Ágætu félagsmenn.
Nú er langt liðið á aðventuna, hátíðirnar nálgast óðfluga og styttist í nýtt ár. Þetta 100 ára afmælisár hefur verið sérstaklega viðburðaríkt og vil ég þakka öllum hjúkrunarfræðingum fyrir frábæra þátttöku. Á vef félagsins er hægt að sjá myndir og myndbönd frá viðburðunum sem ég hvet alla til að skoða og hafa gaman af.
Næsta ár verður ekki síður viðburðarríkt en árið 2020 hefur Alþjóðaheibrigðisstofnunin (WHO) tileinkað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Tilgangurinn er að vekja athygli á því hversu mikilvægu hlutverki hjúkrunarfræðingar og ljósmæður gegna í heilbrigðiskerfinu. Þjóðir heimsins hafa verið hvattar til að fjárfesta betur í hjúkrun, hámarka framlag þessara tveggja stétta og tryggja þannig öllu fólki rétt til heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags þeirra. Af þessu tilefni munu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Ljósmæðrafélag Íslands eiga samstarf og vekja saman athygli á árinu. Nú þegar er búið að ákveða fyrsta sameiginlega viðburðinn, hann verður 16. janúar kl. 17:00 í Hallgrímskirkju og hvet ég alla hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til að mæta. Nánari upplýsingar verða birtar strax í upphafi nýs árs.
Því miður hefur gengið mjög hægt í samningaviðræðum og ekki eins og félagið hefði kosið síðustu 9 mánuði. Birtar hafa verið reglulegar fréttir af gangi mála sem einhverjum kunna að finnast frekar óljósar en það er m.a. vegna þess að það ríkir gagnkvæm þagnarskylda á meðan á samtalinu stendur milli Fíh og Samninganefndar ríkisins. Ein af aðaláherslum félagsins er stytting vinnuvikunnar. Loksins er umræða um styttingu vinnuviku vaktavinnuhópsins aftur komin á borðið – en meginþorri hjúkrunarfræðinga tilheyrir þeim hópi.
Gert verður hlé á samningaviðræðum milli jóla og nýárs en haldið áfram strax á nýju ári. Mér er ljóst að þolinmæði hjúkrunarfræðinga er þrotin og einhverjum stærri áföngum þarf að ná í viðræðunum í upphafi nýs árs svo ástæða sé til að halda áfram samtalinu. Samninganefndin heldur því ótrauð áfram störfum þar til annað kemur í ljós.
Heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum og hjúkrunarfræðingar fara ekki varhluta af því enda, að mínu mati, halda þeir starfsemi þess gangandi og eiga þakkir skyldar fyrir.
Ég óska þó þess að félagsmenn nái að lyfta sér upp úr amstri dagsins yfir jólahátíðina, njóti gleði og friðar með fjölskyldu og vinum á milli vakta, því ástandið í heilbrigðiskerfinu verður ekki leyst á einni nóttu ,heldur er það langtímaverkefni.
Að lokum vil ég óska ykkur gleðilegra jóla og hamingjuríks nýs árs. Megi gæfan fylgja ykkur á nýju ári.