Hjukrun.is-print-version

Vigdís Finnbogadóttir 90 ára

RSSfréttir
15. apríl 2020

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga færir frú Vigdísi Finnbogadóttur innilegar hamingjuóskir á 90 ára afmæli hennar. Í tilefni afmælisins færir félagið Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur peningagjöf að upphæð einni milljón króna.

Nafn frú Vigdísar Finnbogadóttur hefur alla tíð verið tengt félagi hjúkrunarfræðinga og hjúkrun. Móðir hennar, frú Sigríður Eiríksdóttir, var formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna í 36 ár og er Vigdís nátengd allri þeirri sögu. Vigdís hefur stutt sérstaklega við hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarþjónustu í landinu og var hún gerð að heiðursfélaga í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 1994.

Á síðasta ári veitti Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri frú Vigdísi Finnbogadóttur heiðursdoktorsnafnbót á sviði heilbrigðisvísinda. Heiðursdoktorsnafnbótina hlaut hún meðal annars fyrir víðtæk jákvæð áhrif í samfélaginu, þar með talið heilbrigðis- og líknarmál.

Vigdís hefur ætíð verið sannur leiðtogi og mikilvæg fyrirmynd fyrir konur. Hún var fyrsti lýðræðiskjörni kvenforseti í heiminum og var í forsetatíð sinni meðvituð um mikilvægi þess að konur hefðu sterkar fyrirmyndir. Vigdís er meðlimur í samtökum kvenleiðtoga heimsins og hefur verið konum um víða veröld hvatning til að hafa áhrif og berjast fyrir jafnrétti.

Eftir að Vigdís lét af embætti forseta hafa umhverfismál og náttúrvernd verið henni hugleikin og hefur hún veitt liðsinni sitt við ýmis tækifæri á þeim vettvangi. Frá árinu 1999 hefur hún gegnt starfi velgjörðar sendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í tungumálum og er hún fyrsti og eini talsmaður tungumála á heimsvísu.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála