Óskað er eftir þátttöku hjúkrunardeildarstjóra í vísindarannsókn sem ber heitið Störf hjúkrunardeildarstjóra í heimsfaraldri.
Tilgangur þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hvað einkennir störf hjúkrunardeildarstjóra í heimsfaraldri og hvað þarf til að gegna því starfi í flóknu og síbreytilegu ástandi.
Leitað er að þátttakendum sem hafa reynslu sem hjúkrunardeildarstjórar á legudeild á íslenskri heilbrigðisstofnun á árinu 2020.
Þeir sem vilja taka þátt í rannsókninni sendi tölvupóst á helgabra@hi.is eða hringi í síma 7770807
Þátttaka felst í að fara í eitt einstaklingsviðtal á zoom og svara spurningum um störf sín sem hjúkrunardeildarstjóri á tímum covid-19 heimsfaraldursins.
Gert er ráð fyrir 10-15 þátttakendum í rannsókninni. Um tilgangsúrtak er að ræða með snjóboltaaðferð þar sem þátttakendur benda á fleiri mögulega þátttakendur.
Rannsakandi ásamt nemendum í námskeiðinu Stjórnun í heilbrigðisþjónustu í Háskóla Íslands, munu taka viðtölin. Viðtölin verða tekin upp, en öll persónuauðkenni þátttakenda verða trúnaðarmál og munu hvergi koma fram. Viðtölin verða svo rituð upp orðrétt og innihaldsgreind til að fá svar við rannsóknarspurningunni. Fullum trúnaði og nafnleyndar er heitið og verður ekki hægt að rekja svör til einstakra þátttakenda.
Viðtölin fara fram á tímabilinu 13. apríl-1. júní 2021.
Áhætta eða óþægindi vegna þátttöku í rannsókninni eru ekki talin nein.
Ávinningur rannsóknar er fjölþættur. Með rannsókninni fæst þekking á störfum hjúkrunardeildarstjóra í heimsfaraldri. Þátttaka gæti gagnast þeim sem taka þátt í rannsókninni beint, þar sem þeir gætu með þátttöku sinni gert sér betur ljóst hvað störf þeirra hafa falið í sér við þær krefjandi aðstæður sem heimsfaraldurinn hefur skapað. Nemendur sem taka viðtölin öðlast dýrmæta innsýn í störf hjúkrunardeildarstjóra í heimsfaraldri.
Ekkert er greitt fyrir þátttöku í rannsókninni.
Ábyrgðarmaður rannsóknar er Helga Bragadóttir, hjúkrunarfræðingur, PhD, FAAN, prófessor og forstöðumaður fræðasviðs hjúkrunarstjórnunar, Háskóla Íslands og Landspítala.
Samstarfsaðilar eru Birna G. Flygenring, hjúkrunarfræðingur, MSc, lektor, Háskóla Íslands og Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, PhD, prófessor, Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst.