Hjukrun.is-print-version

Lögmæti úrskurðar gerðardóms

RSSfréttir
11. september 2020

Yfirlýsing stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga - lögmæti úrskurðar gerðardóms.

Niðurstaða gerðardóms, sem kom í framhaldi af miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra, er stjórn félagsins mikil vonbrigði, rétt eins og félagsmönnum. Stjórn Fíh ákvað í framhaldi af niðurstöðunni að fá lögfræðilegt álit um hvort hún samræmdist miðlunartillögunni, hvort hún væri lögmæt og hvort hægt sé að fá henni hnekkt. Það lögfræðiálit liggur nú fyrir og er niðurstaðan sú að gerðardómur hafi haft ríkt frelsi til að ákveða frekari útfærslu á úrskurði sínum og að hann standist lög. Því er ljóst að niðurstaða gerðardóms er endanleg og gild.

Niðurstaða gerðardóms er stjórn Fíh hins vegar mikil vonbrigði, enda uppfyllir hún alls ekki þær kröfur sem barist var fyrir við samningaborð, né væntingar sem gerðar voru til hennar með samþykkt miðlunartillögu. Stjórnin mun áfram leita allra leiða til að vekja máls á niðurstöðu gerðardóms, sem er í þversögn við úrskurð um að kynbundin launamunur sé til staðar hjá ríkinu og að hjúkrunarfræðingum séu ekki greidd laun í samræmi við ábyrgð í starfi.

Stjórn Fíh vill halda því til haga að úrskurðurinn er hluti af kjarasamningi sem felur þó í sér ýmis tækifæri til framtíðar. Má þar nefna styttingu vinnuvikunnar, breytingar á vinnutíma vaktafólks, aukinn rétt til sí- og endurmenntunar og afturvirkar launahækkanir til samræmis við aðra á vinnumarkaði.

Ekki liggur enn fyrir hver eiginleg launasetning hjúkrunarfræðinga verður, þar sem það ákvarðast við endurnýjun stofnanasamninga. Allur þungi er nú lagður í að ljúka þeim viðræðum við heilbrigðisstofnanir til að fá sem allra fyrst niðurstöðu í hver launasetning hvers og eins verður.

Stjórn Fíh hvetur félagsmenn til samstöðu í áframhaldandi kjarabaráttu um leiðréttingu á þeim mismun sem blasir við, en það er eingöngu hægt með samstilltu átaki og einurð félagsmanna.


Virðingarfyllst f.h. stjórnar Fíh
Guðbjörg Pálsdóttir formaður

 

Álitsgerð lögmanns um lögmæti gerðardómsúrskurðar er aðgengileg félagsmönnum inni á Mínum síðum.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála