Hjukrun.is-print-version

Dvalargestir á Heilsustofnun yngri með ári hverju

RSSfréttir
11. október 2019

Margrét Grímsdóttir hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði frá árinu 2012. Þangað koma um 1400 einstaklingar á ári til endurhæfingar og dvelja að meðaltali í fjórar vikur. Margrét ber ábyrgð á faglegri hjúkrun, á gæðamálum stofnunarinnar og þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Streita og krónískir verkir meðal unga fólksins

Á Heilsustofnun kemur fólk í margs konar endurhæfingu, til að mynda vegna öldrunar, bæklunar, offitu- og efnaskipta, og geðendurhæfingar, sem og í verkja- og streitumeðferð. Aldur dvalargesta á Heilsustofnun er frá tvítugu upp í nírætt en að sögn Margrétar er hópurinn að yngjast með hverju árinu. Helsta ástæða innlagnar meðal yngra fólksins er streita og krónískir verkir. Fjöldi manns leitar á Heilsustofnun vegna kulnunar og örmögnunar og fer þeim fjölgandi, en Margrét hefur umsjón með streitumeðferð og streitunámskeiðum sem haldin eru reglulega fyrir þann hóp fólks.

Mikil lífsreynsla að vinna á bráðamóttöku í Florida

Auk þess að starfa á Heilsustofnun hefur Margrét rekið eigin meðferðarstofu þar sem hún býður upp á einstaklings- og parafjölskyldumeðferð, en að loknu hjúkrunarfræðinámi flutti hún til Bandaríkjanna og fór í meistaranám í klínískri félagsráðgjöf sem hún lauk 2001. Hún lauk síðan diplómanámi í fjölskyldumenntun frá Endurmenntun í Háskóla Íslands 2013. Áður en hún hóf störf á Heilsustofnun vann hún á Landspítala og sem félagsráðgjafi í 6 ár á háskólasjúkrahúsi í Florida. Hún segir þá reynslu hafa verið mjög dýrmæta enda vann hún á mörgum deildum, ásamt því að taka vaktir á bráðamóttökunni. „Þetta var mikil lífsreynsla og öðruvísi umfang en hér á landi. Þarna voru alvarleg bílslys mjög algeng, og á svæðinu þar sem ég bjó var víða töluverð fátækt og því fylgir meiri áhættuhegðun. Þetta starf veitti mér gríðarlega lífsreynslu,“ segir Margrét.

„Hjúkrun er frábærasta nám sem hægt er að fara í, mikil fjölbreytni og mörg tækifæri og ég finn að ég hafi gert eitthvað gagn.“
Hjúkrunarfræðin var þó ekki á teikniborðinu hjá Margréti á menntaskólaárunum, heldur hafði hún stefnt á nám í Myndlistarskólanum eftir stúdentspróf. Hún var stödd á Mallorka í útskriftarferð þegar henni snerist hugur, hringdi í móður sína og bað hana að skrá sig í hjúkrunarfræðina. „Og ég var búin að safna í möppu og allt,“ rifjar hún upp. „Hjúkrun er frábærasta nám sem hægt er að fara í, mikil fjölbreytni og mörg tækifæri og ég finn að ég hafi gert eitthvað gagn,“ segir Margrét.

Margrét er 48 ára á 3 börn og tvö barnabörn. Áhugamál hennar eru margvísleg en hún hefur sérstaklega gaman af því að ferðast og elda góðan mat og sameinaði hún það tvennt til dæmis í fyrra þegar hún skellti sér á matreiðslunámskeið í París.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála