Hjukrun.is-print-version

Allir lögðu sig fram við að dansa í takt

RSSfréttir
18. maí 2020

Fyrir tíma kórónafaraldursins snerist vinna Hrafnhildar Lilju Jónsdóttur, sérfræðings í bráðahjúkrun, fyrst og fremst um hvers konar kennslu og námskeiðshald. Verkefni hennar breyttust heldur betur eftir tilkomu faraldursins. Í upphafi fékk hún það verkefni, ásamt sýkingarvarnarhjúkrunarfræðingi, að gera sértæka viðbragsáætlun fyrir covid á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Það kom nefnilega fljótlega í ljós að þó til væri farsóttaráætlun fyrir stofnunina þá passaði hún ekki nógu vel fyrir covid-faraldurinn. Það var mjög áberandi hvað allir hlutir í byrjun faraldurs þurftu að gerast í gær, já eða helst í síðustu viku. Vinnuumhverfið sérstaklega í upphafi faraldurs breyttist dag frá degi. Það að hlutirnir þyrfti að gerast hratt hentuðu ágætlega bráðahjúkrunarfræðingnum í mér og ekki síður algjörum skorti mínum á þolinmæði,“ segir hún.

Auk þess að vera sérfræðingur í bráðahjúkrun starfar hún sem kennslu og þjálfunarstjóri á Sak og er lektor við Háskólann á Akureyri. Hún tók að sér hlutverk samhæfingarstjóra en það felst í að hafa yfirsýn og samræma verklag við móttöku og meðferð sjúklinga með grunað eða staðfest covid-smit á SAk. Þá þurfti að samræma verklag á milli SAk og annarra, s.s. Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Landspítala, Almannavarna og sjúkraflutninga.

„Hermikennsla á heimavelli“

Jafnóðum og nýir verkferlar og vinnuleiðbeiningar urðu til jókst þörfin á að þjálfa starfsfólk í að takast á við breytt starfsumhverfi. Hrafnhildur er í forsvari fyrir hermikennslu á SAk og með hermikennsluteymið og sýkingarvarnarhjúkrunarfræðing saman í liði var farið í að skipuleggja og halda æfingar í „Hermikennslu á heimavelli“. Þar fékk starfsfólk tækifæri til að æfa móttöku og meðhöndlun covid-sjúklinga, aðkomu og flutning þeirra milli deilda og fleira. Í lok æfinga settist starfsfólk, bæði þátttakendur og áhorfendur saman niður og rýndi hvernig tekist hefði til, hvað þurfti að bæta í verklaginu og vinnuleiðbeiningunum? Horft var í öll smáatriði til dæmis; hvernig klæðir starfsfólk sig í og úr hlífðargöllum?, hver er besta flutningsleiðin uppá fæðingardeild? Tilgangur æfinganna var því tvíþættur, annars vegar að þjálfa starfsfólk i breyttu starfsumhverfi og hins vegar að vinna út úr rýnifundunum við gerð verklagsregla og vinnuleiðbeininga. „Hermikennsla á heimavelli“ átti því stóran þátt í að hjálpa starfsfólki að rýna í nýtt verklag og vinnuumhverfi að sögn hennar.

Mikilvægi kennslu og þjálfunar mikið

„Verkefni mín í upphafi lágu ekki aðeins í breyttu kennslu og þjálfunarumhverfi. Því á sama tíma var ákveðið að breyta hluta af barnadeild SAk í covid-legudeild. Mikil vinna fór því í að standsetja nýja deild, gerð þjónustuferla, finna allt til sem þarf í heila legudeild með tíu plássum. Það var því ekki bara námskeiðshaldið sem tók stakkaskiptum því á örfáum dögum breyttist hermikennslustofan í skoðunarstofu fyrir þungaðar konur í sóttkví eða einangrun,“ segir hún. Stuðtæki, lyfjavagnar og annar kennslubúnaður var orðin hluti af nýrri covid-deild, „já, næstum allt nema dúkkurnar.“

„Það er hreint ótrúlegt þegar allir hjálpast að hvað hægt var að týna til af búnaði héðan og þaðan af einni stofnun. Á nýja deild þurfti starfsfólk, hjúkrunarfræðingar sem áður höfðu unnið á legudeild þurftu þjálfun í móttöku og uppvinnslu sjúkling, töku blóðprufa, ræktana o.fl. Hjúkrunarfræðingar af göngudeildum og bráðamóttöku þurftu að rifja upp hvernig hjúkrunargreiningar virkuðu hjá legudeildarsjúklingum, hjúkrunarfræðingar úr bakvarðarsveit, allir þurftu á einhvern hátt þjálfun í nýju starfsumhverfi. Mikilvægi kennslu og þjálfunar var því mikið,“ segir Hrafnhildur.


Áskorunin í lok dagsins er því kannski að muna að klappa sjálfum sér á bakið fyrir gott starf en ekki bara velta sér upp úr því hvað maður hefði viljað gera betur eða hverju maður áorkaði ekki í dag.

 

Helstu áskoranirnar eru þær að vera alltaf tilbúin að breyta og aðlagast segir hún. „Ég hef unnið auk kennslu við bráðahjúkrun í yfir 20 ár í umhverfi þar sem maður veit aldrei hvað kemur næst. Er skjólstæðingurinn ungur, gamall, mikið eða lítið veikur, eða slasaður. Hverjir eru í teyminu mínu, hef ég unnið með þeim áður, er það neminn sem byrjaði í gær eða einhver þaulvanur. Það að vita aldrei á hverju maður á von tel ég hafa hjálpað manni að takast á við alls konar áskoranir. En auðvitað minnka ekki kröfurnar sem maður gerir til sjálfs síns með reynslunni. Þrátt fyrir algjörlega nýtt starfsumhverfi þá ætlast maður alltaf til þess af sjálfum sér að maður standi sig. Áskorunin í lok dagsins er því kannski að muna að klappa sjálfum sér á bakið fyrir gott starf en ekki bara velta sér upp úr því hvað maður hefði viljað gera betur eða hverju maður áorkaði ekki í dag. Þó maður læri auðvitað alltaf af því að rýna í eigin gerðir.“

 

Allir lögðu sig fram við að læra dansinn

Efst í huga Hrafnhildar er samvinna og samheldni og hversu sterk við getum verið ef við stöndum saman. „Þegar á þurfti að halda að búa til smitsjúkdómadeild, göngudeild og breyta verklagi flestra deilda á SAk, heyrði maður ekki einn einasta mann kvarta eða nöldra. Hvort sem það var starfsfólk tæknideildar, stoðþjónustudeilda eða heilbrigðisstarfsfólk. Það var bara eins og það hefði verið sett nýtt lag á fóninn sem allir lögðu sig fram við að læra dansinn. Ekki bara innan okkar sjúkrahúss heldur allir hinir líka. Sjúkrastofnanir, heilsugæslan, sjúkraflutningar, almannavarnir. Allir lögðu sig fram við að dansa í takt og samvinna allra þessara aðila passaði uppá að allir á ballinu vissu hvaða lag væri í spilun.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála