Síðastliðinn föstudag fékk Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tilkynningu frá Landspítala um að framkvæmdastjórn spítalans hafi ákveðið að hætta að greiða hjúkrunarfræðingum vaktaálagsauka frá og með 1. september sl.
Vaktaálagsauki hjúkrunarfræðinga var settur á þann 1. apríl 2017 sem viðleitni til að bæta mönnun á vöktum utan dagvinnutíma og gekk út á að hjúkrunarfræðingum sem unnu tiltekinn fjölda tíma utan dagvinnumarka var greitt 5% álag á heildarlaun.
Verkefnið hefur verið framlengt nokkrum sinnum af framkvæmdastjórn Landspítala, en samkvæmt tilkynningu til Fíh er fjárhagsstaða spítalans með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að láta staðar numið og verður því ekki um að ræða aðra framlengingu. Síðasta greiðsla vaktaálagsauka kemur til útborgunar 1. nóvember næstkomandi.
Fíh hefur komið á framfæri formlegum mótmælum til yfirstjórnar Landspítala bæði hvað varðar ákvörðunina sjálfa og eins vegna þess með hve skömmum fyrirvara þetta er tilkynnt hjúkrunarfræðingum.
Fíh lýsir yfir miklum vonbrigðum með þetta innlegg Landspítala inn í kjaraviðræður sem eru í gangi við fjármálaráðherra. Skerðing á kjörum hjúkrunarfræðinga í miðjum viðræðum mun gera lítið annað en að auka á þann vanda sem fyrir er varðandi mönnun hjúkrunarfræðinga. Ekki hjálpar til að ákvörðunin er tilkynnt með stuttum fyrirvara þegar víða er búið að leggja fram vaktaskýrslur nokkra mánuði fram í tímann sem taka mið af þessum greiðslum. Fíh harmar þessi vinnubrögð.