Ráðstefnan Hjúkrun 2022 verðu haldin þriðja og fjórða febrúar 2022 á Hilton Reykjavik Nordica. Á ráðstefnunni verða fjórir aðalfyrirlesarar ásamt heiðursfyrirlesaranum Önnu Stefánsdóttur. Aðalfyrirlesarar eru Gísli Kort Kristófersson, Inga Valgerður Kristinsdóttir, María Fjóla Harðardóttir og Marianne E. Klinke.
Ertu búin að skrá þig? Allar upplýsingar á radstefna.hjukrun.is. Við sjáumst á Hjúkrun 2022!
Anna Stefánsdóttir
Anna Stefánsdóttir útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1968. Árið 1975 lauk hún framhaldsnámi í gjörgæsluhjúkrun frá háskólasjúkrahúsinu í Edinborg og meistaranámi í hjúkrunarstjórnun frá Edinborgarháskóla árið 1988. Anna var í stjórnunarstöðum á Landspítala mestallan starfsferil sinn, en þar gegndi hún stöðu hjúkrunardeildarstjóra gjörgæsludeildar, framkvæmdastjóra hjúkrunar á handlækningasviði spítalans, hjúkrunarforstjóra og tímabundið stöðu forstjóra Landspítala. Anna var ætíð virk í félagsmálum samhliða störfum sínum á Landspítala. Hún sat í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands á áttunda áratug síðustu aldar og var einn af stofnendum og fyrsti formaður deildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga innan þess félags. Hún sat um tíma í stjórn deildar hjúkrunarstjórnenda innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og var stjórnarkona í Samtökum Evrópskra hjúkrunarstjórnenda 2003-2011. Anna var kjörin í stjórn Rauða krossins á Íslandi árið 2005 og var formaður stjórnar 2008-2014. Hún er einn af stofnendum Landsamtakanna Spítalinn okkar og hefur verið formaður stjórnar þeirra frá stofnun árið 2014. Hún er formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfing efh. Anna er stjórnarkona í umdæmisráði Rótarý á Íslandi og var umdæmisstjóri árið 2019-2020.
Anna er heiðursfélagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún hlaut Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu heilbrigðis- og mannúðarmála 2016. Þá hlaut Anna þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu árið 2020 fyrir eftirtektarvert ævistarf stjórnenda í atvinnulífinu. Árið 2021 var Anna sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Gísli Kort Kristófersson
Dr. Gísli Kort Kristófersson, sérfræðingur í geðhjúkrun, dósent við Háskólann á Akureyri, Aðjúnkt: University of Minnesota og Háskóli Íslands.
Gísli útskrifaðist úr hjúkrunarfræði úr HÍ árið 2004, með meistaragráðu í geðhjúkrun frá Minnesota háskóla 2008 og doktorsgráðu með áherslu á geðhjúkrun frá sama skóla árið 2012. Hann hefur starfað í geðheilbrigðisþjónustunni frá 2004, bæði á íslenskum og erlendum vettvangi á legudeilduum fullorðinna, BUGL, og í þverfaglegum samfélagsteymum og göngudeildarþjónustu.
Rannsóknar áherslur Gísla eru notkun núvitundar í geðheilbrigðisþjónustunni, heildræn og samþætt nálgun í geðheilbrigðisþjónustunni og geðheilsa á Íslandi í víðu samhengi.
Gísli hefur verið viðloðandi leiðbeiningu nema í geðhjúkrun á háskólastigi á Íslandi og síðar í Bandaríkjunum frá árinu 2004.
Ásamt kennslu og fræðastörfum starfar Gísli sem sérfræðingur í geðhjúkrun.
Inga Valgerður Kristinsdóttir
Inga Valgerður er sérfræðingur í heimahjúkrun hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur starfað nær óslitið hjá heilsugæslunni frá útskrift. Áður starfaði hún á bráðamóttöku og hjartadeild Landspítala. Á árunum 2014-2016 var hún verkefnastjóri íslenska hluta evrópskrar rannsóknar sem fram fór samtímis í sex Evrópulöndum. Inga Valgerður er annar tveggja hjúkrunarfræðinga í Færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins. Undanfarin ár hefur hún komið að þróun rafrænnar skráningar í heimahjúkrun þar sem nú eru samskipti skráð í rauntíma. Inga Valgerður hefur lokið meistaraprófi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og stundar nú doktorsnám við sama skóla. Inga Valgerður hefur komið að stundakennslu hjúkrunarnema í grunn- og framhaldsnámi bæði við Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.
María Fjóla Harðardóttir
María Fjóla, forstjóri Hrafnistu heimilanna er jafnframt fyrsta konan til gegna því starfi. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu. María Fjóla er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún hefur fjölbreytta reynslu af starfsemi hjúkrunarheimila og hefur verið deildarstjóri, bæði á Hlévangi í Reykjanesbæ og á Sunnuhlíð í Kópavogi. Jafnframt hefur María Fjóla starfað hjá hjúkrunarheimilunum Mörk og Eir. María Fjóla er með mastersgráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík. Eftir námið hefur hún, meðal annars, komið að kennslu í viðburðastjórnun í Háskóla Íslands, ásamt því að starfrækja eigið fyrirtæki sem kemur að rekstrar- og verkefnastjórnun fyrirtækja.
Marianne E. Klinke
Marianne er dósent í Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún er forstöðumaður fræðasviðs hjúkrunar tauga- og taugaendurhæfingasjúklinga á Landspitala sem er samhliða staða í Háskóla Íslands og á Landspítala. Marianne vinnur að klínískum rannsóknarverkefnum sem snúa að taugasjúklingum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Þau beinast að miklu leyti að því að þróa og meta aðferðir við mat og inngrip sem nýtast í hjúkrun taugasjúklinga á öllum stigum veikinda þeirra. Efling aðferðafræði sem veitir innsýn í reynsluheim sjúklinga með gaumstol er sérstakt áhugaefni Marianne, ásamt aðferðum til að þróa þekkingu um ólíkar tegundir af vitrænni skerðingu og tjáskiptaerfiðleikum, en þessum einstaklingum reynist erfitt að setja orð á líðan sína og þarfir. Marianne hefur ávallt lagt áherslu á að viðfangsefnin sem hún fæst við hafi klíníska skírskotun og að fylgja eftir rannsóknum á klínískum vettvangi til að mynda með gæða- og þróunarverkefnum.
Við sjáumst á Hjúkrun 2022!