Hjukrun.is-print-version

Hjartað slær á Landspítala

RSSfréttir
Ljósmynd: Þorkell Þorkelsson
13. september 2019

Bylgja Kærnested, deildarstjóri á hjartadeild Landspítala, vissi ekkert hver Florence Nightingale var eða átti einhvern nákominn í hjúkrunarfræði þegar hún hún ákvað að skrá sig í hjúkrun eftir að hafa lokið stúdentsprófi við í Kvennaskólann í Reykjavík. Það var tilviljun sem réði því frekar en köllun segir hún, en áhugi hennar á samskiptum, heilsu og velferð þess réði þar mestu.

Orkumikil og óþekk á köflum

Bylgja er fædd árið 1973 og alin upp í Reykjavík. „Ég hef alltaf verið ákaflega orkumikil og sennilega óþekk á köflum enda var ég send í sveit frá 10 ára aldri. Þar lærði ég sveitastörf og í raun og veru að vinna svona alvöru vinnu. Sú reynsla hefur fylgt mér alla tíð og gerði mér gott,“ segir hún.

„Landspítalinn er minn staður, þar slær hjartað og hann er án efa besti vinnustaður landsins.“
Eftir að hún útskrifaðist úr hjúkrun við HÍ 1997 réð hún sig á Landspítala og hefur unnið þar allar götur síðan, en hún lauk síðan meistaraprófi í stjórnun 2006. „Landspítalinn er minn staður, þar slær hjartað og hann er án efa besti vinnustaður landsins.“ Hún segir samstarfsfólkið sitt vera framúrskarandi enda sé það einkennandi fyrir Landspítalann sem vinnustað að hann samanstandi af starfsfólki sem hefur einlægan áhuga á samskiptum og vill láta gott af sér leiða og hjálpa öðrum. „Það sem gerir hjúkrun svo dásamlegan starfsvettvang er allur fjölbreytileikinn. Hver dagur er ný áskorun.“

Laun hjúkrunarfræðinga sorglega lág miðað við ábyrgð

Bylgja segir starfið oft vera krefjandi og ábyrgðin sé mikil. „Hjúkrunarfræðingar fá ekki greitt miðað við þá ábyrgð sem þeir taka á sig og það sé óásættanlegt. Ég sé það oft að hjúkrunarfræðingar teygja sig mun lengra en þeim ber. Þeir setja sjúklinginn og hans öryggi í fyrsta sæti og það tekur of á. Leiðrétta þarf laun hjúkrunarfræðinga enda sorglega lág miðað við ábyrgð og vinnutíma,“ segir hún.

„Það eru svo mikil forréttindi að starfa við hjúkrun, fá að vera til staðar fyrir sjúklinga og láta gott af sér leiða. Enn í dag hlakka ég alltaf til í að koma í vinnuna enda starfa ég með framúrskarandi starfsfólki sem eflir mig og hvetur alla daga.“
Markmið Bylgju sem deildarstjóra á hjartadeild er að vera til staðar fyrir starfsmenn deildarinnar og tryggja þeim möguleika á að veita sjúklingum örugga og góða þjónustu. „Mér finnst hlutverk mitt í raun og vera að skapa sýn, tryggja að sem flestir fái að njóta sín og fái að vera besta útgáfan af sjálfum sér,“ segir hún jafnframt. „Það eru svo mikil forréttindi að starfa við hjúkrun, fá að vera til staðar fyrir sjúklinga og láta gott af sér leiða. Enn í dag hlakka ég alltaf til í að koma í vinnuna enda starfa ég með framúrskarandi starfsfólki sem eflir mig og hvetur alla daga.“ Bylgja er sjálfboðaliði á Frú Ragnheiði sem er þjónusta við fólk í fíknivanda sem byggir á skaðaminnkun. „Þar hef ég líka lært mikið en þangað sækja hugrakkir einstaklingar sem hafa farið út af sporinu.“

Bylgja á unnusta og þrjú börn frá aldrinum 13 til 22 ára. Hún hefur mikinn áhuga á útivist og hreyfingu, svo sem hjólreiðum, hlaupum og skíðamennsku og lauk fyrir stuttu hálfum járnkarl. Hún segist þó hæglega getað slakað á með góða bók og les hún oft sér til yndis og ánægju þrátt fyrir að margir eigi bágt með að trúa því. „En það er dagsatt,“ segir hún.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála