Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri á hjúkrunarheimilinu á Seltjarnarnesi, segir það afskaplega gefandi að vinna við öldrun en hún hóf störf á nýju hjúkrunarheimili sem var opnað fyrr á þessu ári. Þar áður vann hún í 24 ár á Landspítalanum og tekur einstaka sinnum vaktir á bráðadeild og hjartagátt meðfram núverandi starfi.
Þáttur öldrunarhjúkrunar vaxandi á komandi árum
Björg hefur lengst af starfað á lyflækninga- og bráðasviði og segist bera hlýjar tilfinningar til Landspítalans sem vinnustaðar. Hún er mjög ánægð í nýju starfi á hjúkrunarheimilinu og segir þau tengsl sem myndist við heimilisfólk og aðstandendur þeirra vera mjög gefandi. „Þáttur öldrunarhjúkrunar mun vaxa mikið á komandi árum með öldrun þjóðar og er ekki hægt að að leggja of mikla áherslu á mikilvægi þess að styðja við þennan málaflokk. Öll viljum við að foreldrar okkar, afar og ömmur og síðan við sjálf fáum fyrsta flokks þjónustu og ánægjulega ævidaga.”
„Að geta hjálpað fólki og bætt líf þeirra verður seint talið í tekjum”
Það var tilviljun frekar en annað sem réði því að Björg lagði fyrir sig hjúkrun. Og hún er mjög sátt við þá ákvörðun. „Mér finnst ég svo heppin að hafa slysast inn á þessa lífsbraut,” segir hún. Það var áhugi á raun- og félagsvísindum sem varð til þess að hún lagði fyrir sig hjúkrun. „Það er enginn í fjölskyldunni minni í heilbrigðisgeiranum og vissi ég því ekkert hvað ég var að fara útí á sínum tíma,” en hún útskrifaðist 1999. „Að geta hjálpað fólki og bætt líf þeirra verður seint talið í tekjum. Mér finnst líka gaman að hafa mikið að gera og þá er hjúkrunarstarfið alveg kjörið,” segir hún. „Fjölbreytileikinn er skemmtilegastur og það er enginn dagur eins.”
Mannauðsmál fjölbreytileg og skemmtileg
Björg verið meira og minna í stjórnunarstörfum undanfarin sjö ár og segir þau heilla mikið. „Allt sem snýr að mannauðsmálum er ávallt áskorun en um leið er það svo fjölbreytilegt og skemmtilegt.” Samhliða vinnu er Björg að ljúka diplómanámi í opinberri stjórnsýstu um jólin og hefur hug á að fara í frekara nám næsta haust.
Björg, sem er 45 ára gömul, býr í vesturbænum með 17 ára syni sínum. Helstu áhugamál hennar eru, auk samveru með vinum og fjölskyldu, útivist, ferðalög og kórsöngur, en hún hefur mikinn áhuga á ýmiss konar tónlist og er dugleg að fara á tónleika.