Ekki er fallist á að starfsfólk eigi rétt á að fresta orlofstöku sinni ef því er gert að sæta sóttkví á meðan það er í orlofi. Fíh lýsir yfir verulegum vonbrigðum með þessa niðurstöðu.
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) ætlar ekki að endurskoða afstöðu sína á því hvernig standa skuli að skráningu orlofs þegar starfsfólki er gert að sæta sóttkví í áður skipulögðu orlofi og telur að starfsfólk eigi ekki rétt á að fresta orlofstöku sé því gert að sæta sóttkví.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Alþýðusamband Ísland, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands og Læknafélag Íslands sendu í haust erindi á Kjara- og mannauðssýslu ríkisins vegna réttarstöðu starfsfólks sem gert hefur verið að sæta sóttkví í orlofi sínu. Í því bréfi kom fram að fjölmörg dæmi eru um að stofnanir ríkisins hafi neitað að breyta orlofsskráningu hjá starfsfólki sem þurft hefur að sæta sóttkví í orlofi, sem að mati heildarsamtakanna stenst hvorki lög né ákvæði kjarasamninga.
Það er mat heildarsamtakanna og verkalýðsfélaganna að sóttkví í orlofi megi jafna við veikindi í orlofi. Þar er skýrt að veikist starfsfólk í orlofi telst sá tími sem það er veikt ekki til orlofs. Þá er bent á að niðurstaða Kjara- og mannauðssýslu ríkisins samræmist ekki markmiðum laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga í sóttkví. Með því að halda orlofsskráningu til streitu sé komið í veg fyrir að starfsfólkið geti sótt um greiðslu launa í sóttkví.
Staða faraldursins er ekki góð og ljóst er að það mun áfram reyna á þennan þátt. Það skýtur skökku við að dregið sé úr samstöðu um aðgerðir með óbilgjarnri afstöðu til réttinda starfsfólks sem lendir í þessari stöðu. Í ljósi þessarar niðurstöðu ríkisins munu heildarsamtökin sem stóðu að erindinu skoða hvort rétt sé að láta reyna á þessa túlkun fyrir dómstólum.
Erindi Fíh, ASÍ, BHM, BSRB, KÍ og LÍ
Svar Kjara- og mannauðssýslu ríkisins