Hjukrun.is-print-version

NURSE – LEAD

RSSfréttir
12. nóvember 2019

Íslenskum hjúkrunarfræðingum býðst að taka þátt evrópsku gagnvirku vefnámskeiði um leiðtogafærni í hjúkrun - NURSE – LEAD – þeim að kostnaðarlausu a.m.k. fram til 30. ágúst 2020. Tilgangur námskeiðsins er að efla leiðtogahæfni hjúkrunarfræðinga.

Námskeiðið sem er á ensku felur í sér sjálfsnám, verkefni og samskipti við hjúkrunarfræðinga innan og utan Evrópu. Nemendur lesa texta, horfa á myndbandsupptökur, svara stuttum spurningalistum, skrifa stutt verkefni, beita sjálfsrýni, fylgja hjúkrunarfræðingi eftir og gefa samnemendum ans. Hver og einn sækir um á vef námskeiðsins og fær leiðbeiningar um aðgang. Engin tímamörk eru á aðgangi að námskeiðinu og getur hver og einn hjúkrunarfræðingur unnið í því þegar honum hentar. Áætlaðar vinnustundir í námskeiðinu eru ríflega 40 talsins. Við lok námskeiðs fær nemandi skírteini til staðfestingar á náminu.

Efni námskeiðsins er skipt í sjö þætti sem bera eftirfarandi heiti: Forysta, fimm einkenni leiðtoga, fyrstu skref leiðtoga, að fylgja leiðtoga eftir, gagnreyndir starfshættir, alþjóðlegt samhengi hjúkrunar og mat.

Námskeiðið hófst í maí 2019. Það hefur fengið viðurkenningu hollenska hjúkrunarfélagsins. Bakhjarlar námskeiðsins eru m.a. Sigma Theta Tau International og European Academy of Nursing Science (EANS). Þann 8. september s.l. voru 300 hjúkrunarfræðingar skráðir í námskeiðið, þar af 80 frá Hollandi einu saman. Margir þessara nemenda hafa látið í ljósi ánægju með þátttöku í námskeiðinu.

Námskeiðið byggir á grunni námskeiða fyrir hjúkrunarfræðinga með framhaldsnám sem eiga uppruna sinn í Hjúkrunarfræðideild University Medical Center í Utrecht (UMC) í Hollandi og hefur á undanförnum misserum verið útvíkkað í nokkrum löndum Evrópu með veglegum styrk frá Erasmus plús. Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands stýrir því verkefni í samvinnu við UMC í Utrecht með þátttöku Hjúkrunarfræðideildar Háskólans í Turku, Finnlandi, Heilbrigðisvísindastofnunar Halle í Þýskalandi, Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans í Vilnius í Litháen, Hjúkrunarskóla Lisabon í Portúgal og Elevate Online Academy, UMC í Utrecht.

Yfirumsjón með námskeiðinu hefur Þóra Berglind Hafsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og University Medical Center í Utrecht í Hollandi. Umsjón með íslenska hlutanum hefur Helga Jónsdóttir prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Vefur námskeiðs: https://elearning.elevatehealth.eu/orderdirect/nlc/1054

Frekari upplýsingar um námskeiðið, tæknilegar sem aðrar, veitir Lisa van Dongen verkefnisstjóri: L.J.C.vanDongen-5@umcutrecht.nl 


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála