þýðir það allir landsmenn. Þar verður kærkomið tækifæri fyrir okkur til að koma saman, eiga skemmtilegan dag og fyrir þá sem ekki ennþá hafa séð sögusýninguna um hjúkrun í 100 ár, er um að gera að skoða hana. Nú þegar hefur hún vakið eftirtekt og er einstaklega vel heppnuð. Ég hlakka til að sjá sem flesta hjúkrunarfræðinga með fjölskyldur sínar og börn 15. ágúst á Árbæjarsafni.

Nú eru sumarfríin á hámarki og einhverjir hjúkrunarfræðingar þegar komnir til starfa eftir vonandi gott sumarfrí og hafa náð að hlaða batteríin. Ég vona að þið sem eruð í fríi eða eigið eftir að fara í frí, náið einnig að njóta þess vel með fjölskyldu og vinum.

Hafið það sem allra best í sumar!

Guðbjörg

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála