Hjukrun.is-print-version

Sem betur fer! Og hvað svo?

RSSfréttir
29. ágúst 2021

Grein eftir formann BHM, formann Læknafélags Íslands og formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í Morgunblaðinu 29. ágúst 2021.

Herferðin „Sem betur fer!“ er samstarfsverkefni Bandalags háskólamanna, Læknafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Henni er ætlað að minna á mikilvægi menntaðra sérfræðinga og sérfræðiþekkingar fyrir íslenskt samfélag í fortíð, nútíð og framtíð. Þekking er lykillinn að hagsæld og öryggi þjóðarinnar líkt og við höfum rækilega verið minnt á í heimsfaraldri. Mikilvægi starfa sem krefjast menntunar sem nýtist innan heilbrigðiskerfisins og annarra greina hefur aldrei verið meira.

Órjúfanleg heild sérfræðistétta

Læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, geislafræðingar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, sálfræðingar, lífeindafræðingar, sjúkraþjálfarar, félagsráðgjafar og 23 aðrar stéttir mynda flóru heilbrigðisstarfsfólks á Íslandi. Þessar stéttir slógu skjaldborg um þjóðina gagnvart viðamestu heilbrigðisáskorun sem Ísland hefur staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum. Árangurinn er enda skýr. Á Íslandi höfum við átt því láni að fagna að búa við eina lægstu dánartíðni COVID-19 á byggðu bóli og 84% landsmanna, 12 ára og eldri, eru bólusett. Verkefninu er hins vegar ekki lokið og hefðbundna heilbrigðisþjónustu þarf að styrkja á ný. Að mörgu er að huga þegar horft er til framtíðar og Ísland verður að vera samkeppnishæft um sérfræðinga þegar þeir ljúka námi.

Blandað heilbrigðiskerfi er leiðin fram á við

Í heilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2030 er sett fram sú framtíðarsýn að íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða fyrir lok áratugarins. Til að uppfylla þetta metnaðarfulla markmið er nauðsynlegt að stjórnvöld móti lausnirnar í samvinnu og samtali við fagstéttirnar sem byggja upp kerfið. Taka þarf ákvarðanir með hag þjóðarinnar að leiðarljósi til lengri tíma. Leiðarljósið í þessari vegferð ætti að vera markmið laga um heilbrigðisþjónustu þar sem segir að landsmenn allir eigi rétt á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á til verndar líkamlegri og andlegri heilsu óháð efnahag.

Við, formenn BHM, LÍ og Fíh, sem saman erum fulltrúar helstu heilbrigðisstétta landsins, teljum að öflugt blandað heilbrigðiskerfi þjóni þessum markmiðum best. Á Íslandi búum við nú þegar við blandað kerfi. Á álagstíma hefur sýnt sig að framlag heilbrigðisstarfsfólk á almenna vinnumarkaðnum er ómissandi hlekkur í keðjunni, þar sem Landspítali, heilsugæsla og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir, gegna lykilhlutverki. Það gengur ekki að mikilvægar heilbrigðisstéttir séu án samninga við Sjúkratryggingar Íslands árum saman. Opinbert kerfi, sem samanstendur bæði af einkarekstri og opinberum rekstri, verður að vera gagnsætt og skilvirkt.

Ísland er á alþjóðlegum samkeppnismarkaði

Undanfarið hefur mikið borið á umræðu um mönnunarvanda í greinum innan heilbrigðisþjónustunnar. Skortur er á sérfræðingum. Vandinn hefur ágerst í faraldrinum og mun að óbreyttu stigmagnast. Helsta ógnin við heilbrigðisþjónustu í litlu landi er skortur á aðgengi að sérhæfðu starfsfólki. Á tímum alþjóðavæðingar verður samkeppnin um þetta fólk sífellt meiri. Skilaboð stjórnvalda, hvort sem það er fyrir eða eftir kosningar, hljóta að vera að senda ungu fólki sem hyggur á menntun í heilbrigðisgreinum hvatningu. Að á Íslandi verði kjör, aðbúnaður og álag innan heilbrigðiskerfisins samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Hagkerfið reiðir sig á heilbrigt samfélag og heilbrigðiskerfið reiðir sig á traustar efnahagsstoðir. Nú þarf öfluga pólitíska forystu.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála