Hjukrun.is-print-version

Hjúkrunarfræðinga vantar til starfa – oft er þörf en nú er nauðsyn

RSSfréttir
9. október 2020

Þriðja bylgja covid-19 faraldursins er skollin á svo um munar. Það gekk vel að ráða við afleiðingar fyrstu bylgjunnar í vor en nú er staðan orðin grafalvarleg á ný og ekki séð fyrir endann á þessari lotu. Eins og fyrr eru það hjúkrunarfræðingar sem spila hvað stærsta hlutverkið í að takast á við afleiðingar veirunnar. Talsmenn heilbrigðiskerfisins biðla til hjúkrunarfræðinga um að koma til starfa og hjálpa við að takast á við þessa vá sem snertir okkur öll. Það gekk ágætlega í vor að fá hjúkrunarfræðinga til starfa í bakvarðasveitirnar en róðurinn hefur verið þyngri nú í haust. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að vonbrigði hjúkrunarfræðinga með útkomuna úr 18 mánaða kjarabaráttu hafi þar mikil áhrif og því miður hefur það gengið hægt að fá störf okkar metin að verðleikum. Þá má ekki gleyma því að fyrir er skortur á hjúkrunarfræðingum á Íslandi og því erum við ekki nógu vel í stakk búin til að takast á við svona áföll. Einnig hjálpar ekki til að fimmti hver hjúkrunarfræðingur hverfur til annarra starfa innan við fimm árum frá útskrift. Það eru fjöldamörg starfstækifæri hjúkrunarfræðinga bæði innan og utan fagsins enda eftirsótt starfsstétt. Hjúkrunarfræðingar eru því almennt ekki á lausu til að bregðast við kallinu enda langflestir fyrir í störfum innan heilbrigðiskerfisins.

 

Burtséð frá öllu þá hefur þörfin sjaldan verið meiri

Það er bláköld staðreynd að við stöndum frammi fyrir mjög skæðri farsótt og því miður eru fleiri og fleiri að greinast með covid-19 sem er grafalvarlegt mál. Gagnvart hjúkrunarfræðingum takast á annars vegar vonbrigði eftir langvarandi kjarabaráttu og hins vegar mikil þörf skjólstæðinga fyrir sérhæfða hjúkrun. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það reynist mörgum erfitt að leggja til hliðar vonbrigði vegna kjaramála og bjóða fram starfskrafta sína. En burtséð frá kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga þá þurfa skjólstæðingar okkar á okkur að halda núna sem aldrei fyrr. Fer þetta tvennt saman? Sitt sýnist hverjum og það er ekkert eitt rétt svar við því.

Ég vil hvetja hjúkrunarfræðinga sem sjá sér fært að auka við sig vinnu tímabundið eða koma aftur til starfa í bakvarðasveitirnar að gera svo. En fyrst og fremst þarf hver og einn að taka ákvörðun fyrir sig. Aðstæður og ástæður geta verið mismunandi og ber okkur að virða þær. Kórónuveiran fer ekki í manngreiningarálit og held ég að öll viljum við tryggja að ef einhver nákominn okkur veikist, þá séu til staðar hæfir hjúkrunarfræðingar til að sinna þeim og hjúkra aftur til heilsu.

Baráttunni við kórónuveiruna er engan veginn lokið en til að efla samstöðu verða allir landsmenn að leggjast á eitt í að vinna bug á veirunni og afleiðingum hennar. Framlag hvers og eins getur skipt sköpum.

Hér má sjá frekari upplýsingar um skráningu í bakvarðarsveitir heilbrigðisþjónustunnar og velferðarþjónustunnar.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála