Hjukrun.is-print-version

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
10. júlí 2020

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga tekur hér með heils hugar undir innihald yfirlýsingar fjögurra heilbrigðisstétta innan BHM sem send var út í kjölfar þess að frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla) var fellt á Alþingi.

Til viðbótar skal áréttað að hugmyndafræði skaðaminnkunar hefur sterka skírskotun til lýðheilsufræða og mannréttinda. Kjarni hugmyndafræðinnar er að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem vímuefnanotkun getur haft á notandann, aðstandendur og samfélagið. Segja má að grunnstoðir í hugmyndafræði skaðaminnkunar sé af sama meiði og kjarna hjúkrunar þar sem umhyggja fyrir skjólstæðingnum og virðing fyrir lífi hans, velferð og mannhelgi eru hornsteinar. Hlutverk hjúkrunarfræðings grundvallast í því að efla heilbrigði, bæta líðan og lina þjáningar einstaklinga sem hann sinnir. Hjúkrunarfræðingur hjúkrar af virðingu fyrir einstaklingum og fer ekki í manngreinarálit.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill árétta mikilvægi þess að jaðarsettir einstaklingar sem nota vímuefni jafnt sem aðrir hafi aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu sem hefur það markmið að bæta lífsgæði þeirra. Stjórn FÍH telur að refsingar vegna vörsluskammta ætlaða til eigin nota geta annað hvort viðhaldið eða aukið vanda og skaðasemi þess ástands sem einstaklingurinn býr við nú þegar.
Að ofangreindu telur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga mikilvægt að taka afstöðu með hagsmunum fólks sem notar vímuefni og að þeim sé ekki refsað fyrir minniháttar fíkniefnabrot heldur fái viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. 

Yfirlýsing Fíh og fagdeild geðhjúkrunarfræðinga.pdf

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála