Hjukrun.is-print-version

Fordæmisgefandi úrskurður: Embætti landlæknis ber að fjalla um kvörtunarmál sem beinast að heilbrigðisstarfsfólki án óþarfa tafa

RSSfréttir
16. desember2021

Í byrjun desember 2021 kvað heilbrigðisráðuneytið upp úrskurð vegna kæru Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fyrir hönd hjúkrunarfræðings vegna seinagangs embættis landlæknis við meðferð kvörtunarmáls. Var kæran lögð inn til heilbrigðisráðuneytisins og laut að meintri ólögmætri málsmeðferð embættis landlæknis sem m.a. fólst í brotum á málshraðareglu stjórnsýslulaga. Þegar liðin voru um tvö og hálft ár frá því að kvörtunin kom fyrst fram kærði Fíh málsmeðferð embættisins í kvörtunarmálinu til heilbrigðisráðuneytisins og krafðist þess að viðurkennt yrði að embætti landlæknis hefði brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við meðferð málsins. Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að það sé mat ráðuneytisins að landlæknir hafi í meðferð málsins brotið gegn 1. og 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða og jafnframt tekið fram að embætti landlæknis sé gert að ljúka meðferð málsins eins fljótt og auðið er. Í rökstuðningi ráðuneytisins er tekið fram að þegar embætti landlæknis fjalli um slík kvörtunarmál þá hafi álit þess að geyma niðurstöðu um hvort heilbrigðisstarfsmaður hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu og því hafi óréttmætar tafir á málsmeðferð í för með sér aukna bið sem geti verið íþyngjandi fyrir aðila málsins.

Fíh fagnar þessari niðurstöðu og bendir á mikilvægi þess að í málum sem þessum sé farið að stjórnsýslulögum. Embætti landlæknis er eftirlitsaðili og hefur með þessum úrskurði fengið skýrar leiðbeiningar. Það er mikilvægt að embætti landlæknis sé gert kleift að sinna slíkum málum og klára þau á eðlilegum tíma. Tafir í meðferð slíkra mála hafa valdið vanlíðan og óþarfa álagi á það heilbrigðisstarfsfólk sem hefur þurft að bíða álits embættis landlæknis. Starfstengt álag á heilbrigðisstarfsfólk hefur verið og er mjög mikið og því er mikilvægt að það þurfi ekki auk þess að búa við áhyggjur og óvissu svo árum skiptir ef upp koma kvörtunarmál.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála