Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur fordæmt hernaðaraðgerðirnar í Úkraínu og þær hörmulegu þjáningar og mannslát sem hafa orðið síðustu vikur.
Félagið vill leggja sitt af mörkum og hefur þegar lánað eina af orlofsíbúðum félagsins til notkunar fyrir flóttafólk frá Úkraínu. Jafnframt munu sameiginleg samtök hjúkrunarfræðinga á norðurlöndum (SSN) styrkja hjúkrunarfélagið í Úkraínu með veglegum fjárhagsstuðningi og er Fíh þeirra á meðal.
Frekari stuðningur við flóttafólkið, sem flest eru börn og konur, felst ekki einungis í fjárframlagi heldur einnig í ýmis konar aðstoð eins og sálrænum og félagslegum stuðningi. Vill því félagið skora á hjúkrunarfræðinga að hafa samband við opinbera stuðningsaðila eins og t.d. Rauða krossinn, UNICEF, Hjálparstarf kirkjunnar og Alþjóðaráð hjúkrunarfræðinga og leggja sitt af mörkum því leiðirnar eru margvíslegar. Félagsmenn eru einnig hvattir til að taka vel á móti flóttafólkinu og leiðbeina því á allan hátt á meðan það fótar sig í nýjum aðstæðum.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er einnig reiðubúið að aðstoða sérstaklega þá hjúkrunarfræðinga sem koma frá Úkraínu og hafa hug á að starfa hérlendis.