Komið er að kjöri trúnaðarmanna og í trúnaðarmannaráð fyrir starfstímabilið 2021-2023. Trúnaðarmannakerfi Fíh er skipt í tvo flokka, annars vegar hefðbundið trúnaðarmannakerfi og hins vegar trúnaðarmannaráð. Trúnaðarmenn eru fyrst og fremst tengiliðir inn á deildir og stofnanir. Þeim til stuðnings er minni hópur aðaltrúnaðarmanna sem situr í trúnaðarmannaráði. Þeir trúnaðarmenn sem sitja í trúnaðarmannaráði fá sérstaka fræðslu og menntun og laun frá félaginu fyrir störf sín. Starfsskyldur þeirra eru ríkari sem og ábyrgð gagnvart félaginu. Þessir trúnaðarmenn hafa m.a. það hlutverk að þjóna fleiri en einni starfseiningu.
Trúnaðarmenn Fíh
Er starfandi trúnaðarmaður á þinni deild? Ef það ert þú, viltu halda áfram að gefa kost á þér? Ef ekki hefðir þú áhuga á að vera trúnaðarmaður?
Mjög mikilvægt er að til staðar sé trúnaðarmaður á starfseiningum hjúkrunarfræðinga.
Meginhlutverk trúnaðarmanna er að:
- Vera tengiliðir milli hjúkrunarfræðinga og stjórnenda.
- Koma upplýsingum um kjara- og réttindamál til hjúkrunarfræðinga á starfseiningu/stofnun.
- Standa vörð um réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga.
- Kynna sér ítarlega kjarasamninga Fíh.
- Upplýsa hjúkrunarfræðinga um ný og breytt atriði kjarasamninga.
- Fylgjast með að réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga séu virt.
- Taka við kvörtunum og fyrirspurnum hjúkrunarfræðinga, leita svara við þeim eða koma þeim í viðeigandi farveg innan stofnunar eða hjá kjara- og réttindasviði Fíh.
Kosið er í ráðið á tveggja ára fresti. Tilnefningar frá stofnun/deild skulu berast til kjararáðgjafa Fíh eva@hjukrun.is.
Nánari upplýsingar um trúnaðarmenn
Kosning í trúnaðarmannaráð Fíh starfstímabilið 2021-2023
Auglýst er eftir trúnaðarmönnum í trúnaðarmannaráð. Framboð þurfa að berast frá neðantöldum sviðum/stofnunum fyrir 1. mars 2021.
Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að:
- Vera samninganefnd Fíh innan handar við gerð kjarasamninga.
- Vinna að undirbúningi kröfugerðar Fíh á hverjum tíma með starfsmönnum kjara- og réttindasviðs.
- Vinna að áherslum Fíh í kjaramálum.
- Gegna ráðgefandi hlutverki, en ráðið kemur þó ekki beint að gerð kjarasamninga.
- Frá ríki, stofnunum þar sem hjúkrunarfræðingar vinna samkvæmt kjarasamningi við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, sitja fulltrúar frá hverri heilbrigðisstofnun ríkisins. Þrír fulltrúar Landspítala (einn frá hverju klínísku sviði), einn frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og einn af hverri heilbrigðisstofnun; Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
- Frá öðrum viðsemjendum, þ.e. Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Reykjalundar situr einn fulltrúi frá hverjum viðsemjanda.
Kosið er í ráðið á tveggja ára fresti fyrir 1. mars hvers árs sem stendur á oddatölu.
Tilnefningar frá stofnun/deild skulu berast til kjararáðgjafa Fíh á netfangið eva@hjukrun.is fyrir 27. febrúar 2021.
Fyrir setu á fundum trúnaðarmannaráðs er greitt tímakaup skv. verklagsreglum Fíh. Ferðakostnaður vegna fundarsóknar er jafnframt greiddur skv. verklagsreglum Fíh.