Tveir nýir fyrirlestrar hafa bæst við rafræna fræðslu Fíh og er Ragnheiður Aradóttir fyrirlesarinn að þessu sinni.
Hugarfar grósku - skapandi hugsun
“Hugsanir hafa mikil áhrif á hvað við gerum í lífinu og þar með má segja að hugarfar okkar móti lífið” - DweckVið höfum val um hugarfar og hugarfar grósku hjálpar okkur að takast á við áskoranir í síbreytilegu umhverfi. Að læra að hugsa á grænu ljósi – sem þýðir að allt er mögulegt á þeim tímapunkti og allar hugmyndir eru góðar hugmyndir. “Ef það er vilji þá er leið”. Að læra að virkja og nýta sköpunarkraftinn og hugsa alltaf; á hvaða hátt get ég..?- Á hvaða hátt getum við..? Skapandi hugsun sem tekur burt takmarkanir byggðar á því sem var og því sem er. Við förum yfir aðferðir sem þjálfa þátttakendur í að upphugsa nýjar hugmyndir og leiðir án takmarkana. Að þora að fara upp úr hjólfarinu “the power of habit” og út fyrir þægindahringinn, taka ígrundaða áhættu og koma fram með djarfar lausnir.
Að “sleppa okkur lausum” og skilja betur hver við erum og hvað drífur okkur áfram.
Útkoman gæti mögulega verið það sem til þarf til bætingar, þróunar og jafnvel umbreytingar. Það eru takmarkalausir möguleikar með skapandi liðsheild!
Helgun og velferð
Starfsánægja og helgun í starfi eru mikilvægir mælikvarðar - ekki bara á framlegð okkar í vinnu, heldur einnig hamingju okkar og heilsu, en þó aðeins ef við setjum inn í formúluna velferð þ.e. að við hugum að andlegri og líkamlegri heilsu. Helgun í starfi gerir okkur öflug og árangursdrifin. Við nýtum ástríðuna til að ná árangri. Við nýtum styrkleika okkar vel en mörkin geta verið óljós og án þess að átta okkur á því, þá getum við jafnvel keyrt okkur áfram – kröftugar en við ráðum í raun við til lengri tíma litið. Það er stutt á milli velgengni í starfi og kulnunar. Þessi fína lína er oft vandséð og því mikilvægt að „gæta að sér”. Þeir sem eru „all inn” í langan tíma án hlés og gæta ekki að því að sinna eigin vellíðan, geta verið að sigla hraðbyri í kulnun / örmögnun. Lærum að skilgreina og breyta áherslunum svo við séum ávallt vel hlaðin orku til að takast á við nútímann og kröfur hans.
Ragnheiður Aradóttir er sérfræðingur í eflingu mannauðs og hagnýtingu jákvæðrar sálfræði. Ragnheiður er markþjálfi með 15 ára reynslu af þjálfun og námskeiðahaldi og hefur þjálfað yfir 7.000 manns innan fjölda fyrirtækja hérlendis og í stórfyrirtækjum erlendis. Ásamt eiginmanni sínum rekur hún jafnframt viðburðafyrirtækið PROevents og saman búa þau til öfluga viðburði fyrir fyrirtæki svo sem starfsdaga, stefnumótun og hópefli með það að markmiði að ná fram jákvæðum umbreytingum.