Erla Björnsdóttir, mannauðsráðgjafi fræðslu og starfsþróunar og hjúkrunarfræðingur á SAk
7.
apríl 2020
Erla Björnsdóttir, mannauðsráðgjafi fræðslu og starfsþróunar og hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Akureyri, er lykilstarfsmaður viðbragðsstjórnar sjúkrahússins á Akureyri vegna COVID-19. Hún segir helstu áskoranir í starfinu vera óvissuna sem kalli á skjót og hröð viðbrögð, en ákvarðanir sem teknar eru í dag geta hæglega verið allt aðrar á morgun.
Viðbragðsstjórnin hefur það hlutverk að stýra og samhæfa aðgerðir sjúkrahússins vegna COVID-19 faraldursins. Hlutverk Erlu er að hafa umsjón með skipulagningu verkefna viðbragðsstjórnar, fræðslu, miðlun upplýsinga ásamt öðrum þáttum breytingastjórnunar sem viðbúnaður við faraldrinum kallar á. Undanfarnar vikur hafa verkefni viðbragðsstjórnar vegna Covid átt hug hennar allan. Hún segir helstu áskoranirnar vera óvissuna sem fylgi faraldrinum sem kalli á skjót viðbrögð og hröð vinnubrögð. „Það getur verið erfitt að líta í öll horn á slíkum hraða, og ákvarðanir sem teknar eru í dag geta verið breyttar á morgun,“ segir hún.
Þekking hjúkrunarfræðinga mun nýtast vel í þróun fjarheilbrigðisþjónustu
Telurðu að hjúkrun muni breytast til frambúðar? „Hjúkrunarfræði er afar fjölbreytt starf og það mun klárlega breytast í framtíðinni. Með tilkomu tækninnar mun ákveðin þróun eiga sér stað t.a.m. hvað varðar fjarheilbrigðisþjónustu, þar mun reynsla og þekking hjúkrunarfræðinga nýtast vel. Ég vona að hjúkrunarfræðingar fái þá athygli sem þeir verðskulda og það opni augu allra fyrir mikilvægi stéttarinnar.“Hvað gengur þér best að takast á við? „Ég þrífst vel í skipulögðu umhverfi, sérstaklega á óvissutímum. Ég fæ að skipuleggja verkefnin sem liggja fyrir hvern dag hjá viðbragðsstjórn, með því náum við ákveðinni yfirsýn sem er afar mikilvæg í svona breytinga- og krísustjórnun. Þar er ég sterk og ég held mér gangi bara vel með það.“
Lærdómsríkur tími
Hvaða lærdóm telurðu að við lærum af ferlinu? „Eins fordæmalaus og þessi tími er þá er hann mjög lærdómsríkur. Ég er á lokametrunum í mastersnámi í forystu og stjórnun frá Bifröst og það má segja að þetta ferli sé ágætis áfangi í breytinga- og krísustjórnun. Verkefnin eru mjög mörg, mikil áskorun, en það er ótrúlega lærdómsríkt og gefandi að sjá hvað gerist þegar allir leggjast á eitt og vinna saman, innan- sem og utan- í spítalaþjónustunni. Það er besti lærdómurinn, allir í keðjunni eru jafn mikilvægir og ég er þakklát fyrir alla í keðjunni.“Hvað er þér efst í huga? Þakklæti og stolt. Ég er þakklát fyrir þríeykið í framlínunni, Ölmu, Víði og Þórólf, ég er þakklát fyrir teymið mitt í viðbragðsstjórn SAk og þakklát fyrir alla starfsmennina sem leggjast á eitt. Svo er ég stolt af því að vera hjúkrunarfræðingur. Við erum mikilvæg stétt og erum að sýna hvers megnug við erum alla daga.
Vilt þú deila reynslusögu þinni á tímum COVID-19? Upplýsingar á vef félagsins, hjukrun.is