Hjukrun.is-print-version

Fæddist með „hjúkrunargenið“

RSSfréttir
1. nóvember 2019

„Ástæðan fyrir því að ég lærði hjúkrun held ég að sé sú að ég hafi fæðst með svokallað hjúkrunargen,“ segir Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, sem hefur í rúma tvo áratugi unnið að framgangi hjúkrunar og heilbrigðisþjónustu í landinu á vegum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Genið er mjög virkt í móðurfjölskyldu minni segir hún en móðir hennar var hjúkrunarfræðingur, þrjár móðursystur hennar, systir og fjöldi frænka í móðurættinni, auk þess að stjúpdóttir Aðalbjargar og mágkona eru hjúkrunarfræðingar.

Ákvað í barnaskóla að verða hjúkrunarkona og kennari

Hjúkrunargenið kom fljótlega í ljós hjá Aðalbjörgu en í barnaskóla hafði hún svarað því til í svokallaðri „poesíbók“, þar sem spurt var um hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór, að hún ætlaði sér að verða hjúkrunarkona og kennari. Það átti eftir að verða að veruleika en eftir að Aðalbjörg útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við HÍ 1980 fór hún beint í uppeldis- og kennslufræðina til kennsluréttinda og lauk því námi 1982. „Kennarinn blundaði alltaf í mér,“ segir hún en hún hefur fullnægt kennsluþörfinni í gegnum starf sitt sem hjúkrunarfræðingur, hjúkrunarkennari, hjúkrunarfræðslustjóri og síðar sem sviðstjóri fagsviðs Fíh. Hún lauk síðar meistaraprófi í hjúkrunarfræði við Royal College of Nursing/University of Manchester í gegnum Háskólann á Akureyri 2007.

Fyrstu árin eftir útskrift starfaði Aðalbjörg á Landspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Landakoti - lengst af á Landakoti. Hún hóf starfsferil sinn á deild 1B á Landakoti hjá Bryndísi Konráðsdóttur sem þá var nýtekin við sem deildarstjóri. „Það var gæfa mín að fá að hefja hjúkrunarstarfið undir hennar stjórn þar sem Bryndís hefur verið alla sína starfstíð verið mikill frumkvöðull í hjúkrun. Hjá henni var ekkert sem hét: „Það hefur alltaf verið gert svona!“ Ég varð síðan hjúkrunarfræðslustjóri þar 1987 og síðar framkvæmdastjóri fræðslusviðs við sameiningu Landakots og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Borgarspítala til ársins 1997,“ segir Aðalbjörg.

Unnið bæði við hjúkrun og kennslu

Aðalbjörg var kennari og sviðstjóri heilbrigðissviðs við Gagnfræðaskóla Akureyrar veturinn 1982-1983, en þar kenndi hún sjúkraliðanemum. Hún var síðan kennari við Hjúkrunarskóla Íslands frá 1983 og tók síðan við sem kennslustjóri við sama skóla frá 1984 til ársloka 1986, eða þar til skólinn var lagður niður. Á þessum árum vann hún einnig við stundakennslu í Tækniskóla Íslands og Námsbraut í hjúkrunarfræði, en þar kenndi hún m.a. þriðja árs hjúkrunarfræðinemum verklega stjórnun á Landakoti í nokkur ár. Hún hefur starfað hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga frá 1997. Þegar félaginu var skipt í kjara- og réttindasvið og fagsvið 2008 varð hún sviðstjóri fagsviðs.

„Í starfi mínu hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hef ég fengið tækifæri til að vinna með frábærum formönnum að faglegum málefnum hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga, unnið að þróun og eflingu hjúkrunar í samstarfi við fagdeildir félagsins og komið að lagasetningum og reglugerðum er varða hjúkrun og heilbrigðisþjónustu í landinu.“
Hjúkrun er afar fjölbreytt og skemmtilegt starf og innan hjúkrunar getur maður fundið áhugamálum sínum stað á þeim starfsvettvangi sem maður velur sér segir hún. „Í starfi mínu hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hef ég fengið tækifæri til að vinna með frábærum formönnum að faglegum málefnum hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga, unnið að þróun og eflingu hjúkrunar í samstarfi við fagdeildir félagsins og komið að lagasetningum og reglugerðum er varða hjúkrun og heilbrigðisþjónustu í landinu. Þar hefur kennarinn í mér einnig fengið að blómstra við að koma á fót og skipuleggja námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga, halda málþing um málefni hjúkrunar, hjúkrunarþing og ráðstefnur félagsins, vinna að ýmsum skýrslum varðandi hjúkrun sem og stefnu félagsins í hjúkrunar- og heilbrigðismálum, heilsugæslu, geðhjúkrun og hjúkrunarþjónustu eldri borgara.“

Komin með annan fótinn í skóla við starfslok

Nú fer að líða að starfslokum hjá Aðalbjörgu og hún farin að undirbúa þau. „Ég er því aftur komin með annan fótinn í skóla, ekki sem kennari í þetta sinn heldur sem nemandi, að kynna mér öldrunarhjúkrun því aldraðir eru jú framtíðin!“

Aðalbjörg er gift og á tvíbura, stelpu og strák, sem eru fædd 1995. Dóttirin fékk ekki hjúkrunargenið en hún stundar nám í íslensku og bókmenntum í HÍ, en sonurinn fékk greinilega einhvern anga af því að sögn hennar þar sem hann starfar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og hefur sinnt alvarlega veikum og slösuðum og tekið á móti börnum í sjúkrabílnum.

Áhugamál hennar eru bóklestur, leikhús, ferðalög bæði innan lands og utan og samvistir við fjölskyldu og vini sem verða sífellt skemmtilegri og mikilvægari eftir því sem árin líða segir Aðalbjörg.

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála