13.
desember2019
Árangur hjúkrunarfræðings ræðst ekki af því hversu mikla fræðilega þekkingu hann býr yfir að mati Rhomz Singayan Aquino, heldur hversu góður og sveigjanlegur hann er við að nota allt sem hann hefur lært. „Þar er undirstaðan umhyggja.“
Næstelstur af átta systkinum
Rhomz flutti til Íslands í árslok 2015 en þá hafði hann nýlokið meistaragráðu í hjúkrun fullorðinna frá Filippseyjum. Hann starfar nú á legudeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Foreldrar Rhomz eru báðir bændur og er hann næstelstur af átta systkinum. Flest systkini hans eru kennarar og var það ósk foreldra hans að hann yrði einnig kennari en það er eftirsótt starf á Filippseyjum og ekki mjög dýrt nám þar í landi. En hvernig kom það til að hann kaus að fara í hjúkrunarfræði?Veikindi móður varð honum innblástur að læra hjúkrun
Móðir Rhomz var honum innblástur að leggja fyrir sig hjúkrun, en þegar hann var barn grét hún mikið vegna tannverkja. „Hún var oftast sorgmædd og það var mjög erfitt fyrir mig að sjá sársauka og þjáningu móður minnar,“ segir hann, en honum eiginlegt að veita öðrum umhyggju og samkennd strax á unga aldri. „Ég var vanur að grípa í hönd móður minnar og þerra tárin á meðan ég lagði kaldan bakstur á kinn hennar. Ástríða var hvatning fyrir mig að klára hjúkrunarfræðinámið mitt. Þar sem foreldrar mínir höfðu ekki mikið af peningum til greiða fyrir námið var ferð mín sem námsmanns líkt og að klifra hátt fjall á stormasömum degi. Það var mikil barátta en ég gafst aldrei upp á draumnum mínum,“ segir hann.Að læra nýtt tungumál líkt og að læra allt upp ánýtt
Rhomz hóf hjúkrunarfræðinámið 16 ára gamall og um tvítugt byrjaði hann að vinna á einkasjúkrahúsi í héraðinu sem hann ólst upp í. Hann starfaði á bráðamóttöku í tvö ár og hjá Embætti landlæknis á Filippseyjum í þrjú ár. Í árslok 2015 kom hann til Íslands með námsmanna-vegabréfsáritun en frænka hans hafði búið hér á landi í mörg ár. Þá tók við strembið tungumálanám. „Það að læra nýtt tungumál var eins og að eignast aðra sál og þess vegna lagði ég mig fram um að læra íslensku því það er mikilvægt fyrir mig til að geta veitt sjúklingum mínum ánægjulega þjónustu. Það var erfitt en mér fannst það mjög áhugavert. Það má líkja því við að verða aftur barn að reyna að læra allt upp á nýtt.“Íslenskt hjúkrunarfræðingaleyfi eftir strembið íslenskunám
Rhomz sótti bæði íslenskunám í Háskóla Íslands og kvöldnámskeið hjá Mími. Samhliða því vann hann við þrif á herbergjum á Center Hotel til að standa undir útgjöldum, auk þess sem hann sendi peninga til fjölskyldu sinnar á Filippseyjum. Eftir sex mánaða íslenskunám gat hann skilið og talað nokkuð í íslensku og hóf þá að vinna við umönnun á Landakoti. Haustið 2016 stóðst hann próf hjá hjá Mími fyrir erlenda hjúkrunarfræðinga og í desember sama ár fékk hann íslenskt hjúkrunarfræðingaleyfi. „Þá hófst ferð mín sem íslenskur hjúkrunarfræðingur,“ segir hann stoltur. Rhomz flutti síðan til Sandgerðis sumarið 2018 þar sem kærasti hans var búsettur og hóf þá störf í Keflavík.„Það er mjög gefandi að sjá sjúkling fá bata eftir alvarleg veikindi og þegar hann segir „þakka þér fyrir“ eftir að hafa veitt honum bestu umönnun sem sjúklingurinn á skilið er svo frábær tilfinning.“
Rhomz þykir það mjög áhugavert að vinna á almennri deild enda fjölbreyttur hópur sem þangað kemur, sem og fjölbreytt viðfangsefni. „Það er mjög gefandi að sjá sjúkling fá bata eftir alvarleg veikindi og þegar hann segir „þakka þér fyrir“ eftir að hafa veitt honum bestu umönnun sem sjúklingurinn á skilið er svo frábær tilfinning. Bjart bros frá andliti sjúklings eftir að hafa hjálpað honum er mjög gefandi. Og að heyra frá sjúklingum, sem og fjölskyldumeðlimum og ástvinum, eftir erfiða vakt hrósa manni fyrir störf mín gerir alla daga betri. Hjúkrun snertir ekki bara líf manns, heldur er það einnig líf annars fólks sem snertir þitt. Það er ekki bara starf, heldur skuldbinding. Ef satt skal segja, hef ég alltaf fundið þörf fyrir að sjá um fólk sem getur ekki séð um sig sjálft. Það er bara í eðli mínu. Þess vegna veit ég að hjúkrun er það sem ég vil starfa við það sem eftir er ævinnar.“
Þægilegt að vinna með Íslendingum
Rhomz er þakklátur fyrir samstarfsfólk sitt sem að sögn hans er bæði aðgengilegt og hjálplegt. „Mér finnst virkilega þægilegt að vinna með Íslendingum. Stundum getur það verið erfitt en ég mundi segja að það sé ánægjulegt og skemmtilegt, sérstaklega ef vinnufélagar þínir verða eins og fjölskylda þín,“ segir hann. Fyrir utan vinnu elskar hann að ferðast, kynnast nýju fólki, fara í sund og lesa hvetjandi bækur eftir ólíka höfunda.„Ég er svo þakklátur og stoltur af því að vera hjúkrunarfræðingur á Íslandi og vona ég svo innilega að ég geti verið innblástur fyrir hjúkrunarfræðinga frá Fillipseyjum.“
Roman er stjórnarmaður í filippseyska hjúkrunarfræðingafélaginu á Norðurlöndunum sem miðar að því að hjálpa og aðstoða nýlega komna hjúkrunarfræðinga frá Filippseyjum að aðlagast. „Ég er svo þakklátur og stoltur af því að vera hjúkrunarfræðingur á Íslandi og vona ég svo innilega að ég geti verið innblástur fyrir hjúkrunarfræðinga frá Fillipseyjum.“