Hjukrun.is-print-version

Gleðilega hátíð

RSSfréttir
22. desember2020

Ágætu hjúkrunarfræðingar.

Hvern hefði órað fyrir því um síðustu áramót, að árið 2020 hefði orðið jafn fordæmalaust ár og raun bar vitni? Árið sem tileinkað var hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Nú eru hátíðirnar handan við hornið en þegar litið er til baka hefur árið verið svo sannarlega ár hjúkrunarfræðinga, þó vegferðin hafi orðið önnur en áætluð var. Í skugga covid-19 faraldursins hefur mikilvægi stéttarinnar aldrei verið jafn sýnilegt og þrautseigja hjúkrunarfræðinga gífurleg sem hafa alltaf staðið vaktina, sama hvað á dynur.

Eftir 18 mánaða kjarabaráttu, sem svo sannarlega má nefna fordæmalausa, auk birtingu gerðardóms, hefur verið unnið hörðum höndum að því að ganga frá stofnanasamningum og öðrum miðlægum kjarasamningum við aðra viðsemjendur. Búið er að ljúka stofnanasamningum við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem og kjarasamningum við Samtök íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ekki náðist að klára stofnanasamning við sex heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni en því verður lokið fljótlega á næsta ári auk kjarasamningum við Reykjalund og NLFÍ.

Nú um áramótin hefst stytting vinnuvikunnar, fyrst hjá dagvinnufólki 1. janúar 2021 og síðan vaktavinnufólki 1. maí 2021. Um er að ræða tímamótabreytingar á vinnutíma þegar vinnuvikan verður stytt niður i 36 stundir enda vinnutímakafli kjarasamningsins ekki verið endurskoðaður í rúm 40 ár. Það hefur verið baráttumál hjúkrunarfræðinga til fjölda ára að 80% vinna í vaktavinnu sé fullt starf sem nú verður raunin. Ég tel að þessi útfærsla á styttingu vinnuvikunnar feli í sér mikil tækifæri og vil því hvetja hjúkrunarfræðinga til að nýta sér þau að fullu og taka breytingunum með opnum huga. Vinnutímabreytingarnar eru með ólíkum hætti hjá dagvinnu- og vaktavinnufólki og nauðsynlegt að kynna sér vel upplýsingarnar um þær á vefsíðunni betrivinnutimi.is og á samfélagsmiðlum Fíh en jafnframt verða rafrænir kynningafundir fyrir hjúkrunarfræðinga fljótlega á nýju ári.

Þar sem ekki hefur verið hægt að halda þau málþing, ráðstefnur eða fræðslufundi sem fyrirhugaðar voru fyrir hjúkrunarfræðinga á árinu, hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leitað annarra leiða í ár. Inni á mínum síðum á vef félagsins er fjölbreytt efni á rafrænu formi sem snýr m.a. að góðum ráðum er varðar heilsu og velferð fyrir okkur sjálf. Ég vil hvetja alla hjúkrunarfræðinga til að nýta sér þessa fræðslu því lífsnauðsynlegt er að við hugum fyrst að eigin andlegri og líkamlegri heilsu, svo við getum sinnt fjölskyldu og vinnu.

Félagið hefur nú þegar skipulagt nokkra viðburði á árinu 2021 og vonast ég svo sannarlega til að hægt verði að halda þá, þó ekki sé nema á vefnum en það er mér mikið tilhlökkunarefni þegar við getum komið saman eins og áður fyrr, fagnað og fræðst og verður það vonandi að veruleika eftir mitt ár. Faraldrinum er ekki lokið þó við förum að sjá til lands og við þurfum öll að halda þetta út. Nýgerð könnun Evrópskra samtaka hjúkrunarfélaga leiddi í ljós að helsta áhyggjuefnið meðal hjúkrunarfræðinga er samstöðuleysi innan hverrar þjóðar í að fara eftir sóttvarnarreglum og standa þannig saman gegn veirunni. Ég vona því svo sannarlega að landsmenn haldi sig innan sinnar jólakúlu í ár og virði sóttvarnarreglurnar. Með því leggja þeir sitt af mörkum til að stöðva útbreiðslu veirunnar og draga þannig sem mest úr covid tengdu vinnuálagi fyrir hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk um hátíðirnar og komandi mánuði.

Ég óska þess að þið, ágætu hjúkrunarfræðingar, náið að njóta gleði og friðar með fjölskyldu og vinum á milli vakta um hátíðirnar. Ég óska ykkur gleðilegra jóla og hamingjuríks nýs árs. Megi gæfan fylgja ykkur á nýju ári.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála