Hjukrun.is-print-version

Vöndum okkur og förum varlega

RSSfréttir
14. desember2020

Covid-19-faraldurinn kemur mismunandi niður á hinum ýmsu starfsgreinum á Íslandi. Við höfum séð í fjölmiðlum hversu alvarlegar efnahagslegar afleiðingar hann hefur haft, t.a.m. í greinum tengdum ferðaþjónustu. Í tilfelli hjúkrunarfræðinga eru þær frekar tengdar því gríðarlega álagi sem hefur verið á heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarfræðingar hafa lagt mikið á sig til að standa vaktina þetta árið og var álagið þegar mikið fyrir þann tíma. Því burtséð frá faraldrinum hefur ekkert breyst hvað varðar þörf fyrir hjúkrun. Á sama tíma hættir fólk ekkert að veikjast eða slasast, fyrir utan þá sem þegar eru að fá þjónustu og þurfa þess áfram.

 Í fyrstu bylgju faraldursins voru tæplega 300 hjúkrunarfræðingar skráðir í bakvarðasveitirnar og hátt í 100 í þeirri þriðju. Auk þess hafa hjúkrunarfræðingar bætt á sig mikilli vinnu til að takast á við afleiðingar faraldursins og forgangsraðað þannig vinnunni fram fyrir sig sjálfa og fjölskyldu. 
Staðfest smit af völdum Covid-19 er á sjötta þúsund hér á landi, ríflega 300 hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús, um 50 á gjörgæslu og á þriðja tug látist. Við erum enn að kljást við afleiðingar veirunnar og nú eftir þriðju bylgju faraldursins dylst engum mikilvægi hjúkrunarfræðinga í þessari baráttu. Þeir taka ákvarðanir um sýnatöku, smitrakningu, sóttkví, hjúkra þeim sem veikjast af veirunni og fylgja eftir að loknum veikindum, auk annarra hefðbundinna hjúkrunarstarfa. Í fyrstu bylgju faraldursins voru tæplega 300 hjúkrunarfræðingar skráðir í bakvarðasveitirnar og hátt í 100 í þeirri þriðju. Auk þess hafa hjúkrunarfræðingar bætt á sig mikilli vinnu til að takast á við afleiðingar faraldursins og forgangsraðað þannig vinnunni fram fyrir sig sjálfa og fjölskyldu.

Langvarandi álag í starfi er varasamt

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaráði hjúkrunarfræðinga hafa um 1500 hjúkrunarfræðingar frá 44 löndum látist af völdum faraldursins. Til allra heilla hefur enginn hjúkrunarfræðingur látist hér á landi en tugir þeirra veikst og einhverjir glíma við alvarleg eftirköst. Í nýlegri könnun á vegum Evrópusamtaka hjúkrunarfélaga um áhrif Covid-19 á hjúkrunarfræðinga og hjúkrun kom í ljós að helsta áhyggjuefni hjúkrunarfræðinga er samstöðuleysi innan hverrar þjóðar í að fara eftir sóttvarnarreglum og standa þannig saman gegn veirunni. Það kemur ekki á óvart enda höfum við okkar eigin reynslu af afleiðingum þess þegar fólk slakar á sóttvörnum og við endað í grafalvarlegri stöðu með yfirþanið heilbrigðiskerfi og sorglegar afleiðingar. Þreyta meðal hjúkrunarfræðinga er farin að gera vart við sig, bæði líkamlega og andlega. Vinnuloturnar hafa tekið sinn toll og það hefur verið lítið svigrúm til að gefa fólki verðskuldað frí til að hvíla sig. Langvarandi álag í starfi getur haft margvíslegar afleiðingar og þegar er farið að sjást merki um kulnun í starfi.

Við megum ekki við því að hjúkrunarfræðingar hrekjist úr starfi vegna álags en því miður hefur það verið raunin, t.a.m. í Frakklandi. Hjúkrunarfræðingar eru lífsnauðsynlegir í heilbrigðiskerfinu. 


Áðurnefnd Evrópukönnun leiddi jafnframt í ljós áhyggjur hjúkrunarfræðinga vegna skortsins á hjúkrunarfræðingum og fjöldi tilfella vegna kulnunar í starfi. Hjúkrunarfræðingar hafa sýnt ótrúlegan sveigjanleika í störfum í faraldrinum, m.a. með því að breyta um vinnuumhverfi og vinnufyrirkomulag. Um leið og sveigjanleikinn ber vott um mikinn styrk, þá eru líka vísbendingar um að sveigjanleikinn auki á ofþreytu og líkur á kulnun í starfi. Við megum ekki við því að hjúkrunarfræðingar hrekjist úr starfi vegna álags en því miður hefur það verið raunin, t.a.m. í Frakklandi. Hjúkrunarfræðingar eru lífsnauðsynlegir í heilbrigðiskerfinu.

 

Leggi sitt af mörkum í seinni hálfleik

Við þurfum að standa vörð um hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðsstarfsfólk sem er í framlínuninni og setur sjálft sig í hættu í sínum störfum, því faraldurinn ógnar bæði þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og veita hana. Nauðsynlegt er að vinnuveitendur hugi strax að stuðningi við hjúkrunarfræðinga og annað starfsfólk til að draga úr líkum á langvarandi áhrifum og afleiðingum Covid-19 faraldursins. Á meðan heilbrigðisstarfsfólk stendur vaktina þá hvetjum við landsmenn til að framfylgja persónubundnum sóttvörnum og leggja þar með sitt af mörkum. Þrátt fyrir að við erum komin í seinni hálfleik er þessu aldeilis ekki lokið og við verðum að halda þetta út saman. Nú styttist í hátíðirnar og ætla má að flestir vilja eyða þeim með fjölskyldu og vinum, fremur en að vera þeim fjarri í sóttkví eða einangrun. Lítum í eigin barm, vöndum okkur og umfram allt – förum varlega nú sem aldrei fyrr.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála