Hjukrun.is-print-version

Teymisvinna er lykilorðið

RSSfréttir
17. apríl 2020

„Það er aðdáunarvert hvað fólk bregst vel við símtölum frá okkur í rakningateyminu, bæði þeir sem eru að komast að því að þeir eru smitaðir sem og þeir sem þurfa að fara í sóttkví. Við erum að hringja í fólk með íþyngjandi kröfur um einangrun og sóttkví en er nánast alltaf mætt með skilningi og þakklæti fyrir okkar störf,“ segir Áslaug Salka Grétarsdóttir, verkefnastjóri á heilbrigðisupplýsingasviði embættis landlæknis.

Löng og flókin símtöl hjá rakningateyminu

Frá því í marsbyrjun hefur starf Áslaugar Sölku meira og minna snúist um COVID-19. Í upphafi faraldursins voru nokkrir hjúkrunarfræðingar hjá embættinu að aðstoða sóttvarnarsvið við að svara hluta af þeim ótalmörgun fyrirspurnum sem bárust embættinu vegna COVID-19. Síðar var hún fengin í rakningateymi almannavarna og sóttvarnarlæknis og hefur síðan þá starfað með góðum hópi hjúkrunarfræðinga og lögreglumanna. „Við höfum samband við þá einstaklinga sem greinast með COVID-19, förum með kerfisbundnum hætti yfir hvenær einkenni hófust, hverja þeir hafa umgengist á þeim tíma sem þeir gætu hafa verið smitandi og setja þá einstaklinga í sóttkví. Þetta geta verið löng og flókin símtöl og mikilvægt að velta upp álitamálum með teyminu, auk þess sem við getum leitað til vakthafandi smitsjúkdómalæknis þegar þörf krefur.“

„Staðreyndin að yfir helmingur þeirra sem greinast með COVID-19 veiktust í sóttkví gefur starfinu einnig meiningu og hvetur mig áfram.“
Rakningateymið er að störfum alla daga vikunnar frá morgni til kvölds sem voru viðbrigði fyrir mig þar sem ég hef verið í dagvinnu síðustu 15 árin segir Áslaug Salka. Fyrstu dagana voru vaktirnar langar, mikið álag, og stundum erfitt að ná yfirsýn yfir málin sem þau voru að vinna með. „Jafnt og þétt hefur þó dregið úr fjölda þeirra sem þurfa að fara í sóttkví vegna þeirra sem greinast sem staðfesti fyrir mér áður en nýgreiningum fækkaði að aðgerðir yfirvalda voru að skila árangri. Staðreyndin að yfir helmingur þeirra sem greinast með COVID-19 veiktust í sóttkví gefur starfinu einnig meiningu og hvetur mig áfram,“ segir hún.

„Ekkert er mikilvægara en að leggja sitt af mörkum“

Áslaug Salka hefur að mestu þurft að leggja til hliðar hennar hefðbundnu verkefni hjá embættinu til að sinna rakningunum, en hún reynir að sinna þeim þegar tími gefst til. Fleiri starfsmenn landlæknis hafa skipt tímabundið um starfsvettvang í tengslum við COVID-19 en það eru 7 hjúkrunarfræðingar frá embætti landlæknis sem störfum nú í rakningateyminu. Hún segir að þrátt fyrir að álag hafi verið mikið á köflum og erfitt að hafa ekki tíma til að sinna hefðbundnum störfum er hún þakklát fyrir að fá tækifæri til að að leggja sitt af mörkum í viðbragðinu við þessum skæða faraldri. „Ekkert er mikilvægara eins og er.“

Hjúkurnarfræðingar lykillinn að fjarheilbrigðisþjónustu

Telurðu að hjúkrun muni breytast til frambúðar? „Bæði og. Ég tel að þessi faraldur sýni að hjúkrunarfræðingar eru enn nauðsynlegri en almenningur og stjórnvöld höfðu gert sér grein fyrir hingað til. Fýsísk viðvera hjúkrunarfræðinga er svo mikilvæg í meðferð þeirra mest veiku. Það mun ekki breytast í bráð. Hins vegar held ég að þessi faraldur sýni einnig hversu mikilvægir hjúkrunarfræðingar eru skipulagningu og undirbúningi viðbragða heilbrigðisstofnana.“ Fjarheilbrigðisþjónusta hefur aukist verulega frá því að fyrsta COVID-19 tilfellið greindist og þar telur Áslaug Salka að hjúkrun muni breytast. „Teymisvinna er þó lykilorð í þessum samhengi, það þarf allar heilbrigðisstéttir með í þessa vinnu en hjúkrunarfræðingar ættu að vera í lykilhlutverki í skipulagningu og utanumhaldi á fjarheilbrigðisþjónustu í framhaldinu.“

„Ég upplifi svo sterkt að við erum öll i þessu saman. Samtakamáttur samfélagsins gegn þessum faraldri er svo fallegur.“
Þakklæti er ofarlega í huga Áslaugar Sölku. „Mér finnst mikilvægast að nálgast verkefnin mín með þakklæti. Það er aðdáunarvert hvað fólk bregst vel við símtölum frá okkur í rakningateyminu, bæði þeir sem eru að komast að því að þeir eru smitaðir sem og þeir sem þurfa að fara í sóttkví. Við erum að hringja í fólk með íþyngjandi kröfur um einangrun og sóttkví en er nánast alltaf mætt með skilningi og þakklæti fyrir okkar störf. Ég upplifi svo sterkt að við erum öll i þessu saman. Samtakamáttur samfélagsins gegn þessum faraldri er svo fallegur.“

„Vonandi fáum við að upplifa þakklæti í launaumslaginu í samræmi við þá ábyrgð sem við öxlum“

Aðspurð hvaða lærdóm við munum læra af ferlinu segist hún vona að við kunnum að meta hversu megnug við erum þegar yfirvöld, sérfræðingar, allar heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstéttir og almenningur leggjast á eitt. Efst í huga Áslaugar Sölku er nýundirritaður kjarasamningur við hjúkrunarfræðinga. „Gleðilegt að samningar náðust loksins. Ég var farin að óttast alvarlegan flótta úr stéttinni vegna óánægju hjúkrunarfræðinga með kjör sín og áhugaleysis yfirvalda á að leiðrétta þau. Ég hef verið stolt af hjúkrunarfræðingum síðustu vikur og fundið fyrir miklu þakklæti frá almenningi fyrir okkar störf. Vonandi fáum við að upplifa þakklæti í launaumslaginu í samræmi við þá ábyrgð sem við öxlum.“


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála