Síðasta tölublað ársins er komið út, fullt af fræðilegu efni í bland við áhugaverð viðtöl.Hjúkrunarfræðingurinn Sigurður Ýmir er í mjög áhugaverðu viðtali um hinsegin heilbrigði og mikilvægi þess að kveða niður fordóma í heilbrigðiskerfinu því þeir komi niður á þjónustu gagnvart hinsegin einstaklingum. Dr. Sigrún Sigurðardóttir er í viðtali um sálræn áföll og afleiðingar þeirra sem geta verið alvarlegar ef ekki er unnið úr þeim. Einnig var rætt við Örnu Borg Einarsdóttur sem er í þróunarhóp um heilsueflandi móttöku innan heilsugæslunnar. Arna situr líka í stjórn fagfólks um offitu því hún vill að betur sé hlúð að þessum hópi, vandinn sé viðkvæmur og úrræðin því miður ekki mörg. Við hittum líka eina svæfingahjúkrunarfræðinginn á Vestfjörðum, heyrðum í Gunnari Péturssyni sem starfar á bráðadeild í Ástralíu og Ástu Maríu sem starfar á nýburagjörgæsludeild í Stokkhólmi.
Ritrýndu greinarnar eru á sínum stað þar sem smokkanotkun ungra karlmanna, streita og kulnun hjúkrunarfræðinema og reynsla kvenna með andlega vanlíðan af áhrifum hugrænnar atferðlismeðferðar er í brennidepli. Tvær mjög áhugaverðar fræðigreinar eru auk þess í blaðinu, önnur fjallar um árangursríka stjórnun í heilbrigðisþjónustu en í hinni er sjónum beint að dansmeðferð til að efla hreyfingu, færni og líðan hjá einstaklingum með Parkinsonssjúkdóm. Þetta og margt fleira í nýjasta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga.
Viltu afþakka prentaða útgáfu af Tímariti hjúkrunarfræðinga?
Félagsmönnum gefst nú kostur á að afþakka prentað eintak af Tímariti hjúkrunarfræðinga og skrá sig fyrir rafrænu eintaki þess í stað inni á mínum síðum undir liðnum persónuupplýsingar.