Hjukrun.is-print-version

Til hamingju með daginn hjúkrunarfræðingar!

RSSfréttir
12. maí 2020

Alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga er fagnað 12. maí ár hvert. Dagurinn er fæðingardagur Florence Nightingale en hún var einn stærsti áhrifavaldur í þróun og sögu hjúkrunar og lagði grunninn að þeirri nútíma hjúkrun sem við þekkjum í dag. Það gerði hún m.a. með framsýni og frumkvæði sem rannsakandi og fræðimanneskja og sýndi fram á mikilvægi hreinlætis með tölfræðilegum gögnum.

Framlag Nightingale til mikilvægi hreinlætis

Nú eru merk tímamót en 200 ár eru liðin frá fæðingu Nightingale og af því tilefni tileinkaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Þó víða um heim hafi árið verið skipulagt með ýmsum viðburðum til að vekja athygli á mikilvægu hlutverki hjúkrunarfræðinga í samfélaginu, þá óraði engan fyrir því að við fengjum nýjan heimsfaraldur sem myndi taka að sér hlutverkið á svo óvæginn hátt. Undanfarnar vikur hafa hjúkrunarfræðingar verið í framlínunni í baráttunni við kórónaveiruna og hefur engum dulist mikilvægi stéttarinnar í þeirri baráttu. Áhersla Nightingale á mikilvægi handþvottar og hreinlæti í umhverfi sjúklinga og við hjúkrun sem hún innleiddi á sjúkrahúsum hafði í för með sér að lífshorfur sjúklinga margfölduðust. Líkt og þá er handþvottur og hreinlæti lykilþáttur í baráttu okkar við þessa skæðu veiru.

Lykilstétt á öllum stigum heilbrigðiskerfisins

Framlag hjúkrunarfræðinga hefur skipt sköpum undanfarnar vikur og það dylst engum mikilvægi stéttarinnar á tímum sem þessum. Hjúkrunarfræðingar eru lykilstétt á öllum stigum heilbrigðiskerfisins, líkt og forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sagði, og við höfum vissulega sannreynt það hér á landi undangengna mánuði.

Hjúkrunarfræðingar við störf í íslenska heilbrigðiskerfinu er ekki sjálfgefin auðlind og því er nauðsynlegt að hlúa að henni um leið og störf hennar þarf að meta að verðleikum. Á það hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin einnig bent á, m.a. í nýútgefinni skýrslu um stöðu hjúkrunar á heimsvísu, en sú skýrsla er mjög góð áminning til allra um hversu mikilvægu hlutverki hjúkrunarfræðingar gegna.

Fögnum afmælisárinu í haust

Þessu merkisári ætlar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga að fagna en að sama skapi hefur staðan verið einstaklega erfið vegna áhrifa kórónuveirunnar eins og t.d. samkomubanns. Því hefur félagið ekki náð að halda þá viðburði sem áætlaðir voru en það styttir upp um síðir og vonumst við til að í haust getum við komið saman við ýmis tækifæri, gert okkur glaðan dag og lyft andanum.

Um leið og ég þakka hjúkrunarfræðingum fyrir óeigingjarnt og fagmannlegt starf undanfarnar vikur og mánuði í að hjálpa landsmönnum að takast á við afleiðingar veirunnar, þá vonast ég til að við látum ekki þessi tímamót framhjá okkur fara og fögnum þeim á einn eða annan hátt.
Takk fyrir ykkar ómetanlega framlag í þágu okkar allra á þessum erfiðu tímum. Til hamingju með daginn!

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála