Í maí síðastliðnum ákvað Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) að koma á árlegum alþjóðlegum degi sem tileinkaður væri öryggi sjúklinga. Markmið dagsins er að auka vitund fólks um öryggi sjúklinga, hvetja til samstöðu og aðgerða á heimsvísu og fá þannig fólk til að sameinast um að gera heilbrigðiskerfið öruggara en það er í dag.
Fleiri deyja vegna mistaka í heilbrigðiskerfinu en í flugslysum
Settar voru fram 10 staðreyndir um öryggi sjúklinga og kemur þar m.a. fram að í dag er áætlað að 4 af hverjum 10 sjúklingum verði fyrir skaða innan heilbrigðiskerfisins. Til samanburðar er áætlað að á sama tíma og 1 af hverjum 3 milljónum eigi á hættu að deyja í flugi, er hlutfallið 1 á móti 300 hjá sjúklingi sem verður fyrir mistökum í meðferð í heilbrigðiskerfinu. Talið er að hægt sé að koma í veg fyrir allt að 80% mistaka sé öryggi sjúklinga aukið. Mistök tengd lyfjagjöfum geta valdið alvarlegum skaða og jafnvel leitt til dauða. Þau eru ein aðalorsök atvika sem væri hægt að fyrirbyggja þar sem mistökin eru m.a. rakin til þreytu í starfi, slæms starfsumhverfis og skorts á starfsfólki.
Margar stórar fjölþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á alvarlegar afleiðingar fyrir gæði heilbrigðisþjónustunnar og öryggi sjúklinga þegar hjúkrunarfræðinga skortir til starfa í heilbrigðiskerfinu. Þær sýna að hærra hlutfall hjúkrunarfræðinga af heildarmannafla við hjúkrun tengist beint betri útkomum sjúklinga eins og lægri dánartíðni, færri endurinnlögnum, styttri sjúkrahúslegu, færri innlögnum á gjörgæslu, aukinni ánægju sjúklinga og hjúkrunarfræðinga og að færri hjúkrunarfræðingar kulna í starfi.
Örugg mönnun hjúkrunarfræðinga bjargar mannslífum
Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Dr. Tedros Adhanom, telur hjúkrunarfræðinga vera mikilvægustu stéttina í heilbrigðiskerfinu enda er stéttin, ásamt ljósmæðrum, helmingur alls heilbrigðisstarfsfólks í heiminum. Örugg mönnun hjúkrunarfræðinga bjargar mannslífum og er auk þess fjárhagslega hagkvæm. Þess vegna þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum, halda þeim sem fyrir eru í starfi og fá þá sem hætt hafa að starfa við hjúkrun aftur til starfa.
Fram kemur í nýrri metnaðarfullri heilbrigðisstefnu fyrir íslenskra heilbrigðisþjónstu til ársins 2030 hvernig auka eigi gæði þjónustunnar og að mikilvægt sé að mönnun samræmist umfangi heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja gæði og öryggi hennar. Við höfum því skýra stefnu til að vinna eftir og aðgerðaráætlun til næstu fimm ára. Einnig þarf sterka forystu ráðamanna sem forgangsraða öryggi sjúklinga efst á oddinn, gögn sem sýna fram á bætt öryggi, vel menntað og hæft starfsfólk og virka þátttöku sjúklinga í sinni eigin umönnun. Allir þessir þættir geta stuðlað að verulegum úrbótum í öryggi sjúklinga og er það hlutverk yfirvalda, heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og aðstandenda að sameinast í því verkefni.