Hjukrun.is-print-version

Útsjónarsemi og sveigjanleiki einkennandi fyrir störf hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
9. apríl 2020

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Við erum að upplifa ótrúlega tíma sem engan óraði fyrir. Á síðustu vikum hafa hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk í heilbrigðiskerfinu gjörbreytt sinni vinnutilhögun og starfsumhverfinu hefur verið gjörbylt í sinni víðustu mynd, bæði hvað varðar skipulag á vinnutíma, starfshætti, húsnæði og búnað. Allar girðingar og landamæri sem við þekkjum í daglegri starfsemi hafa verið lögð niður og einungis hugsaði í lausnum. Útsjónarsemi og sveigjanleiki hjúkrunarfræðinga hefur einkennt þetta ferli frá upphafi.

„Ábyrgðin sem stéttin sýnir í starfi og faglegu vinnubrögðin dylst engum“

Ástandið hefur haft mikil áhrif bæði á einkalífið og vinnu og hafa mörkin þar á milli, sem við annars viljum virða og leggja áherslu á, nær horfið. Hjúkrunarfræðingar hafa verið í sjálfskipaðri sóttkví á milli vakta til þess eins að geta mætt aftur á vaktina og lagt sitt af mörkum á þessum erfiðu tímum. Hjúkrunarfræðingar bæta á sig endalausri vinnu umfram sína vinnuskyldu, allt til þess að láta hlutina ganga upp. Hátt í þrjú hundruð hjúkrunarfræðinga, sem ekki eru að starfa við fagið eða hafa tök á frekara vinnuframlagi, hafa skráð sig í bakvarðasveitir heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins. Margir þeirra eru þegar komnir til starfa, fara hiklaust inn í nýtt starfsumhverfi með nýjum áskorunum enda aðlögunarhæfni hjúkrunarfræðinga einstök. Ábyrgðin sem stéttin sýnir í starfi og faglegu vinnubrögðin dylst engum.

„Sýnileikinn hefur verið mikill og í raun skrítið að hugsa til þess að það þurfi faraldur eins og þennan til að landsmenn átti sig á mikilvægi stéttarinnar innan heilbrigðiskerfisins.“

Öllum landsmönnum er ljóst í dag mikilvægi stéttarinnar í íslensku heilbrigðiskerfi og hefur umfjöllunin í samfélags- og fjölmiðlum undanfarnar vikur endurspeglað það. Sýnileikinn hefur verið mikill og í raun skrítið að hugsa til þess að það þurfi faraldur eins og þennan til að landsmenn átti sig á mikilvægi stéttarinnar innan heilbrigðiskerfisins. Stuðningurinn við stéttina hefur verið mikill og sérstaklega í ljósi þess að enn sitja hjúkrunarfræðingar kjarasamningslausir eftir 1 ár í samningaviðræðum.

Þegar litið er á stöðu samningaviðræðna þá er ljóst að viðræðurnar eru langt komnar þó umræðum um m.a. launaliðinn sé ekki lokið. Samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefnd ríkisins (SNR) sitja nú daglega saman undir stjórn ríkissáttasemjara og reyna til þrautar að klára samninginn því allir eru sammála um að núverandi staða í samningamálum er óviðunandi. Þó ekki sé við hæfi að tala um kórónafaraldurinn í sömu andrá og lausa kjarasamninga er sérstakt að upplifa þessa afkáralegu stöðu sem hjúkrunarfræðingar eru í. Á sama tíma og hjúkrunarfræðingar eru ómissandi gengur hægt að semja við okkur.

Hjúkrunarfræðingar eru lykilaðilar á öllum stigum heilbrigðiskerfisins

Alþjóðaheilbrigðisdagurinn (WHO) var 7. apríl og var dagurinn tileinkaður hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum.  Jafnframt var gefin út viðamikil skýrsla um stöðu hjúkrunar á heimsvísu. Dr. Tedros Adhanom Ghebreysesus, forstjóri WHO, talar enn og einu sinni um að hjúkrunarfræðingar séu lykilaðilar á öllum stigum heilbrigðiskerfisins. Nauðsynlegt sé að meta störf þeirra að verðleikum og nú standi stéttin í fremstu víglínu vegna baráttunnar við kórónaveiruna. Skýrslan er sterk áminning til allra um hversu mikilvægu hlutverki hjúkrunarfræðingar gegna.

„Í ár er staðan sérstaklega erfið og flókin og langar mig að þakka ykkur öllum fyrir að leggja ykkar af mörkum til að hjálpa landsmönnum við að sigrast á afleiðingum veirunnar af heilindum og fagmennsku.“

Framundan eru páskarnir. Þeir verða með sérstöku sniði í ár en ekki endilega fyrir hjúkrunarfræðinga sem eru vanir að standa vaktina óháð hátíðis- og tyllidögum. Í ár er staðan sérstaklega erfið og flókin og langar mig að þakka ykkur öllum fyrir að leggja ykkar af mörkum til að hjálpa landsmönnum við að sigrast á afleiðingum veirunnar af heilindum og fagmennsku. Á meðan munum við í samninganefnd Fíh gera okkar besta til að ná samningum við ríkið í núverandi deilu.
Ég vona að þið fáið einhverja hvíld á milli vakta og verkefna næstu daga og vikur og ég hvet ykkur til að eyða tímanum með þeim sem ykkur standa næst. Passið vel að hlúa að ykkur sjálfum því það er forsenda þess að geta hjálpað öðrum. Farið varlega og gleðilega páska.

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála