Hjukrun.is-print-version

Alin upp af frábærum hjúkrunarfræðingum

RSSfréttir
27. september 2019

Fyrir algjöra tilviljun fékk Sigurveig Gísladóttir sumarvinnu á gamla spítalanum á Seyðisfirði þegar hún var rétt orðin 16 ára gömul. Hún fékk eina vakt í aðlögun og var svo hent í djúpu laugina og vann næstu sumur þar meðfram námi. Hún er nú aðstoðardeildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði.

„Á Seyðisfirði má segja að ég sé alin upp af frábærum hjúkrunarfræðingum í gegnum tíðina sem hafa kennt mér hversu mikilvægu hlutverki við sinnum í samfélagi okkar og hversu mikinn þátt við getum átt í að þróa þá starfsemi sem við erum að veita og ekki síst að gefast ekki upp í þeirri viðleitni. Ég hef trú á því að það sé stór hluti af því að við á Seyðisfirði höfum verið nokkuð rík af hjúkrunarfræðingum og ungt fólk síðustu árin hefur leitað í þetta nám sem við erum gríðarlega stolt af,“ segir Sigurveig.

„Á meðan flestir tala um bestu árin sín í menntaskóla var það aldrei mín upplifun en Háskólinn á Akureyri kallar fram þessar tilfinningar hjá mér.“
Sigurveig, sem er 46 ára, útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2000. „Ég hef verið dugleg að halda mig við Háskólann á Akureyri sem ég upplifi að hafi verið minn skóli fram yfir alla aðra skóla sem ég hef komið í,“ segir hún en hún lauk þar síðar kennsluréttindanámi árið 2008. „Á meðan flestir tala um bestu árin sín í menntaskóla var það aldrei mín upplifun en Háskólinn á Akureyri kallar fram þessar tilfinningar hjá mér. Ég verð alltaf jafn stolt þegar ég kem þangað og sé hvernig þessi skóli hefur þróast en samt haldið sínum persónulegu einkennum sem samheldið samfélag þar sem nemendur og starfsfólk hafa einlægan áhuga á sínu fólki.“

Áhugasöm um umönnun heilabilaðra

Eftir miklar vangaveltur hóf Sigurveig diplómanám í heilbrigðisvísindum árið 2013 við HA en lét ekki þar við sitja og lauk meistaranámi í öldrunarhjúkrun sumarið 2019. „Ég var alltaf eitthvað svo viss um að meistaranám væri ekki fyrir mig, að ég þyrfti einhverja meiri klíníska leið í námi en svo þegar ég byrjaði í náminu var okkur ráðlagt að halda okkur í verkefnavali alltaf á okkar sérgreinarlínu og áhugasvæði og vinna okkur þannig upp í rannsóknina. Ég fylgdi þessum leiðbeiningum frá upphafi og allt námið gat ég nýtt á mjög markvissan hátt sem nýttist mér beint í starfi og gaf mér gríðarlega mikið vegna þess. Áhugasvið mitt var á sviði umönnunar einstaklinga með heilabilun og þá sérstaklega þeirra sem kljást við hegðunarvanda heilabilunar. Meira að segja valáfangarnir mínir í stjórnun og heilsugæslu fundu sér farveg sem nýttust mér en ekki hvað síst hefur þetta framhaldsnám dýpkað mig sem fagaðila, aukið víðsýni og gefið mér innspýtingu í að vilja vinna að sem bestum hag skjólstæðinga minna. Svo er auðvitað spurning hvort ég þurfi ekki að halda áfram svo ég geti sveiflað fingrum fimlega og sagst vera með 5 háskólagráður.“

Sjálfstæði og þrautseigja skiptir öllu

Sigurveig segir starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga hafa mikið breyst frá því að hún hóf störf á gamla spítalanum á Seyðisfirði en þá var til að mynda reykt í morgunrapportinu! „Við fengum ótrúleg verkefni á nóttu sem degi og aðstæður sem ég upplifði þarna sem unglingur eru svo ólíkar því sem ég myndi bjóða talsvert eldri sumarstarfsmönnum mínum uppá í dag. Það var því kannski undarlegt að ég skyldi út frá þessu ákveða að fara í hjúkrun, en kannski var það einmitt þetta sem heillaði mig, þessi óteljandi verkefni, sjálfstæði og þrautsegja sem þarf til að vera í þessu starfi, í bland við þessa sérstöku nánd og tengsl við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra,“ segir hún.

