Hjukrun.is-print-version

Forréttindi að vera talsmaður hjúkrunar

RSSfréttir
4. október 2019

Allt frá því að Marta Jónsdóttir var barn hefur hún elskað spítalalykt og spítalaumhverfi. „Oft gerist það ennþá að ég labba inn á spítalann og dreg djúpt andann til að finna þessa sérstöku lykt,“ segir Marta en hún vinnur á menntadeild Landspítala og er jafnframt formaður hjúkrunarráðs Landspítala.

Marta ætlaði alla tíð að fara í hjúkrun, og á yngri árum gældi hún við að verða ljósmóðir, en hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 2010. Hún bætti síðar við sig meistaranámi í verkefnastjórnun, MPM, við Háskólann í Reykjavík sem hún lauk 2017 og er nú í MSc námi í hjúkrunarstjórnun við HÍ.

Aðaláherslan að bæta samskipti og teymisvinnu meðal fagfólks

Starf hennar á menntadeildinni felst aðallega í hermikennslu þar sem hún skipuleggur, þróar og kennir ýmis námskeið. Hún segir aðaláhersluna, sem jafnframt er rauður þráður í gegnum störf hennar þar, vera að bæta samskipti og teymisvinnu á meðal fagfólks og þannig stuðla að bættu öryggi sjúklinga og bættu starfsumhverfi.

Marta segir starf sitt sem formaður hjúkrunarráðs vera annars eðlis og heldur flóknara. „Ég lít á það sem ótrúleg forréttindi að fá að vera talsmaður hjúkrunar, bæði innan spítalans og utan. Ég er hér fyrir hjúkrunarfræðinga og hjúkrun og ég legg mig fram um að vera talsmaður hjúkrunar og gera hjúkrun sýnilega. Ég þarf stundum að vera óþægileg og spyrja óþægilegra spurninga og þora að bjóða sjálfa mig fram í alls konar umræður um hjúkrun. Ég reiði mig á aðstoð stjórnar hjúkrunarráðs og alla hjúkrunarfræðinga og ljósmæður á spítalanum að halda mér upplýstri því það getur verið mikil áskorun að vera meðvituð um hvað er í gangi í hjúkrun – því það er svo ótrúlega margt gott að gerast en líka margt sem þarf að berjast fyrir,“ segir hún.

„Mér finnst heiður að fá að hjúkra fólki, fá tækifæri til að taka þátt í bæði erfiðum og gleðilegum stundum og leggja mitt af mörkum til að einhver upplifun annarra verði betri.“
Marta segir megin ástæðuna fyrir því að hún lagði fyrir sig hjúkrun vera það að hún hafi ofsalega gaman að fólki, og ekki síst að hitta fyrir fjölbreyttan hóp af fólki. „Mér finnst heiður að fá að hjúkra fólki, fá tækifæri til að taka þátt í bæði erfiðum og gleðilegum stundum og leggja mitt af mörkum til að einhver upplifun annarra verði betri.“

Alltaf að þróast í hjúkrun og læra eitthvað nýtt

Marta segir fjölbreytnina tvímælalaust vera helsta kost starfsins, sem og endalaus tækifæri til starfsþróunar. „Mér finnst frábært að ég geti verið við rúm sjúklings að hjúkra og að þjálfa starfsfólk í hermiþjálfun og finnst ég, á þessum ólíku stöðum vera að hjúkra og nýta þekkingu mína til góðs. Ég er alltaf að þróast í hjúkrun og alltaf að læra eitthvað nýtt og ég er sammála Florence Nightingale sem sagði: Nursing is a progressive art such that to stand still is to go backwards.“

40 Esjuferðir fyrir fertugsafmælið

Marta er í sambúð með Grétari og eiga þau soninn Hjört sem er 14 ára, tvo ketti og einn hund. Hún segir áhugamál sín vera hefðbundin fyrir konu á sínum aldri, eins og hún orðar það, en hún verður fertug í nóvember. Móðir hennar smitaði hana af fjallgönguáhuganum og hefur hún gengið Esjuna 32 sinnum en stefnir á að ganga hana 40 sinnum fyrir fertugsafmælið í nóvember.

Þar fyrir utan hefur hún gaman að vera utandyra og „fá smá vind í kinnarnar,“ segir Marta en hún ferðast um á rafmagnshjóli. Hún hleypur líka og þá helst utanvega og afrekaði að fara tvisvar í hlaupakeppni í sumar – og aldrei gert slíkt áður. Þar fyrir utan þykir henni líka mjög huggulegt að vera heima og gera ekki neitt segir hún.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála