Hjukrun.is-print-version

„Líður stundum eins og ég sé stödd í bíómynd“

RSSfréttir
10. apríl 2020

„Þessi tími er svo óraunverulegur og mér líður stundum eins og ég sé stödd í bíómynd,“ segir Sólveig Gylfadóttir, en hún vinnur við að sinna sjúklingum sem greinst hafa með COVID-19.

Sólveig segir helstu áskoranir í starfinu vera breytingar á vinnustaðnum. Deildinni hefur verið lokað og þar er eingöngu sjúklingar sem greinst hafa með vírusinn. Eins og gefur að skilja er starfsfólk í hlíðarfatnaði megnið af deginum. „Mér finnst mikil áskorun að vera manneskjuleg í þessum hlífðarfatnaði og geta ekki haldið í hendi á sjúklingnum mínum án þess að vera í hanska þegar ég reyni að sýna honum stuðning og samhyggð,“ segir hún.

Almenningur betur upplýstur um störf hjúkrunarfræðinga

Helstu breytingarnar á starfinu segir Sólveig vera breytt verklag og nýjar upplýsingar sem breytast dag frá degi. Vegna sýnileika hjúkrunarfræðinga í fréttum og samfélagsmiðlum verði almenningur betur upplýstur um störf hjúkrunarfræðinga. Hvað gengur þér best að takast á við? „Álagið. Ég hugleiði daglega og fæ svo ómetanlega góðan stuðning frá fjölskyldunni, samstarfsfélögum og yfirmönnum.“

Hvaða lærdóm telurðu að við lærum af ferlinu? „Við munum öðlast þekkingu og reynslu á að vinna við svona skæðan heimsfaraldur. Við þurfum að skrásetja allt svo við getum nýtt okkur reynsluna á þessum faraldri. Skrá bæði það sem við gerðum rétt og það sem mætti gera betur ef það skyldi koma annar svona skæður faraldur seinna.“

„Ég hugsa einnig mikið um hvað verður skrítið að ganga aftur um ganga á deildinni minni ekki í hlífðarfatnaði. Þessi tími er svo óraunverulegur og mér líður stundum eins og ég sé stödd í bíómynd.“
Sólveig segir þakklæti og reynslu vera henni efst í huga. „Ég er ómetanlega þakklát fyrir alla reynsluna sem ég hef öðlast í kringum það að hafa unnið svona mikið með þennan nýja sjúkdóm og þakklát fyrir styrk og hvatningu frá samstarfsfélögum og samfélaginu,“ segir hún. „Ég hugsa einnig mikið um hvað verður skrítið að ganga aftur um ganga á deildinni minni ekki í hlífðarfatnaði. Þessi tími er svo óraunverulegur og mér líður stundum eins og ég sé stödd í bíómynd.“

Vilt þú deila reynslusögu þinni á tímum COVID-19? Upplýsingar á vef félagsins, hjukrun.is

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála