Hjukrun.is-print-version

Hjúkrað fólki með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma í tugi ára

RSSfréttir
19. desember2019

Hjúkrun fólks með langvinna og alvarlega geðrofssjúkdóma hefur átt hug og hjarta Margrétar Eiríksdóttur undanfarin 40 ár. Hún hóf sérnám í geðhjúkrunarfræði við Nýja hjúkrunarskólann 1976, þá nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur, og útskrifaðist þaðan 1980.

Margrét fór í sérskipulegt nám við hjúkrunarfræðideild og síðar í meistaranám sem hún lauk 2008. Að því loknu fór hún í starfsnám til sérfræðings á Landspítala og fékk sérfræðiréttindi 2010. Hún var þá ráðin í stöðu sérfræðings í elliþjónustu á geðdeild Landspítala.

„Ég býst við að áhuginn hafi líka vaknað þegar ég var rétt rúmlega tvítug. Veikustu sjúklingarnir sem voru að greinast voru á mínum aldri og voru að stíga sín fyrstu skref með geðsjúkdóm og ég fann til mikillar samkenndar með þeim.“
Margrét var ung að árum þegar áhugi hennar á umönnun manna og dýra kviknaði. „Ég var alin upp í sveit og var svolítið ósjálfstæð og óörugg en fékk mikið hrós þegar ég annaðist dýr og börn. Ég varð ákveðin í að verða hjúkrunarkona sem smákrakki þrátt fyrir að þekkja engan slíkan.“ Fyrir sveitastelpu kom það sér vel að fara í Hjúkrunarskólann en þar fékk hún heimavist og laun fyrir starfsnámið. Þetta var því góð leið til að öðlast sjálfstæði og verða sjálfri sér næg segir Margrét. Í starfsnáminu fann hún sig best á geðdeildinni. „Ég býst við að áhuginn hafi líka vaknað þegar ég var rétt rúmlega tvítug. Veikustu sjúklingarnir sem voru að greinast voru á mínum aldri og voru að stíga sín fyrstu skref með geðsjúkdóm og ég fann til mikillar samkenndar með þeim.“ Þegar hún fór svo að huga að vinnu eftir útskrift þá varð geðdeildin fyrir valinu.

Mikilvægt að fá að vaxa í starfi

Þórunn Pálsdóttir, þáverandi hjúkrunarforstjóri á Kleppspítala, hvatti Margréti, þá nýútskrifaða, til að fara í framhaldsnám í geðhjúkrun sem þá var nýtt nám. Það var mikið fyrir skarpskyggni hennar að sérmennta hjúkrunarfræðinga í geðhjúkrun enda var Þórunn mjög meðvituð um mikilvægi þess að mennta fleiri geðhjúkrunarfræðinga að sögn Margrétar. Það var heillaspor hjá Margréti en allan hennar starfsferil hefur hún haft tækifæri til að vaxa í starfi og uppgötva nýjar leiðir til að hjúkra geðrofssjúklingum, ekki síst vegna þess hve hún hefur ávallt haft góða yfirmenn og stjórnendur segir hún.

Gefandi að annast hund saman

Margrét giftist eiginmanni sínum 19 ára gömul og eiga þau tvo syni og 4 barnabörn. „Synirnir eru nú löngu orðnir kallar,“ segir hún. Þau hafa haldið hund í 10 ár sem hefur veitt þeim hjónum mikla ánægju. Þau hjónin eru samhent í áhugamálum sem byggja mikið á því að vera í sumarbústað sem þau hjónin eiga, fara í ferðalög saman og að sjálfsögðu að annast hundinn segir hún. „Við erum rosalega heppin með hundinn okkar og hann með okkur. Það er merkilegt hvað það er gefandi að eiga hund saman.“


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála