Hjukrun.is-print-version

Rafræn fræðsla á mínum síðum

RSSfréttir
10. desember2020

Á tímum COVID-19 býður Fíh félagsmönnum sínum upp á fræðslu á rafrænu formi á Mínum síðum.

Hugarfar grósku - skapandi hugsun

“Hugsanir hafa mikil áhrif á hvað við gerum í lífinu og þar með má segja að hugarfar okkar móti lífið” - Dweck
Við höfum val um hugarfar og hugarfar grósku hjálpar okkur að takast á við áskoranir í síbreytilegu umhverfi. Að læra að hugsa á grænu ljósi – sem þýðir að allt er mögulegt á þeim tímapunkti og allar hugmyndir eru góðar hugmyndir. “Ef það er vilji þá er leið”. Að læra að virkja og nýta sköpunarkraftinn og hugsa alltaf; á hvaða hátt get ég..?- Á hvaða hátt getum við..? Skapandi hugsun sem tekur burt takmarkanir byggðar á því sem var og því sem er. Við förum yfir aðferðir sem þjálfa þátttakendur í að upphugsa nýjar hugmyndir og leiðir án takmarkana. Að þora að fara upp úr hjólfarinu “the power of habit” og út fyrir þægindahringinn, taka ígrundaða áhættu og koma fram með djarfar lausnir. 
Að “sleppa okkur lausum” og skilja betur hver við erum og hvað drífur okkur áfram.
Útkoman gæti mögulega verið það sem til þarf til bætingar, þróunar og jafnvel umbreytingar. Það eru takmarkalausir möguleikar með skapandi liðsheild! Leiðbeinandi er Ragnheiður Aradóttir.

Helgun og velferð

Starfsánægja og helgun í starfi eru mikilvægir mælikvarðar - ekki bara á framlegð okkar í vinnu, heldur einnig hamingju okkar og heilsu, en þó aðeins ef við setjum inn í formúluna velferð þ.e. að við hugum að andlegri og líkamlegri heilsu. Helgun í starfi gerir okkur öflug og árangursdrifin. Við nýtum ástríðuna til að ná árangri. Við nýtum styrkleika okkar vel en mörkin geta verið óljós og án þess að átta okkur á því, þá getum við jafnvel keyrt okkur áfram – kröftugar en við ráðum í raun við til lengri tíma litið. Það er stutt á milli velgengni í starfi og kulnunar. Þessi fína lína er oft vandséð og því mikilvægt að „gæta að sér”. Þeir sem eru „all inn” í langan tíma án hlés og gæta ekki að því að sinna eigin vellíðan, geta verið að sigla hraðbyri í kulnun / örmögnun. Lærum að skilgreina og breyta áherslunum svo við séum ávallt vel hlaðin orku til að takast á við nútímann og kröfur hans.  Leiðbeinandi er Ragnheiður Aradóttir.

Grunnatriði góðrar heilsu

Sölvi Tryggvason gaf út bókina: ,,Á eigin skinni" í byrjun janúar 2019, þar sem hann fjallar um vegferð sína um allt sem snýr að heilsu. Bókin er byggð á margra ára vinnu, þar sem hann neyddist til að gerast sérfræðingur um heilsu eftir að hafa hrunið gjörsamlega sjálfur. Í fyrirlestrinum er farið yfir helstu lykilatriði í tengslum andlegrar og líkamlegrar heilsu, hvers vegna við framkvæmum ekki það sem við vitum að er gott fyrir okkur og hvað er hægt að gera til að breyta því. Helstu atriðin sem setja okkur í ójafnvægi og leiðir til að byrja ný mynstur í öllu sem snýr að heilsu og ýmislegt fleira.
Fyrirlesturinn er opinn félagsmönnum til 10. febrúar 2021.

Gleði og þrautseigja á krefjandi tímum

Anna Steinsen fjallar um mikilvægi þess að tapa ekki gleðinni, hlúa að sér og halda ótrauð áfram.
Anna Steinsen er með BA gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði. Síðastliðin 16 ár hefur Anna sérhæft sig í þjálfun á námskeiðum fyrir ungt fólk. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna sem þjálfari á alþjóðavettvangi. Hún starfar sem fyrirlesari, þjálfari á námskeiðum, stjórnendamarkþjálfi, heilsumarkþjálfi og jógakennari. Þar á undan starfaði Anna í félagsmiðstöð sem tómstundaleiðbeinandi. Í dag stundar Anna mastersnám í samskiptum og forvörnum hjá HÍ. Anna er gift og á fjögur börn og hund.
Fyrirlesturinn er opinn félagsmönnum til 1. febrúar 2021.

Í blíðu og stríðu með okkur sjálfum

Hugvekja um mikilvægi þess að standa með okkur sjálfum sama hvað á dynur. Hvaða skilaboð sendum við til okkar sjálfra ef illa gengur? Hvaða viðhorfsgleraugu er okkur tamast að nota og hvernig getum við ræktað ný og jákvæðari gildi þegar við þurfum virkilega á að halda? Farið verður yfir leiðir til að finna hvað drífur okkur áfram og eru í takt við okkar persónulegu gildi. Leiðbeinandi er Rakel Heiðmarsdóttir.
Fyrirlesturinn er opinn félagsmönnum til 1. febrúar 2021.

Fjórir helstu samskiptastílarnir - hver virkar best?

Við eigum stöðugt í samskiptum við annað fólk – heima, í vinnunni og í frítímanum. En hver er okkar dæmigerði samskiptastíll? Er hann „árásargjarn“, „passífur“, „passífur og árásargjarn“ eða „einlægur og lausnamiðaður“? Eða kannski blanda af öllum þessum? Hver og einn samskiptastíll er kynntur myndrænt og fjallað er um helstu einkenni hvers og eins, kosti og galla. Sérstök áhersla er á fyrirmyndar samskiptastílinn, þau tækifæri sem hann felur í sér og leiðir til að efla hann enn frekar í daglegum samskiptum okkar. Leiðbeinandi er Rakel Heiðmarsdóttir.
Fyrirlesturinn er opinn félagsmönnum til 31. desember 2020.

Símenntun sem verkfæri í persónulegum og faglegum vexti

Það er gott að staldra við í dagsins önn og hugleiða hvar við erum stödd og hvert viljum við stefna. Þessi fyrirlestur er hugvekja um mikilvægi þess að efla stöðu okkar á atvinnumarkaðnum með markmiðasetningu og símenntun. Hvort sem við erum í starfi eða að leita að starfi geta markmið og frekari menntun eða fræðsla gefið okkur vind í seglin til meiri árangurs í starfi og atvinnuleit. Á tímum sem þessum geta falist tækifæri til vaxtar ef við sýnum seiglu og úthald til að ná settum markmiðum. Leiðbeinandi er Rakel Heiðmarsdóttir.
Fyrirlesturinn er opinn félagsmönnum til 15. desember 2020.

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála