Ágætu gestir.
Síðustu 100 ár hafa hjúkrunarfræðingar verið beittir kynbundnu misrétti, bæði sem konur og kvennastétt. Það sama má segja um sjúkraliða og ljósmæður, og hefur misréttið gagnvart þessum þremur stéttum aðallega birst í launasetningu.
97% hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru konur og samkvæmt Fjármálaráðuneytinu er launamunur milli hjúkrunarfræðinga og annarra stétta, með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá ríkinu, um og yfir 20%.
Einnig vitum við að meðaldagvinnulaun félagsmanna í BHM eru 12% hærri en hjúkrunarfræðinga.
Af hverju eiga konur sem hafa menntun og sérþekkingu ekki að fá greitt fyrir sína vinnu á sama hátt og karlmenn?
Hjúkrunarfræðingar hafa iðulega verið nefndir hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu, þar sem við gegnum mikilvægu hlutverki á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Við fylgjum fólki frá vöggu til grafar og sinnum þeim á þeirra bestu og verstu stundum lífsins.
En mikilvægi stéttarinnar virðist skipta ráðamenn þessarar þjóðar litlu máli – þrátt fyrir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sé búin að gefa út slík tilmæli.
Á hverjum bitnar skorturinn á starfandi hjúkrunarfræðingum? Jú á þeim sem síst skyldi og þurfa á þjónustunni að halda. Gæði þjónustunnar og öryggi okkar skjólstæðinga er þegar ógnað vegna þessa.
Endalaust eru skrifaðar skýrslur, gerðar greiningar og stofnaðir vinnuhópar um hin ýmsu vandamál, sem flest eru ýmist orsakir eða afleiðingar þess að okkur sárvantar fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa innan heilbrigðiskerfisins. Að mínu mati er nóg komið af slíku. Næg gögn eru til og nú þurfa verkin að tala.
Ég skora á yfirvöld að taka verkefnið almennilegum tökum, þið eigið það og eigið að axla ábyrgðina.
Ný kynslóð hjúkrunarfræðinga aðgreinir vinnu og einkalíf og lítur ekki á vinnuna sem lífsstíl heldur launaða vinnu.
Fimmti hver hjúkrunarfræðingur er hættur störfum innan fimm ára frá útskrift. Einn þriðji nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarnema telja líklegt að þeir muni starfa við annað en hjúkrun í framtíðinni. Þarf frekari vitna við?
Seinagangurinn í kjaraviðræðum á sér enga hliðstæðu. Þolinmæðin er þrotin og það styttist í aðgerðir. Því hjúkrunarfræðingar upplifa þetta ekkert annað en skeytingarleysi og vanvirðingu af hálfu yfirvalda. Engin átti von á því að yfirvöld gætu toppað sig, þegar þau beittu hjúkrunarfræðinga andlegu ofbeldi með setningu laga á verkfallið 2015, en það stefnir hraðbyri í það.
Íslensk yfirvöld þurfa að ákveða hvað þau vilja gera við heilbrigðiskerfið. Þau bera ábyrgð á því, ekki hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar né ljósmæður!
Hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir til vinnu í heilbrigðiskerfinu en ekki skyldugir til þess – á því er mikill munur.
Án hjúkrunarfræðinga stefnir íslenska heilbrigðiskerfið í strand!
Núna redda stelpurnar þessu EKKI!