Heilluð af hugarheimi heilabilunarsjúkdóma

Kostir starfsins eru óteljandi að mati Sigurveigar - og ekki síst fjölbreytileikinn, þá bæði hjúkrunin í sjálfu sér, sem og þeir sem veljast í fagið. „Stundum hugsa ég einmitt um útskriftarhópinn minn og hvað við höfum farið gríðarlega ólíkar leiðir á síðustu 20 árum,“ rifjar hún upp. „Fyrir mig persónulega finnst mér starf mitt skemmtilegt og gefandi. Ekki síst vegna sjálfstæðis og möguleikum til að stýra verkefnum og koma hugmyndum í framkvæmd. Mér finnst gaman að vinna í InterRAI matinu og nota það til að vinna að úrbótum og rýna í hjúkrunarmeðferð á hjúkrunarheimilinu mínu. Mér finnst hugarheimur heilabilunarsjúkdóma ótrúlega spennandi og finnst mjög gaman að sökkva mér í að leita úrlausn vandamála sem tengjast hegðunareinkennum heilabilunar og veita ráðgjöf til annarra fagaðila, fjölskyldna og skjólstæðinga minna á þeim vettvangi.“

Mér finnst gaman að miðla áfram og vera vörður fagmennsku á sviði öldrunarhjúkrunar segir Sigurveig. „Ég vona að framtíðin gefi mér það að ég geti verið áfram stolt af því sem við vinnum að og að við hjúkrunarfræðingar stöndum vörð um þá þjónustu sem eldri borgarar þessa lands fá, hvort sem er innan eða utan stofnana.“

„Við hjónin áttum bæði foreldri sem dóu fyrir aldur fram og því þykir okkur mikilvægt að lifa og njóta í dag en ekki geyma til seinni tíma.“
Áhugamál Sigurveigar snúast mikið að því að njóta þess að lifa í núinu. Hún er gift Vilhjálmi Þ. Ólafssyni sem staðið hefur henni við hlið í 25 ár. Hún á tvo stjúpsyni, þá Ólaf og Sigurjón, og einn spari-ömmudreng, hann Róbert Snæ. Þau eiga svo saman Albert Inga sem er 5 ára sem ætlar bráðum að byrja að vinna með mömmu sinni á hjúkrunarheimilinu segir Sigurveig. „Við hjónin áttum bæði foreldri sem dóu fyrir aldur fram og því þykir okkur mikilvægt að lifa og njóta í dag en ekki geyma til seinni tíma,“ segir hún. „Það er okkur mikilvægt að upplifa og ferðast saman og njóta með okkar nánustu. Stundum snúast slíkar upplifanir um veiðitúr á bryggjunni, fjallgöngu með nesti eða fjöruferð, en stundum ferðalög til annarra landa.“

Hefur rekið vintage kjólaverslun og stofnað sjósundsfélag

Það er óhætt að segja að áhugamál Sigurveigar séu fjölbreytt en hún hefur m.a. rekið „vintage“ kjólaverslun með systrum sínum, stofnað sjósundsfélag með áhugasömum íbúum á Seyðisfirði, tekið þátt í leikfélagi og bæjarmálum. Þar fyrir utan nýtur hún útiveru og hafa þau hjónin farið saman á mótorhjól, snjósleða og bátsferðir. Næst á dagskrá er að fara á skíði með syninum segir hún full tilhlökkunar. Sigurveig segist njóta þess að vera út í náttúrunni og eru utanvega- og innanbæjarhlaup stór hluti af daglegu lífi hennar um þessar mundir. Þar fyrir utan er hún heilmikill grúskari eins og hún orðar það, en hún er t.a.m. búin að vera í leshóp til allmargra ára. Þá nýtur hún þess einnig að koma sér vel fyrir í sófanum á síðkvöldum og horfa á góða mynd og hekla.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála