Það var fyrir tilviljun að Guðbjörg Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Sáramiðstöð Landspítala, frétti af námi í sárahjúkrun í Danmörku. Það gekk ekki klakklaust að fá inngöngu í námið enda mikil ásókn í það. Í kjölfarið hefur Guðbjörg átt þátt í því að stuðla að bættri þekkingu og meðferð á sárum og meðferð þeirra en hún hefur verið í stjórn Samtaka um sárameðferð á Íslandi frá upphafi, eða undanfarin 15 ár.
Guðbjörg útskrifast úr hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1986. Fyrstu árin eftir útskrift starfaði hún á gjörgæsludeild Landspítalans á Hringbraut sem var að hennar sögn lærdómsríkur tími og mikil reynsla fyrir nýútskrifaðan hjúkrunarfræðing. Eftir 5 ár á gjörgæslunni hóf hún að vinna við ungbarnavernd á Heilsuverndarstöðinni. Stuttu síðar færði hún sig yfir á Heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi og var þar í 15 frábær ár segir hún.
Frétti af námi í sárahjúkrun fyrir tilviljun
„Starfið í heilsugæslunni spannar allan skalann og þar tengist maður einstaklingunum sem maður sinnir á allt annan hátt en inni á spítala,“ segir Guðbjörg. Eitt af þeim verkefnum sem hún sinnti í heilsugæslunni var að sinna einstaklingum með langvinn sár, bæði í heimahjúkrun og þeim sem komu á stöðina. Eftir að hafa unnið þar í 10 ár fór langaði hana að breyta til. Fyrir tilviljun frétti hún af námi í sárahjúkrun í Danmörku á vegum danska hjúkrunarfélagsins og sáradeildar við Bispebjergspítalann í Kaupmannahöfn. Þetta var lotubundið nám sem tók eitt ár.„Ég ákvað að sækja um og fékk í fyrstu neitun þar sem mér var sagt að danskir hjúkrunarfræðingar sætu fyrir og ásóknin í námið væri langt umfram það sem þau gætu annað. Ég var ekki sátt við þetta og fannst þetta ekki vera í takt við Sykeplejernes samarbejde i Norden, þannig að ég hafði samband við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Aðalbjörg Finnbogadóttir skrifaði bréf þar sem hún færði aldeilis frábær rök fyrir því að ég fengi þarna námspláss,“ rifjar hún upp.
Það varð úr að einu námsplássi - ætlað útlendingi - var bætt við þau námspláss sem fyrir voru og hóf Guðbjörg þar nám ásamt 24 dönskum hjúkrunarfræðingum. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og alger opinberun fyrir mig. Þetta opnaði ennfremur leið fyrir aðra íslenska hjúkrunarfræðinga sem á eftir mér fóru í þetta nám. Ég kynntist þarna frábæru fólki, samnemendum og kennurum, sem ég enn í dag hef samband við. Eftir námið gafst mér kostur á að vera í heilan mánuð í verknámi inni á sérstakri sáradeild á Bispebjergspítalanum.“
„Ég fann glöggt að kollega mína þyrsti í þekkingu á þessu sviði. Svo margir voru í sömu stöðu að sinna fólki með sár í langan tíma og ná ekki árangri. Ég fann að mér fannst gaman að deila minni reynslu og þekkingu en fann jafnframt að mig skorti ákveðna þekkingu og tækni. Ég þurfti sjálf að læra meira.“
Að loknu náminu bárust Guðbjörgu beiðnir um að kenna og halda fyrirlestra og námskeið um efnið. „Ég fann glöggt að kollega mína þyrsti í þekkingu á þessu sviði. Svo margir voru í sömu stöðu að sinna fólki með sár í langan tíma og ná ekki árangri. Ég fann að mér fannst gaman að deila minni reynslu og þekkingu en fann jafnframt að mig skorti ákveðna þekkingu og tækni. Ég þurfti sjálf að læra meira.“ Hún skráði sig því í meistaranám í hjúkrun við Háskóla Íslands og tók auk þess tvö þverfagleg námskeið í greiningu og meðferð sára við Hákólann í Hertfordshire í Englandi.
Þróa þjónustu við sjúklinga með sár
Þegar hún lauk meistaranáminu 2009 hafði henni verið boðin staða á Landspítalanum við að þróa þjónustu við sjúklinga með sár, eða sáramiðstöð. „Ég hafði ekki hugsað mér að fara frá heilsugæslunni en ég átti erfitt með að sleppa þessu tækifæri. Ég hafði sjálf átt þátt í því sem stjórnarmeðlimur í samtökum um Sárameðferð á Íslandi, að skrifa ályktun til stjórnar Landspítala um mikilvægi þess að efla sérfræðiþjónustu við sjúklinga með erfið sár og fannst ég því bera ákveðna ábyrgð á að þetta yrði að veruleika,“ segir hún.Tíu ár eru frá opnun Sáramiðstöðvar Landspítala en Guðbjörg fékk ég stöðu sérfræðings í hjúkrun við Landspítala árið 2012. Starfsemi Sáramiðstöðvarinnar hefur þróast í takt við aðstæður að sögn hennar en frá upphafi lagði hún áherslu á að þar væri unnið í þverfaglegum teymum því sárin eru þess eðlis að margir þurfa að koma að greiningu og meðferð segir hún. Hún kynntist slíkri vinnu á Sáramiðstöð Bispebjergspítalans, sem hefur verið fyrirmynd margra sem hafa byggt upp slíka þjónustu víða um heim að sögn Guðbjargar.
„Það er mikil framför og þegar ég finn þann áhuga og metnað sem er til staðar hjá ungum hjúkrunarfræðingum að fara þessa leið, þá fyllist ég stolti og finnst ég hugsanlega hafa átt einhvern lítinn þátt í því.“
„Mitt starf sem sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með sár og sem faglegur leiðandi Sáramiðstöðvar er áskorun á hverjum degi og þörfin fyrir starfsemi Sáramiðstöðvar hefur löngu sýnt sig. Starfið er gífurlega fjölbreytt. Klínískt starf í nálægð við sjúklingana, kennsla, leiðsögn, þróunarstarf og fleira. Þetta togast á á hverjum degi en einhvern veginn er það samt alltaf vinnan með fólkinu, að sinna sjúklingunum, sem er kjarninn í starfinu.“ Hjúkrunarfræðingum með sérþekkingu og áhuga á sárum og sárameðferð hefur fjölgað og allnokkrir í meistaranámi með áherslu á sár. Að sögn Guðbjargar hefur nýverið opnast leið að framhaldsnámskeiði á meistarastigi við Háskóla í Noregi sem Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands átti þátt í að byggja upp. „Það er mikil framför og þegar ég finn þann áhuga og metnað sem er til staðar hjá ungum hjúkrunarfræðingum að fara þessa leið, þá fyllist ég stolti og finnst ég hugsanlega hafa átt einhvern lítinn þátt í því.“
Lærði mikið af móður sinni
Guðbjörg er fædd árið 1961 og alin upp á Húsavík. Í kjölfar þess að faðir hennar lést þegar hún var 12 ára flutti fjöskylda hennar til Reykjavíkur. Hún fór í Menntaskólann í Reykjavík en hugurinn leitaði norður fyrstu árin og fékk hún sumarvinnu sem gangastúlka á Sjúkrahúsinu á Húsavík þar sem hún vann við umönnun á öldrunardeild. „Þessi vinna fannst mér mjög skemmtileg þó að á þeim tíma hafi ég ekki verið farin að hugsa um nám í hjúkrun,“ segir hún. „Ég kynntist því hjúkrunarstörfum meðan ég var enn í menntaskóla og í rauninni fyrr, því ég á móður sem er hjúkrunarfræðingur og hefur alltaf talað um sitt starf af fagmennsku, áhuga og metnaði. Hún fór sjálf í framhaldsnám í hjúkrun á þeim tíma sem ég var að stálpast og huga að því að velja mér nám.“ Þegar Guðbjörg hóf nám við Háskólann var móðir hennar kennari við Hjúkrunarskóla Íslands. „Þegar ég hugsa til baka til námsáranna, þá er ýmislegt sem ég lærði sem ég man ekki hvort ég lærði í mínu námi eða hvort mamma kenndi mér það en hún hefur kennt mér margt,“ segir hún, en eldri systir hennar er einnig hjúkrunarfræðingur.Lauk átta ára gönguferð í sumar
Guðbjörg hefur alla tíð verið mikið fyrir útivist. Hún eignaðist góða vini í MR og hafa þau haldið hópinn allar götur síðan og farið saman í fjölda gönguferða og útilegur. Þau fara í vikulanga göngu hvert sumar en nú í sumar luku þau við 8 ára gönguferð sem hófst á Látrabjargi 2012 og lauk svo í ár á Gerpi. „Þetta er búið að vera heilt ævintýri,“ segir hún. Enn eitt áhugamál hennar tengist vissulega starfinu en það eru Samtök um sárameðferð á Íslandi. „Í gegnum þetta starf hef ég kynnst svo ótal mörgu góðu fólki. Eitt af því sem þessu fylgir er að vera í samstarfi við félög erlendis og við erum hluti af evrópskum sárasamtökum sem hafa hjálpað okkur að fá til landsins frábært fagfólk til að taka þátt í ráðstefnum sem við höldum árlega.“ Guðbjörg hefur einnig mikinn áhuga á tónlist en hún lærði söng og hefur sungið í Mótettukór Hallgrímskirkju í 20 ár. Þar kynntist hún einmitt eiginmanni sínum, Sverri Guðmundssyni hljóðfærasmiði. Þau eiga saman tvíburasystkinin Sverri Pál og Rebekku sem bæði eru í háskólanámi.