Fréttatilkynning frá Fíh vegna svars heilbrigðisráðherra til Alþingis um launamun hjúkrunarfræðinga
Er til of mikils ætlast að stjórnvöld beri ábyrgð og viðhafi vönduð vinnubrögð?
Lítið hefur heyrst frá íslenskum stjórnvöldum um raunverulegar lausnir við vanda íslenska heilbrigðiskerfisins þegar kemur að skorti á hjúkrunarfræðingum. Hægt þokast í viðræðum um nýjan kjarasamning við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) sem hefur verið samningslaust í 10 mánuði og ekki samið um kaup og kjör við fjármálaráðherra í fimm ár. Fjölda hjúkrunarfræðinga vantar til starfa, hjúkrunarfræðingar hætta störfum og legupláss eru lokuð á sjúkrahúsum.
Ekki auðveldar það stöðuna í kjaradeilunni þegar heilbrigðisráðherra, í svari við fyrirspurn þingmanns, birtir tölur um laun hjúkrunarfræðinga sem eru í engum takti við raunveruleikann https://www.althingi.is/altext/150/s/0841.html. Meðal annars kemur þar fram að hæstu heildarlaun almennra hjúkrunarfræðinga séu 1,7 milljón á mánuði og dagvinnulaun almennra hjúkrunarfræðinga á Landspítala séu 668 þúsund og heildarlaun 1 milljón á mánuði.
Launatölurnar virðast vera settar fram með launatengdum gjöldum og miðaðar við fullt starf. Þær eru því fjarri þeim launum sem hjúkrunarfræðingar eru raunverulega með. Hjúkrunarfræðingar eru að meðaltali í 71% starfshlutfalli hjá ríkinu og eru fæstir í fullu starfi. Enginn fyrirvari er gerður við framsetningu talnanna, forsendur eða fjölda á bak við meðaltöl.
Tilgangurinn með framsetningu þessara launatalna er algerlega óljós og mótmælir Fíh harðlega tímasetningu og aðferðafræði sem notuð er til að koma þessum upplýsingum á framfæri. Aðferðafræði sem þessi ber ekki vott um vönduð vinnubrögð. Samtal um að breyttan vinnutíma vaktavinnumanna stendur yfir með aðkomu fulltrúa Fíh, ASÍ, BSRB, BHM, auk atvinnurekenda hins opinbera. Af hálfu Fíh fer sú vinna fram í skjóli þolinmæði hjúkrunarfræðinga sem eru óþreyjufullir eftir nýjum kjarasamningi. Nýjasta útspil heilbrigðisráðherra er ekki til þess fallið að gera samningaviðræður auðveldari.
Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er öllum ljós en lausnin virðist hins vegar vera víðs fjarri. Fíh óskar eftir vandaðri vinnubrögðum frá íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að því að finna lausnir sem tryggja að hægt sé að halda uppi heilbrigðisþjónustu á Íslandi í framtíðinni. Stór hluti af því er að bæta kjör, vinnutíma og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.
Nánari upplýsingar veitir:
Guðbjörg Pálsdóttir formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
s. 824-5283