Hjukrun.is-print-version

Heillaður af gjörgæsluhjúkrun

RSSfréttir
6. september 2019

Árni Már Haraldsson byrjaði feril sinn innan heilbrigðisgeirans sem starfsmaður á deild 12 á Kleppi og vann þar meðfram hjúkrunarnáminu í 50% starfi. Eftir verknám á gjörgæslu á þriðja ári í náminu varð ekki aftur snúið, en hann starfar nú sem deildarstjóri á gjörgæslu og vöknun við Hringbraut.

„Ég bara heillaðist af gjörgæslunni,“ segir Árni Már en hann hóf strax að vinna á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi eftir útskrift og vann þar í tvö ár. Þá lá leiðin til Danmerkur og hóf hann störf á gjörgæsludeild á Bispebjerg spítalanum í Kaupmannahöfn. Þar vann hann í 5 ár og samhliða þeirri vinnu fór hann í framhaldsnám í gjörgæsluhjúkrun og útskrifaðist 2011. Árni Már flutti heim ásamt fjölskyldu sinni árið 2013 en hann er giftur Hrafnhildi Hlín Hjartardóttur og eiga þau dæturnar Emblu Guðlaug, sem er 7 ára, og Kolfinnu Láru 2ja ára. Þegar heim kom hóf hann að starfa fyrir starfsmannaleigu í Noregi og á tveggja ára tímabili vann hann á ótal gjörgæsludeildum þar í landi. „Ég vann mikið í 2-3 vikur og var svo í fríi í aðrar 2 vikur þess á milli. Þetta var mjög áhugaverður tími og gaman að geta séð margar ólíkar gjörgæsludeildir,“ segir hann.


Árni Már kynntist störfum hjúkrunarfræðinga ungur að árum en móðir hans er hjúkrunarfræðingur. „Það hefur án efa haft töluverð áhrif á val mitt.“

Árni Már kynntist störfum hjúkrunarfræðinga ungur að árum en móðir hans er hjúkrunarfræðingur. „Það hefur án efa haft töluverð áhrif á val mitt.“ Þegar hann vann á Kleppi eftir menntaskóla hugleiddi hann að fara í sálarfræðina en eftir að hann kynntist fjölbreyttu starfssviði hjúkrunarfræðinga varð hjúkrunarfræðin ofan á. „Það sem heillaði mig kannski mest var að hjúkrunarfræðingarnir voru með ótrúlega vítt starfssvið og komu eiginlega að öllu sem tengdist sjúklingnum og líka starfseminni í kringum það. Ætli það hafi ekki verið það sem heillaði mig mest og svo seinna þegar námið byrjaði þá sá ég hvað þetta var gríðarlega fjölbreytt og margt í boði innan hjúkrunargeirans.“

Spennandi að sinna veikustu sjúklingunum

Það skemmtilegasta við hjúkrun að mati Árna Más er sú heildræna nálgun sem hjúkrunarfræðingar beita við umönnun sjúklinga og á gjörgæslunni er mikil fjölskylduhjúkrun samhliða því að hugsa fyrir öllum þörfum sjúklings. „Svo verð ég líka að segja að tækjaumhverfið á gjörgæslunni hefur alltaf heillað mig ótrúlega mikið og það að vera með veikustu sjúklingana finnst mér líka mjög spennandi,“ segir hann. „Síðan hef ég mjög gaman af mannlegum samskiptum og það er nóg af þeim þegar maður er deildarstjóri á stórri deild eins og gjörgæslan er,“ en starfsmenn gjörgæslunnar eru tæplega 90 og mannauðshluti starfsins því ansi viðamikill að sögn hans.

Á sumrin fer Árni Már eins oft og hann getur í veiði en hann segir stangveiðina eiga hug hans allan núna, en hann veiðir eingöngu á flugu. „Það er ótrúlega róandi að stunda fluguveiði og örugglega ein af betri núvitundaræfingum sem til eru. Ég hef líka mikinn áhuga á tónlist og er eiginlega alæta á alla tónlist þó svo ég hafi sérstakan áhuga á þungarokki,“ segir hann.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála