Hjukrun.is-print-version

Ekki alltaf auðvelt að halda höfði þegar mikið á reynir

RSSfréttir
14. apríl 2020

Þrátt fyrir að ástandið sé grafalvarlegt hefur Ólöf Sólrún Vilhjálmsdóttir, hjúkrunarfræðingur á smitsjúkdómadeild A7 í Fossvogi, aldrei notið þess jafn mikið að vinna á spítalanum. Ástandið tekur sannarlega á, jafnt andlega sem líkamlega, og hún viðurkennir það að hafa grátið reglulega vegna aðstæðnanna. „Það er þó engin skömm í því þar sem við erum jú öll mennsk, og þetta fylgir bara þessu starfi.“

Helstu verkefni Ólafar tengjast hjúkrun sjúklinga sem greinst hafa með COVID-19 vírusinn. Starfsfólkið á smitsjúkdómadeild er vant því að klæðast hlífðarbúnaði í vinnunni en hún segir það taka mikið á andlega hliðina að þurfa að klæðast hlífðarbúnaði til lengri tíma líkt og þekkist í COVID faraldrinum. „Ég er alltaf spennt að mæta til vinnu og leggja mitt af mörkum. Þrátt fyrir það tel ég einnig mikilvægt að koma á framfæri að ástandið tekur svo sannarlega á, ekki einungis líkamlega heldur líka andlega, en ég viðurkenni að ég hef grátið reglulega vegna aðstæðanna. Það er þó engin skömm í því þar sem við erum jú öll mennsk, og þetta fylgir bara þessu starfi. Við sinnum jú veiku fólki og það er ekki alltaf auðvelt að halda höfði þegar mikið á reynir, hvað þá í aðstæðum sem maður hefur ekki reynslu af áður.

„Við erum að setja okkur í hættu með því að sinna þessu fólki, og maður hefur það alltaf á bakvið eyrað hversu mikilvægt það er fyrir okkur að huga því sérstaklega vel að hlífðarbúnaði og hreinlæti."
Helsta breytingin á starfin mínu að sögn Ólafar er sú að þurfa að aðlaga sig að nýjum aðstæðum, enda er ástandið í faraldrinum síbreytilegt og stöðugt verið að endurmeta og uppfæra verklag. Jafnframt sé það vissulega breyting að þurfa að klæðast hlífðarbúnaði jafn mikið og við gerum núna. „Við erum að setja okkur í hættu með því að sinna þessu fólki, og maður hefur það alltaf á bakvið eyrað hversu mikilvægt það er fyrir okkur að huga því sérstaklega vel að hlífðarbúnaði og hreinlæti. Þetta hefur einnig haft töluverð áhrif á líf manns utan vinnunnar, en til að mynda hef ég takmarkað heimsóknir mínar við fólk í kringum mig til muna, og hitti ekki ömmur mínar né aðra sem teljast til áhættuhópa vegna ástandsins. Maður verður þó að hugsa að það sé öllum fyrir bestu og svo þorir maður auðvitað ekki öðru en að fara eftir því sem manni er sagt, og ég viðurkenni það fúslega, ég hlýði Víði.“

Allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum

Aðspurð hvort hún telji að hjúkrun muni breytast til frambúðar telur hún hjúkrun muni alltaf vera eins í grunninn, þ.e. að sýna umhyggju og hjúkra veiku fólki og veita því þá aðstoð sem þörf er á. Ólöf telur aftur á móti að fólk muni almennt kunna að meta hjúkrun og störf þeirra betur en það gerði áður. Það átti sig jafnvel betur á hvað það er sem felst virkilega í starfi hjúkrunarfræðinga á hverjum einasta degi.

Hvað gengur þér best að takast á við? „Maður reynir eftir fremsta magni að aðlaga sig að þessum nýju og flóknu aðstæðum, en það eru allir að reyna að gera sitt besta. Ég er viss um það að samstaða og stuðningur í starfi meðal samstarfsfólks skiptir þar sköpum, en á þessum tímum hef ég persónulega fundið gífurlegan mun á starfsanda deildarinnar. Við erum einhvern veginn öll svo til í þetta gríðarlega krefjandi og flókna verkefni og við stöndum þétt á bakvið hvort annað. Það eru allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum og gera það sem til þarf til þess að komast í gegnum þetta tímabil og það er bara gífurlega mikilvægt. Ég myndi því segja að manni takist nokkuð vel að takast á við þessar breyttu og tímabundnu aðstæður, ég er allavega að gera mitt allra besta og meira get ég ekki.“ Segir Ólöf.

„Ég tel að almenningur muni huga margfalt betur að almennu hreinlæti heldur en nokkru sinni fyrr og verður það að teljast jákvætt.“
Hvaða lærdóm telurðu að við lærum af ferlinu? „Ég tel að almenningur muni huga margfalt betur að almennu hreinlæti heldur en nokkru sinni fyrr og verður það að teljast jákvætt.“ En hvað er þér efst í huga? „Þakklæti,“ segir hún. „Það hefur verið ótrúlega mikilvægur þáttur í þessu ferli að finna fyrir þeim gríðarlega mikla stuðningi sem almenningur og þjóðin öll hefur sýnt okkur og framlínunni á þessum erfiðu tímum. Það er ótrúlega gott að finna fyrir því hversu samheldin við erum sem þjóð og hvað við getum verið ótrúlega öflug og sterk þegar við stöndum öll saman og hjálpumst að."

Við erum mögnuð og ómissandi starfsstétt

Ólöf er þakklæti ofarlega í huga fyrir ómetanlegan stuðning, hvort sem það er fjölskylda hennar sem stendur henni næst eða samstarfsfólk sínu. „Við erum svo sannarlega að upplifa sögulega tíma og hef ég aldrei verið jafn stolt og hreykin af því að vera hjúkrunarfræðingur eins og núna. Það hefur verið mögnuð upplifun að fá að leggja sitt af mörkum í baráttunni við faraldurinn og að finna að maður er að sinna gífurlega mikilvægu og þörfu starfi á degi hverjum. Vinnan mín er vissulega krefjandi en um leið svo ótrúlega gefandi, og það er það sem gerir það að verkum að ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir neitt annað. Að lokum vil ég koma því á framfæri að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er árið 2020 tileinkað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Í ljósi aðstæðna má því segja að við séum að sinna vægast sagt mikilvægu verkefni á degi hverjum og komum til með að gera þar til faraldrinum lýkur, og gott betur en það. Hjúkrunarfræðingar eru nefnilega alltaf til taks, burt séð frá því hvort heimsfaraldur sé í gangi eða ekki. Fólk glímir jú við veikindi af ýmsum toga allt árið um kring, hvort  það sé á sunnudegi, helgidögum eða á öllum öðrum dögum ársins. Já, við erum nefnilega það mögnuð og ómissandi starfsstétt! Því hef ég lokaorðin á þá vegu að ég trúi ekki öðru en að samninganefnd ríkisins sjái sóma sinn í því að semja við okkur og sýna okkur þá virðingu sem við eigum og höfum alltaf átt skilið, og veita okkur mannsæmandi laun í samræmi við álag og umfang vinnunnar okkar.“

Vilt þú deila reynslusögu þinni á tímum COVID-19? Upplýsingar á vef félagsins, hjukrun.is

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála