Hjukrun.is-print-version

Gerðardómur er vonbrigði en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir

RSSfréttir
4. september 2020

Ágætu hjúkrunarfræðingar,

Þann 1. september birti gerðardómur greinargerð og niðurstöðu sína í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Með þessari niðurstöðu fékkst ákveðin lokaniðurstaða í kjaradeilu sem staðið hefur frá því í byrjun árs 2019. Á ýmsu hefur gengið á þessum tíma, haldnir voru fjölmargir samningafundir þar sem samninganefnd Fíh hélt allan tímann á lofti kröfu um hækkun grunnlauna hjúkrunarfræðinga. Krafa hjúkrunarfræðinga um hærri grunnlaun kom skýrt fram í könnun eftir að kjarasamningur sem skrifað var undir í byrjun apríl var felldur. Lítill vilji var frá samninganefnd ríkisins að ganga að kröfum hjúkrunarfræðinga og í lok júní lagði ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu sem kvað á um að gerðardómur úrskurðaði um tiltekinn hluta launaliðar í kjarasamningi hjúkrunarfræðinga. Það var engin óskastaða, en fyrirséð var að verkfall hjúkrunarfræðinga myndi annars vegar leiða til þess að afturvirkni heildarkjarasamningsins tapaðist og að sett yrðu lög á verkfallið fljótlega vegna margvíslegra afleiðinga þess. Jafnframt hefði heildarsamningurinn farið í gerðardóm og þá tekin áhætta á að ýmsir jákvæðir þættir samningsins, eins og 10 dagar í sí- og endurmenntun, myndu tapast. Eftir að miðlunartillagan var samþykkt af tveimur þriðju hluta hjúkrunarfræðinga, tók gerðardómur til starfa.

Fulltrúar Fíh létu gerðardómi í té margvíslegan rökstuðning og gögn um hvernig og hvers vegna ætti að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Allt var lagt undir eins og áður. Nú liggur niðurstaðan fyrir og er hún mikil vonbrigði eins og skýrt kom fram í yfirlýsingu stjórnar Fíh í kjölfar gerðardómsins. Augljóslega dugir fjárhæðin ekki til þess að leiðrétta laun hjúkrunarfræðinga til samræmis við aðrar viðmiðunarstéttir eða tryggja að þeir fái laun í samræmi við ábyrgð í starfi eins og bent er á í gerðardómnum. Óánægja hjúkrunarfræðinga með niðurstöðuna er vel skiljanleg og hefur ekki farið framhjá mér. Umræða og fyrirspurnir hafa borist félaginu um hvort niðurstaða gerðardóms sé lögleg og eins hvort ekki sé hægt að breyta henni. Þessi gerðardómur er samningsbundinn og byggir á samþykkt deiluaðila á miðlunartillögu ríkissáttasemjara til lausnar á launaágreiningi. Niðurstaða dómsins lítur því út fyrir að vera endanleg og að henni verði ekki áfrýjað.

Mikilvægt er að hafa í huga að stofnanasamningar eru hluti af kjarasamningi, en í þeim fer fram eiginleg launasetning hjúkrunarfræðinga. Sú leið að fjármagn fáist til endurskoðunar á stofnanasamningum er ekki endilega versta niðurstaðan, en klárlega þarf meira fjármagn til og hefði það gert vinnuna sem framundan er mun auðveldari. Nú verður einblínt á næsta verkefni, en það er að útfæra niðurstöðu gerðardóms á heilbrigðisstofnunum í gegnum stofnanasamninga. Þessi vinna er nú þegar hafin og mun ekki standa á Fíh að vinna hratt og örugglega að því að ná sem bestri niðurstöðu fyrir hjúkrunarfræðinga. Ljóst er, því miður, að fjármagnið mun ekki duga að fullu til þess að hækka laun hjúkrunarfræðinga til samræmis við þær kröfur sem hjúkrunarfræðingar hafa haft í kjaradeilunni.

Leiðarljós félagsins í endurskoðun stofnanasamninga verður að hafa launabreytingar skýrar og einfaldar og hjúkrunarfræðingum verði ljóst á hverju þær byggja. Hjúkrunarfræðingar geta hækkað mismunandi mikið í launum. Einhverjir hafa notið viðbótarlauna, t.d. á Landspítala í gegnum Hekluverkefni og vaktaálag svo einhver dæmi séu nefnd, og nokkur launamunur er á milli heilbrigðisstofnana. Þetta þarf að skoða þegar stofnanasamningar verða endurskoðaðir.

Ég tel mikilvægt að hjúkrunarfræðingar horfi á kjarasamninginn í heild sinni, þar sem í honum felast ýmis framsýn tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga, eins og stytting vinnuvikunnar, breyting á vinnutíma vaktavinnumanna, og aukinn réttur til sí- og endurmenntunar. Ég hef hins vegar fullan skilning á óþreyju hjúkrunarfræðinga á því að fá endanlega niðurstöðu í hvernig launasetningu þeirra verður háttað. Ég vil hins vegar biðja ykkur um að sýna áfram biðlund þar til lokaniðurstaðan liggur fyrir. Þá fyrst verður hjúkrunarfræðingum ljóst hver kjör þeirra verða.

 

Yfirlýsing stjórnar Fíh

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála