7.
apríl 2020
Í tilefni „Alþjóða heilbrigðisdagsins“
Í dag kom út langþráð skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) State of the World's Nursing 2020 sem í fyrsta skipti kortleggur hjúkrun á heimsvísu og kemur með tillögur að breytingum varðandi menntun, starfsmöguleika, starfsumhverfi, leiðtogahæfni og launakjör hjúkrunarfræðinga.Í skýrslunni segir m.a. að COVID-19 heimsfaraldurinn undirstriki þá brýnu þörf að efla heilbrigðisstarfsmenn á heimsvísu. Hjúkrunarfræðingar eru meira en helmingur allra heilbrigðisstarfsmanna heims og veita þeir nauðsynlega þjónustu í öllu heilbrigðiskerfinu. Sögulega, sem og í dag, eru hjúkrunarfræðingar í fararbroddi í baráttu gegn ýmis konar faraldri svo og heimsfaraldri sem ógna heilsu manna. Um allan heim sýna þeir samúð sína, hugrekki, fagmennsku og áræði þegar þeir bregðast við COVID-19 heimsfaraldri: Aldrei áður hefur verið sýnt fram á gildi þeirra með skýrari hætti.
„Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfi allra landa. Í dag eru margir hjúkrunarfræðingar í fremstu víglínu í baráttunni gegn Covid-19, “sagði Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. „Þessi skýrsla er áþreifanleg áminning um einstakt hlutverk hjúkrunarfræðinga og áminning um að tryggja að þeir fái þann stuðning sem þeir þurfa til að halda heiminum heilbrigðum.“
„Stjórnmálamenn skilja kostnaðinn við menntun og viðhald fagfólks í hjúkrun, en fyrst núna eru margir þeirra að viðurkenna hið sanna gildi þeirra,“ sagði Annette Kennedy, forseti ICN. „Sérhver króna, sem fjárfest er í hjúkrun, bætir líðan fólks og fjölskyldna á áþreifanlegan hátt sem öllum er ljóst. Skýrsla þessi varpar ljósi á framlag hjúkrunarfræðinga og staðfestir að fjárfesting í hjúkrunarstéttinni er samfélaginu hagur en ekki kostnaður. Heimurinn þarfnast milljónir hjúkrunarfræðinga í viðbót og við skorum á stjórnvöld að gera rétt, fjárfesta í þessari frábæru atvinnugrein og fylgjast með íbúum þeirra njóta góðs af því ótrúlega starfi sem aðeins hjúkrunarfræðingar geta unnið.“
10 ráðleggingar WHO
WHO vann skýrsluna í samvinnu með Alþjóðasamtök hjúkrunarfræðinga (ICN) og tóku 191 land þátt í undirbúningsvinnunni þar á meðal Ísland. Í skýrslunni koma fram 10 ráðleggingar um hvernig hægt sé að lyfta hjúkrun á heimvísu á hærra plan. Fyrir utan að mennta fleiri hjúkrunarfræðinga, skapa fleiri störf og efla leiðtogahæfni kemur fram í skýrslunni að bæta þurfi starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og launakjör.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með því að öll lönd nýti sér sérfræðiþekkingu hjúkrunarfræðinga við gerð heilbrigðisstefnu þeirra.