Hjukrun.is-print-version

Styrkur úr starfsmenntunarsjóði hækkar

RSSfréttir
26. janúar 2021

Um áramót tóku gildi breytingar á styrkjum starfsmenntunarsjóðs en með þeim var hámarksstyrkur hækkaður í 240.000 kr á 24 mánaða tímabili. Áður var að hámarki veittur 55 þúsund króna styrkur árlega og er þetta því hækkun um 118%. Með lengingu tímabilsins úr einu ári í 24 mánuði gefst félagsmönnum kostur á að nýta styrkinn í stærri námskeið, skólagjöld eða ráðstefnur, en sækja má um oftar en einu sinni á tímabilinu.

Breyting þessi kemur til af bókun í samþykktri miðlunartillögu ríkissáttasemjara, en þar er einnig kveðið á um að hjúkrunarfræðingar hjá ríkinu eigi frá 1. ágúst 2020 rétt á 10 daga launuðu leyfi árlega til að stunda endurmenntun eða framhaldsnám.

Það er von stjórnar Fíh að þessar breytingar styðji enn frekar við endur- og framhaldsmenntun félagsmanna frá því sem áður var. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að stofnanir ríkisins eru þekkingarvinnustaðir og starfsemi þeirra byggir fyrst og fremst á þeim mannauði sem þær búa yfir.

Hér má lesa úthlutunarreglur starfsmenntunarsjóðs. Úthlutunarreglurnar byggja á bókun 3 í miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem samþykkt var 2020.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála