Hjukrun.is-print-version

Óseðjandi forvitni um mannlegt eðli

RSSfréttir
13. ágúst 2019

Hrafn Óli Sigurðsson, sérfræðingur í geðhjúkrun, hefur verið búsettur í New York meira og minna undanfarin 30 ár. Hann starfar nú sem Nurse Practitioner í ráðgafahóp fyrir vímuefnamisnotkun meðal sjúklinga sem leggjast inn á hand- og lyflækningadeildir á einu af borgarsjúkrahúsunum í New York borg, auk þess sem hann rak eigin stofu í 10 ár.

„Alltaf verið í skóla af einu eða öðru tagi“

Það er óhætt að segja að menntun hafi leikið stóran part af lífinu hans Hrafn Óla. „Ég hef alltaf verið í skóla af einu eða öðru tagi,“ og það eru orð að sönnu því eftir að hann lauk stúdentsprófi frá MA 1976 kláraði hann tónlistarnám við Royal Academy of Music í London. Þaðan lá leiðin í hjúkrunarfræði sem hann síðan lauk við HÍ 1984. Þá fór hann í meistaranám klínísks sérfræðings í hjúkrun fullorðinna og viðbótarnám í hjúkrunarkennslu. Síðan lauk hann doktorsnámi í hjúkrunarkenningum og rannsóknum við Adelphi University í New York. En hann lét ekki staðar numið í menntun heldur fór í framhaldsnám í sálgreiningarmeðferð einstaklinga, og í kjölfarið í nám í hópmeðferð við Training Institute for Mental Health í New York. Þá lá leiðin í „post-master“ sem Nurse Practitioner í geðhjúkrun frá Hunter-Bellevue School of Nursing, New York og síðast kom svo viðbótarnám „Integrative Harm Reduction Psychotherapy” frá Center for Optimal Living, New York.

Vann sem „gangastrákur“ við að skúra gólf sumarið 1972

Áhugi Hrafns Óla á hjúkrun má rekja allt aftur til unglingsáranna en þá réð hann sig sem „gangastrák“ á handlæknisdeildinni á FSA við að skúra gólf sumarið 1972. „Það var alveg stórkostlegur tími í minningunni, sérstaklega þegar Elsa deildarstjóri dýfði litlafingri í fötuna til að kanna hitastigið á skúringavatninu,“ rifjar hann upp. „Maður varð auðvitað að skipta um vatn á milli stofa og það átti að vera heitt! Og svo í skolinu, að skrúbba stálföt og nýrnabakka með grænsápuvatni og setja svo allt í stóran og djúpan pott sem var innbyggður í stálborðið við hliðina á vaskinum og sjóða í 20 mínútur. Eða hreinsa óhreinindi - með öðrum orðum saur og uppköst - úr tauinu áður en það fór í þvottahúsið. Og næturvaktir í viku í einu og tvískiptu vaktirnar, 7-12 og 5-8." 

Ákvörðun um framtíðarstarfsvettvanginn byggist á óseðjandi forvitni Hrafns Óla um mannlegt eðli. Auk þess hve hjúkrunarfræðingar unnu náið með sjúklingunum í gamla daga hafði mikið um það að segja að hjúkrun varð fyrir valinu.
Núna finnst mér það alveg frábært að hafa kynnst vinnunni á þessum tíma, að ná rétt í endann á gömlum vinnuaðferðum og vinnumenningu.“ Ákvörðun um framtíðarstarfsvettvanginn byggist á óseðjandi forvitni Hrafns Óla um mannlegt eðli. Auk þess hve hjúkrunarfræðingar unnu náið með sjúklingunum í gamla daga hafði mikið um það að segja að hjúkrun varð fyrir valinu. Eða eins og hann orðar það: „Og það var og er mest gefandi.“

Sjálfstæðið í hjúkrunarstarfinu er skemmtilegast

Það skemmtilegasta við hjúkrunarstarfið er sjálfstæðið að sögn Hrafns Óla. „Ég vinn núna með tveimur læknum og við þrír skiptum á milli okkar beiðnunum sem inn koma og við vinnum svo úr þeim með hinum meðlimum teymisins,“ segir hann, en auk þeirra samanstendur teymið af einum félagsráðgjafa, tveimur vímuefnaráðgjöfum og þremur jafningjaráðgjöfum (Peer Counselors). „Sem betur fer er sviðsstjórinn yfir geðlækningunum fínn, auk þess að vera Íslandsvinur, og ég verð ekki var við að hann geri mun á mér og læknunum sem ég vinn með.“ Borgarsjúkrahúsið sem Hrafn Óli vinnur við er hluti af Health and Hospitals Corporation í New York sem er stærsta borgarheilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum með 11 sjúkrahús, yfir 70 heilsugæslustöðvar, yfir 40 þúsund starfmenn og sinnir 1.5 milljón fólks.

Hætti rekstri eigin stofu til að geta komið meira heim

Þar til nýlega rak hann eigin stofu en að sögn hans hætti hann því til að geta komið meira heim. „Mér fannst mér mjög gefandi að vinna á stofunni og þar réð ég mér sjálfur. Svo hefur alltaf verið gaman að kenna en það hef ég alltaf gert frá því að ég byrjaði á Borgarspítalanum forðum daga,“ segir hann. Hrafni Óla hefur þó alltaf þótt vænst um hlutverk klínísks sérfræðings. „Þar þar kemur maður að beinni klínískri vinnu, kennslu, ráðgjöf, yfirferð á kerfis- og stefnumálum – eða einfaldlega að reyna að fá kerfið til að virka betur. Besti parturinn er þó tvímælalaust að vinna beint í meðferð með fólki því sálgreining og aðferðir sem byggjast á henni eru bara svo spennandi.“

Hrafn Óli er giftur Dr. David N. Ekstrom og á tvo uppkomna syni, þá Gunna Inga og Stefán Odd, og er nýlega orðinn afi. Fjölskyldur þeirra beggja eru búsettar á Íslandi. Helstu áhugamálin eru klassísk tónlist og allt sem lýtur að þekkingu á sálgreiningu.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála