„Það vantar langtímastefnu til að snúa þessari þróun varðandi skort á hjúkrunarfræðingum við. Næsta ríkisstjórn þarf að taka á því,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir í viðtali við mbl.is í dag.
„Við höfum bent á vöntun á hjúkrunarfræðingum í áratugi,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh).
Skrifaðar hafa verið margar skýrslur um skort á hjúkrunarfræðingum. Þannig gaf FÍH út skýrslu árið 2017 um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga. Þar kom meðal annars fram að lengi hafi skort hjúkrunarfræðinga hér á landi. Ríkisendurskoðun gaf einnig út skýrslu sama ár um hjúkrunarfræðinga þar sem stjórnvöld voru m.a. gagnrýnd fyrir stefnuleysi vegna langvarandi skorts á hjúkrunarfræðingum. Heilbrigðisráðuneytið gaf svo út tvær skýrslur í fyrra, annars vegar um mönnun og menntun hjúkrunarfræðinga og hins vegar sérstaklega um mönnunina.
Ná ekki að mennta nógu marga
„Við náum ekki að mennta nógu marga hjúkrunarfræðinga til að starfa í íslenska heilbrigðiskerfinu né að halda hjúkrunarfræðingum í starfi í heilbrigðiskerfinu. Nú hættir 4.-5. hver hjúkrunarfræðingur störfum í hjúkrun innan fimm ára frá útskrift. Einnig fáum við ekki aftur til starfa þá sem hafa hætt,“ sagði Guðbjörg. Undantekning frá því varð í Covid-19-faraldrinum þegar hjúkrunarfræðingar slógust í lið með bakvarðasveitinni.
Starfandi hjúkrunarfræðingar í FÍH eru rúmlega 3.600. Hjúkrunarfræðingar sem starfa við eitthvað annað en hjúkrun eru yfirleitt í öðrum stéttarfélögum. Nokkrir tugir starfandi hjúkrunarfræðinga hér koma erlendis frá, flestir frá Filippseyjum en einnig frá Evrópu, Ástralíu og N-Ameríku. Menntun þeirra þarf að uppfylla evrópskar kröfur svo þeir fái starfsleyfi á Íslandi.
Meðalaldur stéttarinnar er nú um 46 ár, fleiri fari á eftirlaun og því ljóst að mennta þarf enn fleiri hjúkrunarfræðinga til að mæta þörfinni.
Launin laða ekki að
Guðbjörg sagði að við gerð skýrslunnar 2017 hafi FÍH áætlað að hægt væri að fá 300 hjúkrunarfræðinga aftur til starfa í heilbrigðiskerfinu. Það myndi muna mikið um þann hóp, að hennar sögn. En hvers vegna koma þeir ekki til starfa?
„Ein ástæðan er launin. Við erum nú með gerðardóm númer tvö á launaliðinn árið 2020. Það getur engin stétt búið við það,“ sagði Guðbjörg. Hún sagði að í greinargerð með gerðardóminum komi fram að vísbendingar séu um að kynbundinn launamunur sé á milli hjúkrunarfræðinga, sem er 97% kvennastétt, og annarra starfshópa stéttarfélaga þar sem karlar eru fjölmennari og taldir eru með sambærilega menntun, ábyrgð og álag í starfi. Þeir séu að jafnaði með hærri laun en hjúkrunarfræðingar án þess að þeirra störf séu endilega metin meira virði í starfsmati.
Starfsumhverfið óviðunandi
Guðbjörg sagði að á Landspítala starfi um 55% af starfandi hjúkrunarfræðingum. Starfsumhverfið er óviðunandi eins og oft hefur komið fram, og nú síðasta á bráðamóttöku. Eins sé gríðarlegt álag á gjörgæslu- og smitsjúkdómadeildunum vegna Covid. Skortur á gjörgæsluhjúkrunarfræðingum sé ein helsta ástæða þess að fjöldi gjörgæsluplássa sé takmarkaður. Þá krefst hjúkrun Covid-sjúklinga tvöfalt fleiri hjúkrunarfræðinga en aðrir sambærilegir sjúklingar. Það er m.a. vegna þess að hjúkrunarfræðingar sem sinna Covid-sjúklingum þurfa að vera í sérstökum hlífðarbúningum sem eykur mjög álagið. Þess vegna þurfi að halda aftur af kórónuveirufaraldrinum eins og mögulegt er.
Langtímastefnu skortir
„Það vantar langtímastefnu til að snúa þessari þróun varðandi skort á hjúkrunarfræðingum við. Næsta ríkisstjórn þarf að taka á því,“ sagði Guðbjörg. „Þjóðin er að eldast og fólk lifir af flóknari sjúkdóma en áður og flóknar afleiðingar slysa. Þrátt fyrir mikla tækniþróun verður alltaf þörf fyrir hjúkrunarfræðinga.“