Hjukrun.is-print-version

Aðalfyrirlesarar á HJÚKRUN 2021

RSSfréttir
22. júní 2021

Ásta Thoroddsen, María Fjóla Harðardóttir og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir verða aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni HJÚKRUN 2021, sem verður haldin á Reykjavík Hilton Nordica 16. og 17. september næstkomandi.

Ásta Thoroddsen erprófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsókna- og þróunarseturs um ICNP.
Ásta lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1979, meistaraprófi í hand- og lyflækningahjúkrun frá University of Rochester í New York árið 1989 og doktorsnámi frá Örebro-háskóla í Svíþjóð árið 2010. Á síðastliðnum þrjátíu árum hefur Ásta haft forystu um að staðla gagnasöfnun í hjúkrun og samræma, samkvæmt alþjóðlegri fyrirmynd, hjúkrunargögn í rafrænum sjúkraskrám. Hún hefur ásamt samstarfsfélögum sínum lagt mikið af mörkum í þróun á rafrænni sjúkraskrá og þannig tryggt að hjúkrunargögn séu vistuð á varanlegan hátt og séu aðgengileg til frekari rannsókna. Ásta starfaði í um 40 ár á Landspítala og forverum hans sem hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður fræðasviðs í upplýsingatækni. Hún hlaut inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna (American Academy of Nursing), fyrst Íslendinga.

María Fjóla Harðardóttir
, forstjóri Hrafnistu heimilanna, er jafnframt fyrsta konan til gegna því starfi. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu. María Fjóla er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún hefur fjölbreytta reynslu af starfsemi hjúkrunarheimila og hefur verið deildarstjóri, bæði á Hlévangi í Reykjanesbæ og á Sunnuhlíð í Kópavogi. Jafnframt hefur María Fjóla starfað hjá hjúkrunarheimilunum Mörk og Eir. María Fjóla er með meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík. Eftir námið hefur hún, meðal annars, komið að kennslu í viðburðastjórnun í Háskóla Íslands, ásamt því að starfrækja eigið fyrirtæki sem kemur að rekstrar- og verkefnastjórnun fyrirtækja.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir hóf störf sem framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 1. desember 2019. Ragnheiður Ósk hefur starfað hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2004; fyrst sem sviðsstjóri skólasviðs á Miðstöð heilsuverndar barna og síðar á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Hún hefur komið að kennslu við HÍ, HA og HR. Ragnheiður Ósk hefur auk þess, stýrt og tekið þátt í, ýmsum þróunar- og rannsóknarverkefnum, bæði á landsvísu og í alþjóðlegu samstarfi. Eitt af þessum verkefnum var að taka þátt í þróun sérnáms í heilsugæsluhjúkrun sem er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og heilbrigðisstofnana og var hún kennslustjóri þess sérnáms fyrstu árin. Ragnheiður Ósk er með MS í hjúkrunarfræði frá HÍ, MA í mannauðsstjórnun frá HÍ, og BS í hjúkrunarfræði frá HA.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála